Flokkarnir hafna almenningi

Pistlar
Share

Endurbætur á lýðræðinu hefur borið hæst í stjórnmálunum frá bruni
viðskiptabankanna. Einkum á þann hátt að auka áhrif almennings á
endanlegar ákvarðanir í mikilvægum og umdeildum málum. Hefur
verið horft til ákvæðis stjórnarskrárinnar sem heimildar forseta Íslands
að neita að skrifa undir lög sem Alþingi hefur samþykkt og kalla þannig
fram almenna atkvæðagreiðslu um viðkomandi mál.

Þetta er þróun sem er í takt við breytingar í mörgum vestrænum lýðræðisríkjum. Kjósendur vilja
takmarka vald kjörinna fulltrúa með því að setja ákvæði í stjórnarskrá um
áhrif almennings. Þá er yfirleitt leiðin sú að almennir kjósendur geta með
því að safna tilteknum lágmarksfjölda undirskrifta knúið fram almenna atkvæðagreiðslu
sem síðan ræður niðurstöðunni.

Þessi lýðræðisvæðing hefur náð til Íslands og Icesave atkvæðagreiðslurnar tvær staðfestu vilja kjósenda til þess að grípa fram fyrir hendur alþingismanna og ráðherra og taka ráðin
af þeim. Af þessu má marka að kjósendur láta sér ekki lengur nægja að að
hafa einhver ráð í sinni hendi á kjördag til Alþingiskosninga á fjögurra ára
fresti. Kjósendur vilja geta gripið inn í störf löggjafarþingsins þess á milli og
reyndar líka sveitarstjórna og kallað mál til sín og ráðið því til lykta.

Flokkarnir fylgja með – í orði kveðnu

Þessi þróun er mikil eðlisbreyting á valdsviði kjörinna stjórnmálamanna og
það er við því að búast að hún mæti andstöðu frá þeim, sérstaklega æðstu
forystumönnum stjórnmálaflokkanna. Þeir hafa hingað til getað dregið til
sín óheyrileg völd í skjóli flokksaga og þannig þvingað fram málalyktir í umdeildum
málum sem næsta víst er að yrðu kolfelld ef almenningur kæmist að
málinu í tæka tíð.

Gleggsta dæmið er löggjöfin um stjórn fiskveiða frá 1990
þar sem framsalið og ótímabundna úthlutunum var lögfest. Á þennan hátt
hafa tveir – þrír flokksforingjar haft völd og stöðu sem minnir á tímana fyrir
daga lýðræðisins og almenns réttar kjósanda.

Það hefur líka ekki dulist neinum að hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsóknarflokkur
hefur áhuga á stjórnarskrárbreytingum í þessa veru. Forystumenn
þessara flokka vilja hafa völdin í sínum höndum og berjast leynt og
ljóst gegn viðleitni sem setur þeim skorður. Í þeirra huga er fulltrúalýðræðið
þannig að kjörnir fulltrúar ráða milli kosninga. Punktur. Þetta hefur komið
berlega í ljós í allri umræðunni um stjórnarskrárbreytingar.

Hins vegar hefur kveðið við annan tón hjá núverandi stjórnarandstöðu
Samfylkingu, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Pírötum. Allir þessir flokkar
hafa skýrt og greinilega barist fyrir almannavæðingu lýðræðsins. Allir styðja
þeir kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu og rétt borgaranna til þess að grípa
inn í ferli kjörinna fulltrúa – í orði kveðnu.

Reykjavíkurflugvöllur

Allir þessir fjórir flokkar eiga fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur og mynda
þar meirihluta. Þar er vettvangur þar sem sjá má hver hugur fylgir máli. Og
þar er einnig mál sem reynir á þennan yfirlýsta vilja flokkanna fjögurra. Það
er staðsetning flugvallarins í Vatnsmýrinni.

Borgarstjórnin hefur í hálfan annan áratug barist fyrir því að henda flugvellinum
burt úr Vatnsmýrinni. Almenningur hefur allan tímann verði
algerlega andvígur vilja borgarfulltrúanna. Það á bæði við um Reykvíkinga
og aðra landsmenn. Frá 70 – 85% eru andvígur áformum borgarinnar og
vilja hafa flugvöllinn þar sem hann er. Rúmlega 70 þúsund manns hafa
skrifað undir áskorun til borgarstjórnar um flugvöllinn og vilja hafa hann
áfram í Vatnsmýrinni. Þar af eru rúmlega 20 þúsund kjósendur í Reykjavík.
Það lætur nærri að vera um 22% kjósenda í Reykjavík miðað við kjörskrána
fyrir forsetakosningarnar í sumar.

En flokkarnir sem í orði kveðnu vilja hlýta
leiðsögn kjósenda skella við skollaeyrum og hafa undirskriftasöfnunina að
háði og spotti. Þegar kemur að landsmálunum vilja þessir sömu flokkar að
kjósendur geti með undirskriftasöfnun kallað fram atkvæðagreiðslu og þeim
finnst að undirskrift 15% kjósenda sé allt of há krafa.

Tvískinnungurinn sem fram kemur í afstöðu flokkanna fjögurra er yfirþyrmandi
og flokkunum til vansa. Það skín í gegn að þeir vilja ekki missa
völdin til almennings. Af einhverjum ástæðum telja forystumenn flokkanna
að þeir séu þess bærir að hafna almenningi. Aðeins þegar þeim hentar er
talað fjálglega um lýðræðið og þjóðaratkvæðagreiðslur. Þá eru þeir venjulega í
stjórnarandstöðu. Flokkar sem hafna þjóðinni uppskera í kjölfarið að þjóðin
hafnar þeim. Það er engin tilviljun að almenningur vantreystir stjórnmálaflokkunum
meir en nokkru sinni.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir