Óviðunandi umfjöllun Morgunblaðsins

Pistlar
Share

Umfjöllum Morgunblaðsins að undanförnu um veiðigjaldið í sjávarútvegi hefur verið algerlega óviðunandi. Efnistök hafa verið einhliða og gagnrýnislaus. Talsmenn nokkurra fyrirtækja hafa fengið að setja fram fullyrðingar sem eru í andstöðu við gögn frá opinberum stofnunum án rökstuðnings.

Morgunblaðið setti í leiðara fyrir nokkrum dögum mælikvarða á umfjöllun um mál fyrir Ríkisútvarpið og aðra fréttamiðla og því hæg heimatökin að nota hann. Í leiðaranum segir að það sé ekki aðeins sjálfsögð krafa "heldur einnig ófrávíkjanleg, að við meðferð máls, sem fær ítrekaða meðferð, sé umfjöllun í efnislegu jafnvægi og taki ekki mið af sérvisku einstakra fréttamanna eða þeirri pólitísku tilveru sem fréttastofan hrærist í". Morgunblaðið hefur ekki verið nægilega faglegt og það býður þeirri hættu heim að bent verði á það hverjir eru eigendur blaðsins og spurt um áhrif eigandanna á umfjöllun um mál sem stendur þeim fjárhagslega næst.

Mánudaginn 24. júní er viðtal við tvo menn sem eru í forsvari fyrir fyrirtæki, sem stunda bolfiskveiðar og vinnslu í Grímsey og á Tálknafirði. Annar segir að veiðigjaldið sé að ganga frá fyrirtækinu og hinn að ekkert sé eftir þegar búið sé að greiða gjaldið. Báðir segja í raun að byggðarlagið sé í hættu ef fyrirtæki þeirra gangi ekki. Þegar svo langt er gengið að íbúarnir eru teknir í gíslingu vegna veiðigjaldisins verður að spyrja nánar um skýringar.

Það er fullt tilefni til þess að kalla eftir rökum útgerðarmannanna. Hagstofa Íslands birtir gögn um afkomu í sjávarútvegi. Þau bera með sér að í rúman áratug hefur um 20% af rekstrartekjum verið eftir þegar búið er að greiða allan rekstrarkostnað og við hrunið batnaði afkoman og hefur verið um 30% síðan. Árið 2011 var þessi rekstrarafgangur, svonefnd EBITDA, 80 milljarðar króna. Veiðigjaldið er lagt á miðað við afkomu og er hluti afgangsins. Að óbreyttu hefði það orðið um 13,5 milljarðar króna eða innan við 20% af EBITDA. Þegar haft er í huga að Hagstofan tekur samkvæmt sínum reikniaðferðum frá 20 milljarða króna til þess að mæta fjármagnskostnaði og afskriftum er augljóst að veiðigjaldið gengur ekki nærri sjávarútveginum í heild og að hagnaður varð mjög ríflegur.

Stefán Gunnlaugsson, dósent við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri var fenginn til þess að meta áhrif frumvarpsins um veiðigjald sem nú liggur fyrir Alþingi. Hann athugaði reikning 25 stærstu fyrirtækjanna í sjávarútvegi , sem hafa um 70% allra aflaheimilda og fær út að afkoma þeirra 2011 hefði orðið sem svarar 185 kr í EBITDA á hvert þorskígildistonn. Bankastjóri Landsbankans telur að sama ár, 2011, hafi afkoman verið 245 kr fyrir blönduð sjávarútvegsfyrirtæki og 144 kr fyrir botnfiskfyrirtæki, sem var bæði í veiðum og vinnslu mælt á sama mælikvarða. Veiðigjaldið að þessum hagnaði var ákveðið 32.70 kr í botnfiskveiðum. Hvernig má það vera að þessi tvö fyrirtæki geti ekki risið undir gjaldi sem er innan við 20% af rekstrarhagnaði? Það þarf að skýra en Morgunblaðið gerir enga tilraun til þess.

Þann 28. júní gerir Morgunblaðið grein rækilega fyrir áliti Eskju hf á Eskifirði. Fyrirtækið ber sig illa undan veiðigjaldinu og fullyrðir að útgerðir án vinnslu í uppsjávartegundum muni eiga mjög erfitt og að reksturinn verði þungur hjá félögum sem eru bæði í veiðum og vinnslu. Svo er látið þar við sitja í umfjöllum blaðsins. Hvers vegna eru forsvarsmenn Eskju hf ekki beðnir um að bregðast við áliti Stefáns Gunnlaugssonar, sem fyrr er nefnt? Stefán segir að þar sem fyrirtæki í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski standi nær öll vel fjárhagslega og búi við traustan efnahag þoli þau flest vel hækkun veiðigjaldsins. Er skýringanna að leita í rekstri fyrirtækisins og skuldsetningu eða er mat óháðra og opinberra aðila rangt?

Ef síðarnefnda skýringin er sögð eiga við eiga forsvarsmenn fyrirtækjanna að leggja fram sín gögn og rökstuðning og Morgunblaðið á að leggja sig fram um að varpa ljósi á sjónarmið fyrirtækjanna og fá viðbrögð opinberu aðilana. Ef skýringin liggur hins vegar í því að afkoma viðkomandi fyrirtæki er langt undir meðaltali þarf að spyrja hvort eðlilegt sé að slakur rekstur stjórnendanna eigi að lenda á skattgreiðendum.

Það stendur alltaf eftir í allri umfjöllun um getu fyrirtækja í sjávarútvegi til þess að greiða fyrir veiðiréttinn, að það er rekinn umfangsmikill markaður á vegum LÍÚ með veiðiheimildir og þar liggur fyrir verðlagning útgerðarmanna sjálfra. Hún er margfalt hærri en það veiðigjald sem ríkið hefur ákveðið. Hvers vegna er það svo? Því forðast Morgunblaðið að svara. Blaðið getur gert miklu betur og á að gera það.

Greini birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 5. júlí.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir