Engin þjóðarsátt um áframhaldandi gjafakvóta

Pistlar
Share

Mánudaginn 4. júlí birtist grein í Morgunblaðinu eftir Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar Alþingis með hugmyndum hans um breytingar á kvótakerfinu í sjávarútvegi. Telur Jón Gunnarsson að með því megi ná fram þjóðarsátt um kerfið.

Kvótakerfið hefur verið mjög umdeilt alla tíð. Í þremur stórum könnunum Gallup, sem gerðar voru 1998, 2004 og 2007 mældist óánægjan með kerfið 64 – 72%. Þeir sem vildu breyta kerfinu voru frá 60% til 69% og 19 – 25% vildu hreinlega leggja það niður. Í nýjustu könnuninni var óánægjan 69% og þá vildu 25% leggja það niður. Óánægjan jókst með tímanum.

Á síðasta kjörtímabili Alþingis 2009 – 2013 voru við völd flokkar sem boðuðu róttæka breytingu á kerfinu og málið bar hátt í þjóðfélagsumræðunni. Fyrirtækið MMR gerði á árinu 2011 tvær kannanir um afstöðu almennings til þess hvaða breytingar nytu stuðnings. Niðurstaðan var ákaflega skýr. Kvótakerfið sem slíkt fékk stuðning en með þremur meginbreytingum. Í fyrsta lagi vildu 67% að kvótinn væri í eigu ríkisins. Í öðru lagi vildu 64% að allur kvóti yrði innkallaður og úthlutað að nýju eftir nýjum reglum. Og í þriðja lagi vildu 70% að kvótinn yrði leigður á verði sem endurspeglaði markaðsverð. Eigi að verða þjóðarsátt um sjávarútveginn verður því að breyta kvótakerfinu til samræmis við þessa skýru afstöðu almennings. Það verður engin þjóðarsátt að öðrum kosti.

Illt gert verra

Í tillögum Jóns Gunnarssonar er litlu breytt og áfram yrðu sömu gallar á kvótakerfinu. Hann leggur til að núverandi kvótahafar fái langtímasamninga og að veiðigjöld falli niður. Einhver ótilgreindur hluti veiðiheimilda hvers árs rynni til ríkisins sem myndi bjóða nýtingarréttinn þeim sem starfa í greininni. Jón Gunnarsson skýrir ekki nánar hugmyndir sínar um endurúthlutun og óvíst er hvort greitt yrði fyrir þann kvóta og þá hvaða verð. Í raun yrði lítil bót af þessum hugmyndum. Kvótinn yrði áfram í höndum núverandi kvótahafa og þeir myndu ekki greiða markaðsverð fyrir hann.

En segja má að illt yrði gert verra. Í stað ótímabundinnar úthlutunar væri kominn langtímasamningur við ríkið. Það gæti verið 20 – 25 ára samningur sé tekið mið af þeim tillögum sem komið hafa fram á Alþingi. Í dag getur Alþingi breytt lögum um kvótakerfið hvenær sem er án nokkurrar bótaskyldu. En hætt er við því að langtímasamningarnir verði þannig úr garði gerðir að ríkið verði bótaskylt ef lögum yrði breytt á samningstímanum sem hefðu áhrif á úthlutun kvótans eða verðgildi hans. Það yrði sannkölluð einkavæðing auðlindarinnar. Innköllun veiðiheimilda yrði ógerleg eftir að að slíkir samningar hefðu verið gerðir og veigamiklar breytingar á kvótakerfinu yrðu ríkinu mjög kostnaðarsamar. Full ástæða er til þess að óttast áform af þessu tagi.

Markaðskerfinu hafnað

Formaður atvinnumálanefndarinnar, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill festa í sessi til langrar framtíðar í sjávarútveginum, skipulag sem samkeppnislög landsins almennt banna. Verðmæt réttindi eru afhent fáum endurgjaldslítið og þeim heimilað að framleigja réttindin árlega á markaðsverði. Sömu aðilar mega vera ráðandi á markaði í veiðum, vinnslu, fisk- og afurðasölu. Þeir geta fært hagnað á milli greina nokkuð eftir eigin geðþótta og hlunnfarið launafólk um réttmæt laun. Samkeppnislög hafa verið sett fyrir löngu til þess að koma í veg fyrir svona aðstæður í atvinnulífinu vegna þess að fákeppni og einokun á markaði er almenningi skaðleg.

Það gildir í sjávarútvegi eins og öðrum atvinnugreinum, svo sem mannvirkjagerð og þjónustustarfsemi að best er að samkeppni sé fyrir hendi. Samkeppnislöggjöfin þarf að ná til úthlutunar veiðiheimildanna, sölu fisksins og sölu afurðanna. Auðlindarentan í sjávarútveginum er 35 – 40 milljarðar króna árlega. Opinberar skýrslur sýna að lítill hluti rentunnar kemur í hlut ríkisins en miklar fjárhæðir renna til eigenda fyrirtækjanna. Þetta fyrirkomulag er almenningi skaðlegt.

66% lækkun veiðigjalda

Á þessu kjörtímabili hafa veiðigjöld í botnfiskveiðum lækkað.Fiskveiðiárið 2012/13 var lagt á 32,70 kr gjald fyrir hvert 1 kg af þorski. Það var ákveðið af síðustu ríkisstjórn. Núverandi ríkisstjórn hefur fengið gjaldið lækkað og veiðigjaldið fyrir næsta fiskveiðiár 2016/17 verður 11,09 kr/kg af þorski. Lækkunin er um 66% á þessum fjórum árum.

Fiskveiðiárið 2012/13 var veiðigjaldið að teknu tilliti til veittra afslátta 14% af meðalleiguverði þorskvóta en á yfirstandandi fiskveiðiári er það aðeins 6%. Markaðsverðið á kvótanum hefur hækkað en veiðigjald til ríkisins hefur lækkað. Þeir sem leigja frá sér kvótann hafa aukið gróða sinn. Markaðsverðið á leigukvóta til kvótahafa er 182 kr en veiðigjald til ríkisins er 13,94 kr/kg fyrir afslætti. Um þetta kerfi getur aldrei orðið þjóðarsátt. Það þarf nýja úthlutun byggða á markaðsverði, jafnræði og samkeppni rétt eins og almenningur vill.

greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir