Áhrifaleysi Vestfirðinga

Pistlar
Share

Nýjasta reiðaslagið í atvinnumálum Vestfirðinga er lokun Landsbankans á bankaútibúunum í Bolungavík, á Suðureyri og Þingeyri. Samkvæmt fréttatilkynningu Landsbankans missa 11 manns vinnuna. Ekkert stendur eftir af þeim lánastofnunum sem voru starfandi fyriri hrun að frátöldum tveimur útibúum Landsbankans, á Ísafirði og Patreksfirði, og svo Sparisjóði Strandamanna á Hólmavík. Það stingur mjög í augu vanmáttur Vestfirðinga og áhrifaleysi þeirra í 6 ára löngu ferli þar sem stjórnvöld hafa leikið aðalhlutverkið.

Hæst hefur borið málefni Sparisjóðs Bolungavíkur og því lýkur með því algerum ósigri heimamanna. Lánastofnunin er þurrkuð af yfirborði jarðar og ekkert verður eftir sem minnir á merkilega aldar sögu sparisjóðsins, nema einn hraðbanki – kannski. Til þess að strá salti í sárin er það Sjálfstæðisflokkurinn sem veitir sparisjóðnum náðarhöggið í byggðarlagi forseta Alþingis og þar sem flokkurinn fékk liðlega 60% atkvæða í síðustu bæjarstjórnarkosningum.

Tap heimilanna

Þegar litið er yfir málið stendur upp úr að helstu þolendurnir eru sparifjáreigendur í Bolungavík og á Suðureyri. Ætla má að ríflega 100 fjölskyldur hafi við hrun Sparisjóðsins haustið 2008 tapað um 760 milljónum króna. Þetta er gríðarlegt áfall og þar liggur stærsta tjónið í málinu. á árinu 2007 var stofnfé Sparisjóðsins aukið um 518 milljónir króna. Ýmist lagði fólk sparifé sitt í kaupin eða það tók lán. Stofnféð var fært niður um 96% og segja má að það hafi algerlega tapast. Þeir sem höfðu tekið lán vegna kaupa á stofnfé sátu uppi með lánin og urðu að borga þau.

Því verður ekki andmælt að ábyrgðin á óförunum liggur mikið til heima í héraði hjá stjórnendum. Fjármálakerfið allt var á villigötum og sokkið ofan í andvaralausa græðgishugsun þar sem því var trúað að bara væri hægt að græða. Þetta átti við um fjármálastofnanir á Vestfjörðum eins og annars staðar , en breytir því ekki hvar ábyrgðin liggur.Lesningin um Sparisjóð Bolungavíkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ekki fögur.Þar er bent á losaralega stjórnun og frjálslega meðferð á reglum um lánveitingar.

Sparisjóðurinn setti stóran hluta af eigin fé sínu í eitt fyrirtæki Sparisjóðabankann Icebank og tapaði þar rúmum milljarði króna.Þetta heitir að setja öll eggin í eina körfu og hefur lengi verið vitað að í áhætturekstri gera menn ekki slíkt. Stórfellt tap varð á lánveitingum til veitingareksturs, lítils útgerðarfyrirtækis og ferðaþjónustu. Samtals voru afskrifaðar endanlega um 600 milljónir króna vegna þessara þriggja mála. Upplýsingarnar benda til þess að í þessu fámenna byggðarlagi hafi verið of mikil nálægð milli þeirra sem vildu fá lánað peninga og hinna sem tóku ákvörðun um lánveitinguna með þeim afleiðingum að stundum var siglt framhjá réttum reglum. Fámennur hópur athafnamanna spilaði með sparifé hundrað fjölskyldna.

Það verður líka að taka fram að ríkið lagði fram fé til endurreisnar sparisjóðsins. Framlag þess var 668 milljónir króna og tilkynnt var á vef Bankasýslu ríkisins á árinu 2010 að endurskipulagningu væri lokið. Annað kom fljótlega í ljós og næst var stefnt að því að sameina Sparisjóð Bolungavíkur við aðra sjóði og 2014 er hann sameinaður Sparisjóði Norðurlands. Þessi önnur tilraun dugði ekki heldur, fljótlega komu fréttir af því að lánasafn Sparisjóðs Bolungavíkur hefði reynst verra en áður var talið og þriðja aðgerðin var að leggja hinn sameinaða sparisjóð inn í Landsbankann. Hvort sem ríkið gekk of skammt eða ekki þá var reynt að bjarga sparisjóðnum og honum var lagt til mikið fé.

Áhrifaleysi Vestfirðinga

Þegar líður á björgunarferlið verður vart við tregðu og kulda í garð Vestfirðinganna. Eftir að fyrsta tilraunin mistókst er Sparisjóður Bolungavíkur færður undir sparisjóð á Norðurlandi eins og hver annar ómagagripur og síðan er honum kennt um að ekki tókst að gera hinn sameinaða sparisjóð að lífvænlegri stofnun. Það er ekki gott að gera sér grein fyrir sannleiksgildi þeirra ásakana, en framvinda málsins ber með sér að ráðamenn í ferlinu hafi á því stigi daufheyrst við óskum Vestfirðinga.

Að sama skapi verður vart við meiri skilning á viðhorfum Norðlendinga. Það kemur á óvart í ljósi röksemda Landsbankans fyrir lokun útibúanna þriggja að öll útibúin á Norðurlandi verða áfram opin, á Dalvík, Raufarhöfn, Þórshöfn og Kópaskeri. Það eru engin rök gefin sem útskýra þessa gerólíku niðurstöðu eftir staðsetningu. Landsbankinn segir að 80% allra samskipti viðskiptavina við bankann séu rafræn. Það hlýtur að eiga við Norðurland jafnt sem Vestfirði. Hvers vegna þarf útibú á Kópaskeri en ekki Þingeyri? Þessi rökstuðningur er óvirðing við starfsmenn bankans og viðskiptavini á Vestfjörðum.

Landsbankinn er ríkisbanki og stjórnendur hans taka ekki ákvarðanir í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar. Lokun útibúa á Vestfjörðum en ekki á Norðurlandi opinbera þá staðreynd að pólitísk áhrif Vestfirðinga innan stjórnarflokkanna eru hverfandi miðað við áhrif Norðlendinga. Það er hinn kaldi veruleiki sem skýrir ákvörðun Landsbankans.

Hagnaður Landsbankans síðustu 4 ár losar 100 milljarða króna. Það er leikur einn að setja fé í atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum til mótvægis við fækkun starfa í fjármálageiranum – ef pólitískur vilji væri fyrir hendi.

grein í blaðið bæjarins besta í lok september bb.is.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir