Mál að linni samsæriskenningum og ærumeiðingum

Pistlar
Share

Stóra tölvupóstmálið fyrir helgina reyndist stormur í vatnsglasi, sem átti sér eðlilegar skýringar eða kannski er réttara að segja mannlegar skýringar. Það er áhyggjuefni hversu margir voru tilbúnir til þess að trúa samsæriskenningum um illa innrættar persónur sem ætluðu sér að knésetja fulltrúa almennings.

Það er alveg skiljanlegt að brugðist sé hart við ef ætla má að handhafi opinbers valds ætli sér að kúga einstaklinga til þess að láta af skoðun sinni. En sá sem hafði frumkvæði að undirskriftarsöfnun gegn lækkun veiðigjaldsins hélt því aldrei fram. Hann tók það strax fram að hann léti aðstoðarmann ráðherra njóta þess að taka gildar skýringar hennar á því hvers vegna yfirmaður fékk afrit af töluvpósti um fundarboð og síðar tók hann af allan vafa um það að mannleg mistök voru ástæðan.

Samsæriskenningarnar um meinta skoðanakúgun voru alltaf á veikum grunni reistar. Sjávarútvegsráðherra hefur ekkert boðvald yfir umræddri ríkisstofnun, Reiknistofnun Háskóla Íslands. Hún heyrir undir annan ráðherra. Viðkomandi yfirmaður á Reiknistofnuninni vissi hvorki haus né sporð á málinu og hefur ekki orðið var við neinn pólitískan þrýsting, svo vitað sé. Þá var undirskriftarsöfnunin var komin það vel á veg þegar þetta gerðist, að það var engin leið að kæfa átakið eða stöðva það. Það mátti hver maður vita að tilraun til þess myndi bara snúast upp í andhverfu sína. Það er eðli samsæriskenninga að þær hljóma sennilega, að gefnum völdum forsendum, en reynast svo að jafnaði rangar.

Lögfræðingurinn, sem fór í fjölmiðla með eigin túlkun á atburðunum sem hótun, í mótsögn við frásögn þess sem málið varðaði, á nokkuð verk fyrir höndum til þess að skýra framgöngu sína, kannski sérstaklega vegna þess að hann er kunnugur bæði stjórnmálum og opinberri stjórnsýslu.

Það hefur verið talið til sönnunar um kúgunartilburði pólitíska valdsins að forsvarsmennirnir að undirskriftasöfnuninn,i Agnar Kristján Þorsteinsson og Ísak Jónsson, hafi verið boðaðir á fund Alþingis annars vegar og Sjávarútvegsráðherra hins vegar. Það er algerlega fráleit túlkun. Þeir tvímenningar taka forystu og hrinda af stað pólitískri atburðarrás og beina henni til Alþingis og gegn frumvarpi Sjávarútvegsráðherra. Þeir hafa fullan rétt til þess og hafa staðið vel að mínu mati. Þeir hafa að auki gefið út fréttatilkynningu þar sem þeir andmæltu fráleitum fullyrðingum ráðherrans í sjónvarpsviðtali. Þar með eru þeir komnir út á völlinn í pólitíska umræðu.

Það er eðlilegt að Alþingi og ráðherrann bregðist við og bjóði þeim til viðtals og til þess að kynna sjónarmið sín. Það er einmitt eðli og tilgangur svona framtaks að hafa áhrif og jafnan er sóst eftir því að fá áheyrn hjá viðeigandi ráðamönnum til þess að fylgja átakinu eftir. Það má frekar segja að það sé jákvæð breyting sem orðið hefur ekki þurfti að ganga eftir áheyrn ráðamanna. Forsvarmennirnir að undirskriftasöfnuninni hljóta að hafa þá uppburði að geta skýrt mál sitt og talað myndarlega fyrir skoðun sinni og annarra þeirra, sem hafa undirritað hafa áskorunina og ég ætla þeim ekki annað en að hafa gert það með sóma.

Þetta er alvarleg vísbending um ólgu og að mörgu leyti kvikt ástand í þjóðfélaginu um þessar mundir. Það er ekki ásættanlegt að hálfgerð múgsefjun grípi um sig af litlu tilefni og að reiðialda beinist að ósekju einkum að einni persónu, aðstoðarmanni ráðherra, sem ýmist er sögð nota vald sitt til þess að kúga málefnalegan andstæðing eða vera viljalaust verkfæri í höndum ráðherrans, sem sé í raun hinn illa innrætti í málinu. Svona er ekki hægt að koma fram við fólk. Það á að vera hægt að takast á um málefni án þess að yfirfæra átökin á meiðandi hátt yfir á persónur. Þessu verður að breyta, við getum ekki látið tortryggni, samsæriskenningar og óheflaða átakaumræðu eitra pólitíska umræðu og mannleg samskipti í þjóðfélaginu.

Aðalatriðið er aðhalda sig við málefnið og vinna umræðuna um sanngjarna skiptingu arðsins af auðlind þjóðarinnar og reka ríkisstjórnina á flótta frá því að bæta hag fárra á kostnað margra. Agnar Kristján og Ísak hafa gert sitt með málefnalegu framlagi og því á að halda áfram. Umræðan sjálf þarf að vera sanngjörn og heiðarleg gagnvart málefninu og einstaklingum. Þegar það tekst næst bestur árangur.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir