Stofnanaofbeldi

Pistlar
Share

Enn er fyrirhuguð vegarlagning í Gufudalssveit komin í uppnám. Enn er það Skipulagsstofnun sem gerir allt sem í valdi stofnunarinnar er til þess að koma í veg fyrir framkvæmdina. Þetta er orðinn langur tími. Allt frá 2004 hefur verið ljóst að Skipulagsstofnun ætlaði sér að ráða því hvaða leið yrði farin þegar kæmi að því að færa vegakerfið í Austur Barðastrandarsýslu til nútímahorfs. Stofnunin hafði sterka stöðu þar sem lög færðu henni valdi til þess að banna og leyfa. Fyrir 13 árum hafnaði Skipulagsstofnun vegalagningu þar sem hinn nýi vegur fór um Teigsskóg.
Umhverfisráðherra, sem þá var Jónína Bjartmars felldi úrskurðinn úr gildi og heimilaði vegagerðina með ákveðnum skilyrðúm þó, með sérstakri vísan til umferðaröryggis. Málið var kært til dómstóla og felldi Hæstiréttur úrskurð ráðherrans út gildi með þeim rökum að aukið umferðaröryggi væri ávinningur af framkvæmdinni en varðaði ekki umhverfisáhrif og væri því ekki gild rök.

Þessi niðurstaða Hæstaréttar í október 2009 ætti að vera landsmönnum mikið umhugsunarefni. Í raun eru þá lögin ,sem Hæstiréttur dæmir eftir, þannig úr garði gerð að bætt öryggi vegfarenda má ekki skiptir ekki máli, heldur er einblínt þröngt á náttúruna án tillits til þess að mannfólkið er hluti af lífríkinu. Í þessu felst alveg ótrúleg firring og þeir sem mestu hafa ráðið um löggjöfina bera mesta ábyrgð á henni. Stofnanir eins og Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun og ráðandi embættismenn þar hafa verið mjög áhrifamiklir um lagasetninguna og eru það enn. Alþingismenn hafa ekki megnað að halda aftur af áköfustu hreintrúarnáttúruverndarsinnunum og fyrir vikið hafa einstakar stofnanir of mikil völd þrátt fyrir breytingar sem gerðar hafa verið á lögunum. Það er hreint stofnanaofbeldi sem birtist í því að almennum hagsmunum vegfarenda um öryggi sitt er fleygt á haugana en einstakir þættir gróðurfars eru hafnir upp til skýjanna sem það mikilvægasta í veröldinni.

Utan Elliðaár náttúruverndin

Það skal á engan hátt gert litið úr þeim sjónarmiðum að varðveita gróðurfar og aðra viðkvæma náttúru en það verður ávallt að gæta þess að hagsmunir fólks eru meiri hagsmunir í heildarmatinu. Það hefur líka verið meginreglan þegar opinberar stofnanir eins og Skipulagsstofnun metur framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, í nágrenni heimkynna embættismannanna. Það hefur ekki verið nein fyrirstaða sett við samgöngu- og byggingaframkvæmdir hversu umfangsmiklar þær hafa verið. Það er eins og ekkert sé það mikilvægt á því svæði að það trufli ró stofnunarinnar. Það má leggja vegi þvers og kruss, umbylta landi, fara yfir það sem fyrir er, byggja á hvaða reit sem er og Skipulagsstofnun segir ávallt amen á eftir efninu. Meira að segja hrökk enginn við þótt gamall grafreitur í hjarta borgarinnar, sem geymir elstu minjar um byggð á landinu var rifinn upp og beinun genginna safnað í gamla strigapoka.
En þegar komið er upp fyrir Ártúnsbrekkuna, að ekki sé talað um inn á Vestfirði verður náttúran svo viðkvæm og einstök að mannfólkið sem þar er á ferð á engan tilverurétt þegar litið er á málið frá skrifborði Skipulagsstofnunar. Það er næsta víst að ráðamenn á þeim bænum telja sig vera krossfara réttlætisins til varnar Jerúsalem náttúrunnar, Teigsskógi í Þorskafirði. Vestfirðingar eru ekki einir um það að gera athugasemdir við hina tvöföldu náttúruverndarstefnu sem rekin er.

1% varanleg skerðing

Hin efnislegu röksemdir Skipulagsstofnunar eru veikari en ætla mætti. Vegagerðin sem liggur að hluta um Teigsskóg veldur því að tímabundið raskast 18,9 ha svæði skógarins af 667 ha. Skipulagsstofnun vill frekar aðra leið, jarðgöng í gegnum Hjallaháls sem veldur þó 2 ha raski á sama skógi. Þegar tekið er tillit til þess skóglendis sem verður endurheimt að framkvæmdum loknum verður varanleg skerðin aðeins 7,8 ha á Teigsskógi ef farin er sú leið sem Skipulagsstofnun hefur í hálfan annan áratug barist á móti. Skerðingin með Teigsskógarleiðinni verðir aðeins 1% af skóglendinu umfram þá leið sem Skipulagsstofnun bendir á. Þetta er óveruleg röskun á skóglendinu sem verður enn auðveldara að bæta úr á hlýnandi tímum þar sem gróðurfar á Íslandi sækir fram. Er nema von að spurt sé: hvað á þessi meinbægni að þýða?

Kristinn H. Gunnarsson

Leiðari í blaðinu Vestfirðir 11. maí 2017

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir