Skiptir máli hver fær veiðigjaldið?

Pistlar
Share

Spurt er í frétt á bb.is í dag hvort veiðigjaldið í sjávarútvegi kostar störf í tilefni af fréttum um uppsagnir starfsfólks síðustu daga hjá útgerðarfyrirtækjum. Eigendurnir gefa þá skýringu að hækkun veiðigjaldsins neyði þá til þess að endurskipuleggja reksturinn og fækka starfsfólki. En þar sem gjaldtakan fyrir veiðiréttinn hófst fyrir rúmum 20 árum verður að spyrja á móti: skiptir máli hver fær veiðigjaldið? Nokkrir útvegsmenn bera sig illa yfir hækkun á hlut ríkisins í því sem innheimt er fyrir aðganginn að fiskimiðunum en þegja þunnu hljóði yfir þeirri staðreynd að þeir sjálfir hafa greitt þetta gjald af fúsum og frjálsum vilja, reyndar margfalt hærra.

Útvegsmennirnir hafa sjálfir verðlagt réttinn á markaði fyrir veiðiheimildir sem samtök þeirra, LÍÚ, rekur á skrifstofu sinni. Ríkið er ekki að hækka aðgangsverðið að miðunum heldur að breyta skiptingunni á þegar ákvörðuðu verði. Eftir hækkun ríkisins munu veiðiheimildir í viðskiptum milli útvegsmanna lækka í verði sem nemur hækkuninni. Það á við um aflamarkið og líka „varanlega kvótann“ aflahlutdeildina. Væntanlega verður heildaraðgangsverðið að miðunum það sama á eftir, enda hefur ekkert breyst í rekstrinum.

Frá sjónarhóli útvegsmanna er breytingin slæm þar sem þeir fá minna í sinn vasa þegar þeir leigja eða selja veiðiheimildirnar síðar. Því er við því að búast að þeir berjist um á hæl og hnakka gegn breytingunni, þeir vilja frekar fá allan arðinn í eigin vasa en að deila honum með almenningi. Þetta verða menn að haga í huga.

Allt frá því framsalið var leyft árið 1990 hefur það leitt af sér hagræðingu. Störfum hefur fækkað um mörg þúsund bæði á sjó og í landi og það þekkja Vestfirðingar öðrum betur. Veiðigjaldið hefur virkað til mikillar hagræðingar. Þegar HG Gunnvör og Jakob Valger ehf keyptu kvótann af Hinrik Kristjánssyni á Flateyri árið 2007 fyrir uppsprengt verð þýddi það auðvitað kröfu um hagræðingu í fyrirtækjunum. Það kostaði störf, en eigendurnir fóru ekki í fjölmiðla til þess að kvarta yfir sínu hlutskipti eða framsalinu. Framkvæmdastjóri HG hefur ekki haldið því fram að þau kaup væri landsbyggðaskattur. Þó hætti seljandinn, sá sem fékk peningana, rekstri og flutti til Hafnarfjarðar.

Það er vegna þess að þeir sátu einir að hagnaðinum og um það snýst þessi deila, hve mikið af verðmætinu sem felst í aðganginum að fiskimiðunum á að renna til almannaþarfa og hve mikið til þeirra 166 aðila sem áttu allan þorskkvótann í aflamarkskerfinu síðast þegar upplýsingar þar um voru teknar saman. Svarið við spurningunni í fyrirsögn greinarinnar er já, það skiptir máli hver fær gróðann. Þeir sem hingað til hafa fengið hann vilja ekki láta af sínum hlut.

Veiðigjald ríkisstjórnarinnar er jafnófullkomin leið til þess að innheimta fiskveiðiarðinn og veiðigjald ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins var árið 2002. Það byggir á meðaltölum en ekki á stöðu einstakra fyrirtækja. En engu að síður verða starfsskilyrði fyrirtækja í sjávarútvegi að jafnaði ekki verri vegna skattsins en áður, þegar litið er til viðskipta með veiðiheimildir eftir að hækkunun tekur gildi. Verðið á veiðiheimildunum mun lækka til jafns við hækkun á hlut ríkisins.

Hins vegar geta þeir sem keypt hafa veiðiheimildir fyrir hækkunina og eru bundnir af samningum lent í vanda, ef hækkunin til ríkisins bætist við kaupverðið. Þess vegna þarf aðlögun að hækkuninni og sanngjarnt er að hækkun veiðigjaldsins komi ekki til framkvæmda í þeim tilvikum fyrr en að kaupverðið hefur verið greitt. Það mun taka nokkur ár að innleiða hækkun á veiðigjaldi til fulls. Eðlilegt er að útvegsmenn miði gagnrýni sína við þetta atriði og leggi fram sín rök fyrir því að aðlögunarferlið sé ósanngjarnt. Það er í lögunum gert ráð fyrir því að taka tillit til þegar gerðra fjárfestingar í veiðiheimildum. Ef til vill er það ákvæði ófullnægjandi, en það er útvegsmanna að rökstyðja það.

Þeir geta ekki barist gegn veiðigjaldi, þeir hafa sjálfir komið því á, viðhaldið því , hækkað það og vilja hafa það áfram , en bara fyrir sig.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir