Kvótakerfinu hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu

Pistlar
Share

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær kom fram skýr og ótvíræður vilji til þess að gera róttækar á kvótakerfinu í sjávarútvegi. Segja má að núverandi kvótakerfi hafi verið hafnað og sömuleiðis frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram í vor um breytingar á kvótakerfinu. Stjórnarflokkarnir geta ekki litið framhjá því að kjósendur gefa með svörum sínum fyrirmæli um að efna loforðin sem gefin voru fyrir síðustu Alþingiskosningar um breytingar.

Um 73% þeirra sem kusu vildu að náttúruauðlindir landsins, sem ekki eru í einkaeigu, verði lýstar þjóðareign. Þetta á við um fiskistofnana umhverfis landið. Þá studdu 63% aðalspurninguna, sem var að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Tölurnar eru hærri ef aðeins er miðað við þá sem tóku afstöðu og þeim sleppt sem skiluðu auðu. Þá verða þær 82% og 66%.

Í 34. grein frumvarpi stjórnlagaráðs eru mjög ákveðnar tillögur um réttindin til þess að nýta auðlindirnar. Núverandi kvótakerfi gengur gegn þeim í 5 atriðum og með nýrri stjórnarskrá verður þeim lagaákvæðum sjálfkrafa vikið til hliðar hafi Alþingi ekki áður gert nauðsynlegar breytingar. Líta verður svo á að þeir sem samþykktu spurninguna um nýja stjórnarskrá styðji þar með 34. greinina um náttúruauðlindinar. Mögulegt er að einhverjir hafi samþykkt tillöguna um stjórnarskrá sem grundvöll þrátt fyrir að vera mótfallnir auðlindagreininni í frumvarpinu. En í ljósi þess hvað fiskveiðimálin eru mikilvæg tel ég að flestir þeirra sem þetta getur átt við hafi greitt atkvæði gegn frumvarpinu í heild og því gefi niðurstaðan góða mynd af stuðningi landsmanna.
Þessi fimm atriði í 34. grein frumvarpsins að nýrri stjórnarskrá eru:

í fyrsta lagi að tekið er fram að réttindin til þess að nýta auðlindirnar séu þjóðareign eins og auðlindirnar sjálfar og að enginn geti fengið þau til eignar eða varanlegra nota,
Í öðru lagi verður bannað að selja eða veðsetja auðlindirnar og réttindin,
Í þriðja lagi verður leyfi til þess að nýta auðlindirnar aðeins veitt gegn fullu gjaldi og
Í fjórða lagi til hóflegs tíma í senn. Loks
Í fimmta lagi skal veita nýtingarleyfin á jafnræðisgrundvelli.

Þetta getur ekki orðið skýrar. Núverandi kvótakerfi fellur á öllum þessum fimm atriðum og síðasta frumvarp stjórnarflokkanna brýtur gegn öllum nema kannski fyrsta atriðinu um þjóðareignina.

Spyrja má um gildi atkvæðagreiðslunnar. Vissulega var kjörsóknin ekki nema tæplega 50%. Hins vegar er afstaðan svo afgerandi að það vegur upp hugsanlega óvissu vegna kjörsóknar. Því til viðbótar má svo benda á þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið undanförnum árum hafa sýnt sambærilegan stuðning við ofangreind efnisatriði. Það er ekki hægt að efast um vilja kjósenda í þessu máli. Þeir hafna algerlega grundvallaratriðum í umdeildri gildandi löggjöf um fiskveiðistjórnun loksins þegar þeir fá tækifæri til þess með þjóðaratkvæðagreiðslunni að segja hug sinn beint og milliliðalaust.

Forsætisráðherra hefur þegar gefið það út að fara verði eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og að lítið svigrúm sé til breytinga á frumvarpi stjórnlagaráðs. Þar með er oddviti ríkisstjórnarinnar búinn að gefa línuna. Nú reynir á það hvort hún ráði ferðinni og hvort stuðningsmenn LÍÚ – valdsins innan stjórnarflokkanna láti loksins af sérhagsmunagæslunni.

Vilji kjósenda er skýr að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslunni. Helsta óvissan er um raunverulegan vilja forystumanna stjórnarflokkanna.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir