Tillaga að persónukjöri

Pistlar
Share

Mikill vilji er til þess meðal almennings að kosningakerfinu verði breytt í átt til aukins persónukjörs. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá um síðustu helgi lýstu yfir stuðningu við það. Sérstök spurning um það efni var samþykkt með ríflega 78.000 atkvæðum af þeim 116.000 sem greiddu atkvæði. Það gerir um 69%. Stuðningurinn er enn meiri ef litið er eingöngu til þeirra sem tóku afstöðu til málsins. Þá reyndist hann vera um 78.5%.

Að auki má nefna að 64% samþykktu sjálf drögin að nýrri stjórnarskrá sem grundvöll . Þar er í 39. grein frumvarpsins mælt fyrir um kosningafyrirkomulagið án þess að tillaga væri gerð um það hvernig auknu persónukjöri yrði fyrirkomið. Það verður því verkefni Alþingis að koma fram með tillögu sem mætir skýrum og ótvíræðum vilja almennings.

Í þessum skilaboðum tel ég að felist vilji kjósenda til þess að geta í auknum mæli kosið frambjóðendur til þingsetu af fleiri en einum framboðslista. Kjósendur vilja ráða meira og vilja að flokkarnir eða flokksforystan ráði minna. Það hefur lengi verið veruleg óánægja með vaxandi tök flokksforystunnar í öllum flokkum og þá þróun að flokkarnir sammælast um að verja hvern annan með því að gera öðrum framboðum erfitt fyrir, sérstaklega er afar snúið fyrir einstaklinga að efna til framboðs.

Segja má að fjárhagslegur og tæknilegur þröskuldur sé orðinn afar hár fyrir þá aðila sem hyggjast blanda sér í stjórnmálin og veita flokkunum sem fyrir eru einhverja samkeppni. Löggjöfin er þess eðlis að ef samkeppnislög giltu um stjórnmálastarfsemi yrði hún dæmd af dómstólum landsins með sterka tilhneigingu til sem einokunar og lýðræðinu verulega skaðleg. Minna má að í upphafi voru alþingiskosningar eingöngu persónukjör, en smám saman færðist löggjöfin til listakosninga og frá 1959 var persónukjöri eiginlega útrýmt.

Að sama skapi hefur vaxið persónulegt vald fáeinna forystumanna stjórnmálaflokkanna sem hafa í höndum sér í reynd bæði framkvæmdavald og löggjafarvald. Það samanþjappaða vald er að mínum dómi eitt af alvarlegu vandamálunum í íslensku þjóðfélagi sem gerðu hrunið mögulegt í þjósi þess hversu greiðan aðgang harðsnúnir hagsmunaaðilar eiga að forystumönnunum. Það er knýjand nauðsyn á því að brjóta niður þennan valdamúr. Það verður helst gert með því að úthýsa ráðherrum af Alþingi og svo með því að auka persónukjör. Þá verður valdajafnvægið eðlielgra í íslenskum stjórnmálum og nær því sem núverandi stjórnarskrá gerir í raun ráð fyrir þegar mælt er fyrir um aðskilnað valdþáttanna.

Þessi sjónarmið voru ástæðan fyrir því að ég ákvað að leggja fram sérstakt frumvarp í marzmánuði 2009 á Alþingi um aukið persónukjör. Í ljósi þess að breytingar verða helst gerðar í áföngum lagði ég til að 9 þingsæti af 63 yrðu kosin með beinu persónukjöri úr kjördæmunum 6. Að öðru leyti yrði fyrirkomulagið svipað því sem menn þekkja. Flokkarnir myndu bjóða fram lista sína og þeir yrðu áfram meginstoðin í kosningakerfinu. Kjósandinn fengi hins vegar tvö atkvæði. Með öðru kysi hann einhvern framboðslistann í sínu kjördæmi og með hinum atkvæðaseðlinum myndi kjósandinn kjósa í persónuþingsætið einn mann eða konu úr hópi einstaklinga sem byðu sig fram. Persónusætin yrði tvö í hverju höfuðborgarkjördæmanna og einn í hverju landbyggðarkjördæmanna. Einstklingar gætu verið á lista og boðið sig líka fram í persónusæti og þeir gæti þess vegna verið algerlega utanflokka.

Með þessu móti yrði tekið upp persónukjör og hægt yrði að meta reynsluna af því að nokkrum tíma liðnum og þá ákveða næstu skref.

Ríkisútvarpið rifjaði upp í gær þetta frumvarp og má hlusta á kynninguna á vef þess: ruv.is

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir