Enn skrökvar Vilhjálmur

Pistlar
Share

Í febrúarmánuði síðastliðnum hélt Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, því fram í pistli á pressan.is að verðtryggð væru gífurlega óhagstæð miðað við óverðtryggð lán. Það myndi þurfa að greiða 88 mkr meira af 22 mkr verðtryggðu láni til 40 ára en óverðtryggðu. Heildargreiðslur af verðtryggða láninu yrðu í 5.81% verðbólgu á lánstímanum 149 mkr en aðeins 6o mkr af því óverðtryggða. Hafði Vilhjálmur uppi stóryrði um þessi kjör og lét svo um mælt að verðtryggt lán væri slík rányrkja að jafnvel Mafían á Sikiley hefði ekki samvisku til þess leggja slíka ofurvexti á „viðskiptavini“ sína.

Kjarninn í málflutningi er Vilhjálms að það yrði mikil kjarabót fyrir lántakendur ef verðtrygging á lánum yrði afnumin. Aðeins við þá einföldu aðgerð að banna verðtryggð lán og hafa eingöngu óverðtryggð lán myndu kjör almennings batna mikið.

Við staðhæfingar Vilhjálms voru strax gerðar athugasemdir og bent á að það stæðist ekki að raunvextir af óverðtryggða láninu væru aðeins 0.94% en 3.75% af því verðtryggða. Gera yrði ráð fyrir því að lánastofnunin ætlaði sér sömu ávöxtun af viðskiptunum hvort sem þau væri í formi verðtryggðs eða óverðtryggðs láns. Þessi raunvaxtamunur skýrir stóran hluta af mismuninum sem Vilhjálmur gerði að umfjöllunarefni. Þá var líka bent á að greiðslurnar féllu til með misjöfnum hætti og að Vilhjálmur legði saman greiðslur á 40 ára tímabili á og gerði engan greinarmun á verðgildi krónanna á fyrsta og síðasta greiðsluárinu. Greiðslurnar yrði að færa þær til sama verðlags til þess að bera verðgildi þeirra saman. Að teknu tilliti til þessara atriða er útreiknaður munur á aðeins um 5 mkr. sem skýrist af því að óverðtryggða lánið er greitt hraðar niður.

Vilhjálmur var engu að síður ófáanlegur til þess að leiðrétta rangfærslur sínar og stendur enn við fullyrðingar sínar. Síðan hafa aðrir opinberlega borið saman verðtryggð og óverðtryggð lán, enda eðlilega mikið í húfi fyrir lántakendur ef munurinn væri eitthvað í líkindum við það sem Vilhjálmur Birgisson heldur fram. Niðurstaða þeirra er hins vegar gagnstæð fullyrðingum Vilhjálms, óverðtryggðu lánin hefðu á undanförnum árum verið bæði með hærri vexti og þyngri greiðslubyrði.

Þann 8. mars birtist í Fréttablaðinu grein eftir Agnar Jón Ágústsson, hag- og viðskiptafræðing, þar sem hann bar saman greiðslubyrðina af verðtryggðu og óverðtryggðu láni frá 2006 til 2013. Gerði hann ráð fyrir 20 mkr láni til 25 ára og mánaðarlegar greiðslur. Miðaði hann vexti óverðtryggða lánsins við lægstu vexti banka og sparisjóði ásamt 2% vaxtaálagi til bankans og verðtryggða lánið var miðað við raunvexti Íbúðalánsjóðs.
Niðurstaða Agnars var mjög skýr. Vextirnir af óverðtryggða láninu hefðu orðið hærri á þessu tímabili heldur en af verðtryggða láninu. Óverðtryggðu vextirnir hefðu orðið 13.3%-14.8% og að auki 2% álagið, en 12.1% af því verðtryggða. Munurinn hefði orðið 3.6 mkr verðtryggða láninu í vil. Agnar Jón segir að lánsformið sé ekki vandamálið heldur háir raunvextir og sveiflukennd verðbólga á Íslandi. Um þessa grein hefur Vilhjálmur Birgisson þagað sem fastast og heldur áfram að skrökva því að félagsmönnum í Verkalýðsfélagi Akraness að verðtryggt lánaform sé jafngilt Mafíustarfsemi.

Í gær, 15. apríl, var í DV athyglisverð úttekt um þessi tvö lánaform. Greinarhöfundur er Annas Sigmundsson, blaðamaður. Niðurstaða hans var sú sama og Agnars, að greiðslubyrðin af verðtryggðu láni væri bærilegri en af óverðtryggðu. Annas miðar við 20 mkr lán, 3.95% vexti af verðtryggðu láni og 6.95% af óverðtryggðu. Greiðslubyrðin af 25 ára láni yrði 106 þús kr á mánuði af því verðtryggða en 138 þús kr af því óverðtryggða. Munurinn yrði enn meir af 40 ára láni. Blaðamaðurinn bendir líka á háa raunvexti hér á landi sem stóra vandamálið , en þeir eru mun hærri en víða erlendis. Enn þegir Vilhjálmur.

Það sem er alvarlegt við málflutning Vilhjálms Birgisson er að hann vísvitandi leitast við að afvegaleiða fólk og segir því ósatt. Þeir sem fylgja ráðum Vilhjálms munu fljótt reyna á eigin skinni að kjör þeirra munu versna en ekki batna eins og gefið er fyrirheit um. Verðtryggingin sem slík er ekki vandamálið heldur verðbólgan og óstöðugt efnahagsumhverfi. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur á undanförnum mánuðum verið í fundaherferð Framsóknarflokksins þar sem lofað er afnámi verðtryggingar með góðum árangri með hliðsjón af væntanlegu kjörfylgi.

Hvenær hyggst formaður Verkalýðsfélags Akraness hætta að skrökva að félagsmönnum sínum og almenningi? Fyrir alþingiskosningar eða eftir?

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir