Aftur til 19. Aldarinnar með húsbóndavaldi kvótakerfisins

Pistlar
Share

Kvótakerfið er nær eingöngu rætt út frá hagfræði. Það er eins og hagræðing, peningar og gróði séu einu atriðin sem skipta máli. Það gleymist að allt snýst um fólk þegar upp er staðið. Kerfið á að þjóna fólki, skapa því atvinnu og tekjur og gera því kleift að lifa góðu lífi sem sjálfstæðir þegnar í stéttlausu þjóðfélagi. En kerfið er að snúa þjóðfélagsgerðinni á haus.

Fáeinum handhöfum alls fiskveiðikvóta á Íslandi hefur verið með langtímaeinokun á veiðiheimildum og auðævum sem því fylgir fært yfirþyrmandi vald yfir örlögum fólks í nærfellt öllum byggðarlögum landsins. Blind ríkisstjórnin leggur til að þessum fámenna hópi verði afhent óafturkræft til næstu 20 ára áframhaldandi vald til þess að brjóta niður hið einsleita og stéttlausa íslenska þjóðfélag og færa það til þjóðfélagsgerðar 19. aldarinnar með húsbændum og vinnuhjúum.

Á aðeins 20 árum hefur með framsalinu þeim fækkað sem stunda útgerð svo að í sumum sjávarplássum er enginn kvóti og í öðrum kannski 1-3 fyrirtæki sem ráða yfir einhverjum kvóta. Þeir sem vinna við veiðar eða vinnslu eiga ekki í mörg hús að venda. Sama á við þá sem veita þjónustu eða eiga starf sitt og kjör undir útgerðinni með óbeinum hætti. Það er búið að endurvekja óttann sem áður var við danska einokunarkaupmanninn og harðbrjósta óðalsbóndann á dögum vistarbandsins. Fólki er ljóst hverjir það eru sem ráða og hverjum það á að hlýða.

Það getur hver maður séð hvert stefnir ef það verður svo að íslensku „faktorarnir“ fái með lögum annað 20 ára tímabil til þess að hirta og tyfta almenninginn. Undanfarnar vikur hefur þjóðin fengið hvert dæmið af öðru sem lýsir því hvernig grundvallarbreyting er að festast í sessi á þjóðfélaginu.

Einn af stærstu aðilunum, Samherji, brást við rannsókn Seðlabanka Íslands á því hvort fyrirtækið hafi virt gjaldeyrislögin með því að svipta starfsfólk sitt á Dalvík vinnunni. Það var tekið í gíslingu til þess að knýja opinbera stofnun til þess að hætta við rannsóknina. Með þessu sýndu eigendurnir að þeir ætla ekki að lúta lögum eins og hver annar í þjóðfélaginu heldur ætla að sýna yfirvöldunum það hver ráði. Viðbrögðin staðfesta það mat að stjórnendur fyrirtækisins hafa í krafti stærðar sinnar og fjárhagslegra aflsmuna mikið vald og eru óhræddir að beita því. Það þarf enginn að láta sér detta annað í hug en að þeir beiti afli sínu og valdi gagnvart öðrum í öðrum málum þegar þeim þykir þess þurfa.

Viðbrögð fulltrúa almennings og launamanna á svæðinu einkenndust af ótta við valdið. Bæjarstjórinn á Dalvík fór silkihönskum um þessa valdníðslu og formaður Einingar var enn undirgefnari og hnjóðaði í Seðlabankann en hafði skilning á afstöðu þeirra sem misbeittu valdi sínu. Þetta lýsir stöðunni eins og hún er orðin í Eyjafirði. Hún einkennist af ótta við auðinn og valdið sem tangarhald fáeinna einstaklinga á kvótanum hefur fært þeim.

Samherjamálið er ekki það eina sinnar tegundar. Fyrr á þessu kjörtímabili refsuðu stjórnendur HG Gunnvarar í Ísafjarðarbæ bæjaryfirvöldum af því þau gerðu ekki það sem stjórnendurnir vildu í tilteknu máli. Einn togari fyrirtækisins var látinn landa afla sínum utan bæjarfélagsins og það þannig svipt tekjum. Svo verður það að koma í ljós hvort bæjarfulltrúarnir verða hér eftir þægir leppar í skónum sem útgerðarvaldið gengur í.

Stjórnendur Síldarvinnslunnar efna til íllinda við stjórnvöld vegna fyrirhugaðra lagabreytinga og hótar starfsmönnum því að segja verði upp svo og svo mörgum sjómönnum. Sama sagan heyrist fá fleiri fyrirtækjum í öðrum plássum. Stjórnendurnir beita starfsfólkinu hiklaust fyrir sinn málstað og knýja fram undirskriftir og yfirlýsingar frá því gegn stjórnvöldum. Húsbóndavaldið er orðið algerlega grímulaust. Hvernig halda menn að sé að ætla sér að búa og starfa á Akureyri, Neskaupstað, Vestmannaeyjum eða Grindavík og vilja ekki verða við kröfum eigendur útgerðarfyrirtækisins sem á staðinn? Launamaðurinn er orðinn verkfæri kvótagreifans og er í sambærilegri stöðu og vinnuhjú 19. aldarinnar.

Kvótakerfið er orðið fyrst og fremst þjóðfélagslegt vandamál. Mannfræðingar, landfræðingar og félagsfræðingar ættu að vera kallaðir til og fengnir til þess að segja sitt álit. Greining þeirra og tillögur eru mun líklegri til þess að skila almenningi raunhæfum lausnum en grátkór peningamannanna, hagfræðinganna, endurskoðendurna og bankastjóranna.

Það er kominn tími til þess að ýta til hliðar eigingjörnu og sjálfselsku gróðfíklunum sem skuldsettu sjávarútveginn upp í rjáfur einvörðungu í eigin þágu. Þá fáum við betra þjóðfélag og fólki mun líða betur.

Athugasemdir