Fyrningarleið útvegsmanna

Pistlar
Share

Útvegsmannasamtök standa fyrir mikilli áróðursherferð um þessar mundir gegn fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Með þeim í þessum leiðangri eru stjórnarandstöðuflokkarnir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Þeir virðast álíta þetta mál kjörið til þess að þétta raðir stuðningsmanna sinna og safna fylgi að nýju eftir hrakfarir síðustu alþingiskosninga. Það segir sína sögu um það hvernig forystumenn flokkanna skilgreina hlutverk þeirra.

Um langa hríð hefur yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar verið mjög óánægður með afleiðingar af framsalinu í kvótakerfinu, annars vegar auðsöfnun fárra í gegnum sölu veiðiheimilda og hins vegar hrunið í atvinnumálum, sem hefur orðið í hverju sjávarplássinu á fætur öðru, við sölu á þorra veiðiheimilda. Hins vegar er það minna umdeilt að stjórna veiðunum með aflakvótakerfi, þótt vissulega séu önnur sjónarmið uppi um það.

Þessi viðvarandi óánægja varð til þess að sett voru í lög ákvæði um endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða eftir Valdimarsdóminn sem féll í hæstarétti í ársbyrjun 1999. Það var til þess að skapa meiri sátt um kerfið. Tveimur árum seinna lauk þeirri endurskoðun á þann hátt, að þessir framangreindir aðilar, LÍÚ og stjórnmálaflokkarnir tveir ákváðu að breyta engu í kerfinu.

Tekið var upp svokallað veiðigjald, sem átti að vera greiðsla útgerðarmanna til ríkisins fyrir afnot af veiðiheimildunum. Gjaldið átti að vera umtalsvert í upphafi en var stöðugt útvatnað og lækkað og hefur aldrei verið neitt til þess að tala um, minna en 2 kr. fyrir hvert kg af þorski árlega. Endurskoðunin var sýndarmennska og sáttin var svikasátt.

Þar sem engu var breytt á síðasta áratug varð óánægjan með kerfið áfram viðvarandi og hefur síst minnkað þessi ár sem liðin eru. Hún er ein ástæða þess að gömlu stjórnarflokkarnir eru nú í stjórnarandstöðu. Nýja ríkisstjórnin hefur sett sér að gera langþráðar breytingar og er líkleg til þess að efna það. Þess vegna er þessi áróðursherferð í gangi.

Markmið LÍÚ og Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er að koma í veg fyrir allar breytingar á framsalinu. Þeir vilja hafa áfram óbreytta alla gallana. Nú, sem áður, leggja þessir aðilar ekki til neinar breytingar. Þeir vilja enga samninga, enga málamiðlun, aðeins að hafa sitt fram og undirstrika það með því að neita að starfa í þeirri nefnd ríkisstjórnarinnar sem á að undirbúa tillögur um breytingar.

En óbreytt getur kerfið ekki verið. Hafi verið þörf fyrir breytingar fyrir áratug eru þær enn augljósari núna. Gallarnir eru svo hrikalegir að blindur maður sér. Á fáum árum jukust skuldir sjávarútvegsins gríðarlega, fyrst og fremst vegna þess að einstakir menn seldur veiðiréttinn fyrir gríðarlegar fjárhæðir, stungu peningunum í vasann en eftir sitja fyrirtækin með skuldirnar. Þannig er staðan í dag. Skuldirnar eru áætlaðar vera um 600 milljarðar króna, sumir áætla þær enn meiri. Þetta eru margfaldar árstekjur greinarinnar. Þessi skuld jafngildir væntanlegum hagnaði samanlagt næstu 20 – 30 árin. Þær verða seint afskrifaðar, bankarnir þurfa að innheimta hvert það lán sem þeir geta og sjávarútvegurinn verður látinn bera sínar skuldir svo lengi sem hægt er.

Á vel innan við 10 árum, síðan tilrauninni til endurskoðunar lauk án árangurs, hafa tiltölulega fáir menn rakað saman gríðarlegu fé, sem nemur hundruðum milljarða króna, og það verður verkefni þeirra sem starfa í greininni á næstu áratugum að greiða bönkunum það fé. Svikasáttin hefur reynst þjóðinni dýrkeypt.

Hverjum dettur í hug að halda því fram að það sé heilbrigt kerfi? Jú, LÍÚ, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum dettur það í hug. Þessir aðilar vilja halda áfram á þessari vegferð og gefa nýjum mönnum líka tækifæri til að efnast á annarra kostnað.

Það verður verst fyrir atvinnugreinina ef ekki verður tekið fyrir þetta verðmæta- og eignaútstreymi úr sjávarútveginum. Útvegsmenn eiga að stunda útgerð og vonandi að efnast á henni. Þeir eiga fyrst og fremst að veiða fisk og láta þar við sitja. Núverandi framsal er banabiti sjávarútvegsins. Það verður vonandi ekki lengri bið á því að almannahagsmunir verði hafðir í fyrirrúmi.

Athugasemdir