Fjármálafyrirtækin borga ekki skattinn

Pistlar
Share

Nú er eðlilega rætt mikið um mikinn hagnað fjármálafyrirtækja og meðal annars bent á háar skattgreiðslur þeirra til ríkisins af hagnaðnum. Það er allt gott og vel, það er að segja ef fjármálafyrirtækin borga skattinn. En um það vil ég setja fram efasemdir, ég er ekki alveg viss um að reiknaðar skattgreiðslur skili sér í ríkiskassann þegar allt kemur til alls.

Þrjú dæmi vil ég draga fram til þess að færa rök fyrir efasemdunum. Það fyrsta er stórgróðafyrirtækið FL Group hf. Methagnaður varð á rekstri fyrirtækisins á síðasta ári eða 44.559 milljónir króna. Reiknaður 18% tekjuskattur er 7.547 milljónir króna sem er vissulega væn summa í kassann, en þegar að er gáð í ársreikningunum kemur í ljós að ríkið fær ekkert, öllum skattinum er frestað. Fyrirtæki geta nefnilega frestað skattgreiðslum með nýjum fjárfestingum.

Annað dæmið er Straumur Burðarás Fjárfestingarbanki. Fréttablaðið greinir frá því á laugardaginn að fyrirtækið hafi frestað 10 milljarða króna skattgreiðslu með því að fjárfesta í dótturfyrirtæki sínu.

Loks nefni í Eyri hf. fjárfestingarfélag. Hagnaður þess skv. ársreikningi 2006 varð 1.994 milljónir króna. Af honum ætti fyrirtækið að greiða 330 milljónir í skatt til ríkisins, en skattgreiðslunni allri er frestað, þannið að sameiginlegur sjóður landsmanna fær á þessu ári ekki eyri frá Eyri hf. fjárfestingarfélagi frekar en frá FL Group hf. eða Straumi Burðarási.

Hluthafarnir fá hins vegar eitthvað fyrir sinn snúð og þannig sýnist mér að hluthafar í FL Group hf. fái greitt um 34% af hagnaðinum eða 15 þúsund milljónir króna. Hluthafar í Eyri hf. fá 10% eða um 200 milljónir króna.

Það virðist ekki vera nóg að hafa þessar rúmu heimildir til þess að fresta því að greiða reiknaðan tekjuskatt af hagnaði fjárfestingarfélaganna heldur virðast eigendurnir leita frekari leiða til þess að koma sér hjá því að taka þátt í sameiginlegum kostnaði þjóðarinnar, eins og rekstri heilbrigðis- og menntakerfisins.

Mér var nýlega á það bent að svo virtist sem þróunin væri sú að eignarhald á hlutabréfunum væri fært í sérstakt hlutafélag. Það væri síðan í eigu dótturfélaga sem væru skrásett í Hollandi. Þótt tekjuskattur fyrirtækja það sé verulega hærri en hér á landi þá væri hagnaður af sölu hlutabréfa skattfrjáls. Stóru hagnaðartölurnar koma af sölu hlutabréfa fremur en rekstri fyrirtækjanna og er væntanlega talinn fram í Hollandi. Aðilar sem þetta munu stunda eru nefndir FL Group og Bakkabræður.

Ef þetta reynist vera rétt þá blasir við sú mynd að skattur af rekstrinum er talinn fram á Íslandi en ekki greiddur og hagnaður af sölu hlutabréfanna er talinn fram í Hollandi og enginn skattur greiddur hvorki þar né hér.

Þá er spurningin: Eru fjárfestingarfélögin þátttakendur í íslensku samfélagi eins og venjulegir skattgreiðendur? Gleymum því ekki að aldraðir greiða skatta af lífeyrisgreiðslum sínum. Þeim skatti verður ekki frestað.

Athugasemdir