Píratar ræna lýðræðinu

Pistlar
Share

Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar hafa komið sér í þá stöðu að stuðningur við þá er í algeru lágmarki og hefur aldrei verið rýrar að vöxtum síðustu 100 árin. Í síðustu könnunum eru flokkarnir fjórir, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking og Vinstri græn með samtals innan við 60% af fylginu. Í síðustu könnun Gallup eru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur samtals með aðeins 35% fylgi og hinir tveir Samfylking og Vinstri græn enn minna eða aðeins 24%. Í könnun MMR er mælingin svipuð. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mælast samanlagt með 32% fylgi og Samfylkingin og Vinstri græn eru með 21% fylgi. Í annarri könnunnini eru flokkarnir fjórir samanlagt eða 53% fylgisins og í hinni eilítið meira eða 59%. Til samanburðar má nefna að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn höfðu allt fram til kosninganna 2009 aðeins einu sinni mistekist að fá hreinan meirihluta á Alþingi.

Traust á þessum höfuðflokkum íslensks stjórnmálakerfis hefur aldrei verið lægra sem sést best á því að traust á Alþingi mældist aðeins tæplega 14% í könnun MMR sem birt var í desember 2015. Í sömu könnun sögðust 52% bera lítið traust til Alþingis. Þetta er hroðaleg útkoma sem verður enn dapurlegri þegar upplýst er að í sömu könnun naut sjálft Evrópusambandið mikils traust hjá hartnær tvöfalt fleiri Íslendingum eða 23% þrátt fyrir alla erfiðleikana sem hrjá sambandið. Einn eindregnasti Evrópusinni í íslenskum stjórnmálum um langt árabil, Jón Baldvin Hannibalsson, lýsir Evrópusambandinu sem brennandi húsi um þessar mundir. Fyrir hvern einn sem ber traust til fjórflokksins þá eru tveir sem vilja ganga inn í logandi hús Evrópusambandsins.

Óheilindi og ótrúverðugir

Það sem fyrst og fremst er að verða flokkunum að falli er það hversu ótrúverðugir þeir eru. Það er lítið samræmi milli stefnu og framkvæmda og skýringar á misræminu eru ýmist engar, ófullnægjandi eða hreinn fyrirsláttur. Endilangt ráðherragengi Sjálfstæðisflokksins lofaði því fyrir síðustu Alþingiskosningar að almenningur fengi að ákveða framhald viðræðna við Evrópusambandið en nú er horft framan í almenning án þess að blikna og sagt að það verði ekki. Það er ekki hægt að koma fram við kjósendur af meiri lítilsvirðingu en að segja að það sé pólitískru ómöguleiki að efna kosningaloforðið. Sama má segja um loforð um að afnema skerðingar á lífeyri til aldraðra.

Síðustu ríkisstjórnarflokkar, Samfylking og Vinstri grænir lofuðu hvor um sig fyrir Alþingiskosningarnar 2009 að innkalla fiskveiðikvótann og úthluta upp á nýtt fyrst og fremst með uppboðum og fengu stuðning meirihluta þjóðarinnar fyrir því. Þessi stefna hvarf strax og búið var að telja atkvæðin og þess í stað voru teknar upp samningarviðræður við útgerðina um framtíðarstefnuna og að lokum engu breytt. Nú koma þessir flokkar sem sömu stefnu og ætlast til þess að kjósendur trúi því að einhver meining sé þar að baki önnur en að verja auðæfi útgerðarauðvaldsins. Það er ekki einu sinni borið við að reyna að gefa skýringar á svikunum að öðru leyti en því að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar kenndi Vinstri grænum um.

Krafan um nýja flokka

Það er þetta háttalag forystumanna stjórnmálaflokkanna sem hefur grafið undan trúverðugleika flokkannna. Þeim er ekki treyst í þeim mæli sem áður var. Á bak við þetta háttalag skín í það hugarfar að stjórnmálaforystan standi utan og ofan við kjósendur; hún hafi völdin í sínum höndum að afloknum þingkosningum og viti hvað almenningi er fyrir bestu. Eðlilega líkar kjósendum ekki þetta framferði og kalla eftir breytingum með því að sýna vaxandi stuðning við aðrar stjórnmálahreyfingar. Þær eiga það sammerkt að hafa í forgrunni þá stefnu að fela kjósendum vald til þess að ráða málum til lykta. Einum og sér í lagi þeim málum sem mikilvæg þykja.

Þetta skýrir hvað best mikinn uppgnag Pírata á kjörtímabilinu. Þeir hafa áttað sig á því hver krafa almennings er og hafa svarað henni með skýrum hætti, svo sem með mikilli áherslu á stjórnarskrárbreytingar.

Það kemur því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar það verður morgunljóst eftir prófkjör Pírata í Norðvesturkjördæmi að forysta Pírata sýnir sama valdhroka og kjósendur eru að andmæla hvað mest. Prófkjör Pírata meðal flokksmanna er greinilega ekki til þess að ákveða hvernig listinn skuli skipaður heldur kemur í ljós að eitthvert flokkseigendafélag telur sig vita betur en flokksmennirnir og fer leynt og ljóst í það að breyta niðurstöðunni í samræmi við eigin vilja og hefur öll tök á flokknum til þess. Þeir gengu lengra en aðrir flokkar í því að ræna lýðræðislegri niðurstöðu. Þar með eru Píratar orðnir hluti af því valdakerfi sem þeir hafa hvað mest gagnrýnt.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir