Sanngjörn jöfnun skulda

Pistlar
Share

Ari Trausti Guðmundsson ritar í Mbl andsvar við grein minni í Fréttablaðið fyrir skömmu og kallar eftir því að kreppuskuldunum verði jafnað með sanngjörnum hætti. Vill hann sérstaklega að sá hópur ,sem ræður sæmilega við skuldir sínar, fái bætt minnkandi eignarhlut í íbúðarhúsnæði. Telur hann það sanngjarnt enda séu dæmi um afskriftir hárra skulda af hlutafélögum.

Ari Trausti tekur undir þá skoðun mína að forsenda jöfnunaraðgerða sé að einhver skaði hafi orðið.Það er ekki hægt að jafna kreppubyrðar hjá þeim sem engar byrðar ber vegna ástandsins. Það er lykilatriði málsins. A.m.k. tveir stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, auk Hagsmunasamtaka heimilanna hafa ályktað um almenna lækkun allra verðtryggðra húsnæðisskulda. Kostnaðurinn yrði gríðarlegur og myndi allur lenda á ríkissjóði. Í framhaldinu yrði að skerða harkalega framlög til velferðarkerfisins í heilan áratug. Það borgar alltaf einhver að lokum.

Eigi hins vegar að verða sæmileg sátt um viðamiklar fjárhagstilfærslur í þjóðfélaginu verður aðgerðin að vera sanngjörn og réttlát að mati allra aðila. Það þarf að viðurkenna sjónarmið annarra í málinu og kannski ekki hvað síst þeirra sem ætlað er að bera kostnaðinn. Þótt ég sé sammála Ara Trausta um gagnrýni á miklar afskriftir skulda hjá einstökum fyrirtækjum þá verður sú ósanngirni ekki bætt með því að beita óviðkomandi einstaklingum ósanngirni. Hvað gerðu þeir af sér? Ara Trausta ferst eins og Gretti Ásmundarsyni forðum, sem taldi best svo böl að bæta að bíða annað meira.

Sanngirnin skilgreind.

Fyrst og fremst þarf jafnræðis að vera gætt milli einstaklinga þannig að sambærileg mál fái sambærilega afgreiðslu. Fátt er líklegra til þess að teljast ósanngjarnt og vekja deilur en mismunun í sambærilegum málum. Jafnræðisreglan er þar að auki bundin í stjórnarskrá svo framhjá henni verður ekki komist. Þess vegna er ekki hægt að miða við einn atburð, einn tíma og fáeina staði á landinu. Sambærilegt verðfall á fasteignum verður að bæta með sama hætti hvar sem er þær eru á landinu, án tillits til þess hvenær verðfallið varð, innan skynsamlegra tímamarka þó og vegna orsaka sem ekki verður sagt að einstaklingurinn beri ábyrgð á.

Sem dæmi má nefna að íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum lækkaði í verði um 28% að raunvirði á árunum 1998-2004 og um 50% sem hlutfall af verðinu á höfuðborgarsvæðinu. Fleiri dæmi eru til af þessum toga frá byggðarlögum um land allt.Langalvarlegust eru áhrifin af miklum samdrætti í þorskveiðum og framsali veiðiheimilda frá 1991. Það eru hvort tveggja afleiðingar stjórnvaldsákvarðana sem fjölskyldurnar bera enga ábyrgð á. Það er líka hrun og það olli líka kreppu.

Setja verður skynsamlegar skorður við rétti til skuldalækkunar. Rétt er að miða við hóflegt húsnæði til eigin nota og hóflegt kaupverð. Verð á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu fór fyrir hrun langt yfir byggingarkostnað og byggðist á ímynduðum verðmætum sem aldrei voru til. Eðlilegt er að miða réttinn við byggingarkostnað að hámarki. Þá þarf að líta til þess að almenna reglan er að einstaklingar eru sjálfstæðir í sínum fjármálum . Sanngjarnt er þess vegna að þeir beri ábyrgð af verðsveiflum húsnæðis að einhverju marki sjálfir.

Eigi að nást samkomulag þurfa eigendur lífeyrisréttinda að fallast á að skerða réttindin sín. Það er vandséð að þeir muni samþykkja slíkt ef þeir telja aðgerðina ósanngjarna. Þess vegna verður að virða alla gerða verðtryggða samninga. Þá er mögulegt að samkomulag verði um lækkun raunvaxta , ef útfærsla og dreifing skuldamillifærslunnar er að þeirra mati sanngjörn. Sú vaxtalækkun getur skipt sköpum fyrir marga skuldara.

Fjármögnun aðgerðarinnar er erfiðasti hjallinn í átt að sanngjörnu samkomulagi. Allir sem hlut eiga að máli verða að leggja sitt af mörkum. Lífeyrissjóðirnir eru einn aðilinn, aðrir eru viðskiptabankarnir, sveitarfélögin, fasteignaheildsalar og þeir sem hagnast af sölu íbúðarhúsnæðs og veiðiheimilda. Eigi að tryggja einstaklinga fyrir tapi af verðþróun eigna fylgir því óhjákvæmilega að skattlagður verður hagnaður af sömu verðþróun. Þeir sem njóta tryggingaverndar verða að leggja eitthvað af mörkum. Ríkissjóður yrði líklega að leggja til fé í upphafi inn í skuldajöfnunina, en myndi síðar endurheimta það með skatttekjum af veiðigjaldi, söluhagnaði á íbúðarhúsnæði og lóðarleigu og skatti á hagnað af útlánum til húsnæðiskaupa.

Það er örugglega mögulegt að ná samkomulagi í þessu mikla deilumáli í þjóðfélaginu. En þá verða Ari Trausti og aðrir sem hugsa eins og hann að líta upp úr eigin hagsmunum og horfa á málið í heild og leggja sig fram um að skilja sjónarmið annarra og umfram allt að sýna sanngirni. Lykillinn að samkomulagi um jöfnun kreppuskuldanna felst einmitt í sanngirninni. Þar á Ari Trausti eftir að koma með frekara framlag.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir