Svartstakkar í sjónvarpi

Pistlar
Share

Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var fjallað um útblástur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi á árinu 2015. Þar var aðeins einn litur, svartur, dreginn upp fyrir áhorfendur. Lögð var mikil áhersla á að útblásturinn hefði aukist og að það væri í andstöðu við nýjustu samninga stjórnvalda. En samkvæmt svonefndum Parísarsamningi að það ætti að minnka útblásturinn um 40% frá 1990 til 2030. Dregnir voru fram tveir viðmælendur sem lögðu áherslu á að almenningur yrði að draga úr sinni neyslu á öllum sviðum og kallað á stefnu stjórnvalda.

Það var engu líkara en að ekkert væri gert sem skipti máli í loftslagsmálum, framundan væri heimsendir eða svo gott sem og að almenningur yrði að bregðast við með miklum fórnum.
Loftslagsmálin eru mikið alvörumál og full ástæða til þess að taka alvarlega mat vísindamanna um hlýnun jarðar, ástæður hennar og afleiðingar.

En einmitt vegna þess á að forðast að nýta sér alvöru málsins til þess að mála myndina dekkri litum en efni standa til og það er ámælisvert að afflytja staðreyndir og þegja yfir því sem hefur verið gert og þeim árangri sem náðst hefur.

Útblástur hefur minnkað frá 1990

Þetta fannst mér vera sérstaklega áberandi í sjónvarpsfréttunum í gærkvöldi. Þetta var ekki fréttaflutningur heldur svartur málflutningur í anda núverandi Umhverfisráðherra. Það sést betur þegar tekið er saman það sem ekki kom fram:

Ekki kom fram að aukningin 2015 var aðeins 1,9% frá 2014 og þá á eftir að taka tillit til stóriðju og mótvægisaðgerða.

Ekki kom fram að losun án stóriðju hefur minnkað um 10% frá 1990 til 2014 þegar með er tekinn árangur vegna kolefnisbindingar.

Ekki kom fram að núverandi skuldbinding Íslands sem gildir fyrir árin 2013 – 2020 er að minnka um 20% útblásturinn án stóriðju en að teknu tilliti til mótvægisaðgerða frá 1990 fram til 2020.

Ekki kom fram að Ísland er komið hálfa leið til þess að standa við sitt.

Ekki kom fram að enn 5 ár til stefnu til þess að ná því markmiði og komast nær því að uppfylla skuldbindinguna.

Ekki kom fram að útblástur vegna jarðgufuvirkjana hefur aukist um 162% frá 1990 og því væri hægt að minnka útblásturinn aftur með vatnsaflsvirkjun í staðinn.

Ekki kom fram að losun vegna stóriðju er ekki sérstakt verkefni íslenskra stjórnvalda heldur sameiginlegt verkefni margra þjóða þar sem álframleiðsla á Íslandi eykur útblástur hér en minnkar hann í öðrum löndum þar sem álið er notað.

Ekki komi fram að losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar væri á hverju ári meira en tvöfalt meiri en öll skuldbinding Íslands. Útblásturinn með stóriðju um 4,6 milljónir tonna af CO₂ en rúmar 10 milljónir tonna fer út í andrúmsloftið árlega vegna landnotkunar.

Ekki kom fram að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (2017) telur að unnt verði að komast nálægt nýju markmiði um að minnka útblásturinn um 40% frá 1990 til 2030 með því auka við landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis.

Bjartari framtíð
Þegar þessi framangreind atriði eru höfð í huga blasir við allt önnur mynd en Ríkisútvarpið dró upp. Það er ekki allt á einn veg, heldur er staðan mun jákvæðari en ætla mætti. Svartstakkar vilja bara hafa svarta litinn á lofti og sjá bara svarta framtíð. Það er ekki svo. Það eru fleiri litir og bjartari í umhverfinu ef að er gáð. Þjóðir heims eru miklu meira samstíga í aðgerðum nú en nokkru sinni fyrr og hvað Íslendinga varðar hafa þeir staðið hingað til vel við sínar skuldbindingar.

Það má heldur ekki gleyma því að framfarir í tækni og vísindum eru lykilatriði í loftslagsmálum sem öðrum. Þær munu verða og árangurinn mun í kjölfarið verða meiri en nú er séð fyrir. Forsendurnar munu breytast til hins betra. Það er óþarfi að festast í því að sjá bara svartnættið framundan og kalla á píslargöngur hinna bersyndugu. Það er kosturinn við framtíðina að hún er aldrei óbreytt framlenging á fortíðinni.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir