Það munar um minna – mikið til fárra

Pistlar
Share

Í síðustu viku skrifuðu tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar grein í Fréttablaðið og vöktu athygli á því að greidd hefði verið sérstök vaxtaniðurgreiðsla til tugþúsunda húseigenda um allt land. Ríflega 90 þúsund húseigendur hefðu fengið greiddar samtals 2.7 milljarða króna. Meðalgreiðsla á mann var tæplega 30 þúsund krónur. Það er lítið til margra. Fjármálaráðherrann og efnahags- og viðskiptaráðherrann sögðu muna um minna. Satt er það.

En ráðherrarnir gefa fleirum, þótt þeir hafi ekki getið þess í greininni. Á þessu ári fá 30 aðilar 13 milljarða í gjöf frá ríkisstjórninni. Það eru eigendur uppsjávarfiskiskipa sem eru í svona miklum metum hjá ríkisstjórn hins vinnandi manns. Gjöfin er veiðigjaldið, sem greitt hefði verið á þessu ári af loðnu- og makrílveiðum, ef innheimt væri það veiðigjald sem stjórnarflokkarnir hafa nú lagt til að verði sett. En af tillitsemi við útgerðarmenninina 30 var ákveðið að byrja ekki að innheimta gjaldið fyrr en í haust með nýju fiskveiðiári. Eftirgjöfin er ríflega 433 milljónir til hvers og eins útgerðarmanns. Það er mikið til fárra. Það munar líka um það.

Undanfarin ár hefur verið gríðarlegur hagnaður af veiðum á uppsjávarfiski. Líklega verður hagnaðurinn fyrir afskriftir og fjármagnskostnað þetta árið um 40% af tekjum.

Loðnuveiðar ársins gengu eins og í sögu. Veiddar voru um 550 þúsund tonn og útflutningsverðmætið er talið verða 30 milljarðar króna. Veiðigjaldið sem ríkið fékk er um 300 milljónir króna. Það hefði hins vegar orðið um 6000 milljónir ef innheimt hefði verið skv frumvarpinu sem fyrir Alþingi liggur. Framundan eru makrílveiðar ársins. Áætlað er að veiða um 150 þúsund tonn og útflutningsverðmætið verður líklega einnig um 30 milljarðar króna. Veiðigjaldið af makrílveiðunum verður um 550 milljónir króna, en það hefði orðið um 7.7 milljarðar króna miðað við frumvarpið.

Þrettán milljarðar króna er munurinn. Veiðigjaldið, sem hefði runnið í ríkissjóð ef innheimt hefði verið gjaldið sem til stendur að leggja á frá og með næsta hausti, hefði verið 13 milljörðum króna hærra en það sem útgerðarmennirnir 30 greiða. Ríkisstjórnin ákvað vísvitandi og að yfirlögðu ráði að gefa fáum mikið, en vekur ekki athygli á því með greinarskrifum. Um það er þagað. Líklegt er að ráðherrarnir skammist sín, en þeir létu sig hafa það samt að gefa fáum mikið.

Þessi þrettán milljarða króna hefði verið gott að fá í ríkissjóð. Þá hefði ekki þurft að ráðast með blóðugum niðurskurðarhníf á heilbrigðisstofnanir á Húsavík, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Akranesi. Þá hefði ekki þurft að velta vaxandi byrðum af kostnaði heilbrigðiskerfisins yfir á sjúklingana. Þá hefði ekki þurft að loka líknardeildinni á Landakoti. Þá hefði kannski verið hægt að draga úr vaxandi sköttum á launþega. Og þá hefði kannski verið hægt að senda hverjum húseigenda 60 þús kr vaxtaniðurgreiðslu í stað 30 þúsunda kr. Kannski hefði verið hægt að gera ein jarðgöng.

Þetta er val. Ríkisstjórnin hefur alltaf valið í sinni hendi, hún getur gefið mörgum lítið og fáum mikið. Hún getur líka valið að gefa fáum lítið og mörgum mikið. Þetta er lítil saga af vali eins árs, 2012, af ráðstöfun tekna af veiðum tveggja fisktegunda. Hægt er að ímynda sér hvernig fjárhæðirnar væru ef öll fjögur árin, 2009, 2010,2011 og 2012 og veiðigjald af öllum fisktegundum ætti í hlut.

Á þessum tíma hefur hagnaðurinn í útgerðinni orðið um 200 milljarðar króna, af honum fengu skattgreiðendur aðeins um 10 milljarða kr með veiðigjaldinu. Á þessum tíma hefur um 200 milljörðum króna verið velt á skattgreiðendur í formi hærri skatta og niðurskurðar á ríkisútgjöldum. Skattgreiðendur fengu allar þessar byrðar. Þetta er pólitískt val og ekkert annað um það hvernig tekjum og byrðum er jafnað niður í þjóðfélaginu.

Nú er kjörtímabilið að verða búið og það er of seint að innheimta gróðann af liðnum tíma, það verður ekkert endurval í þeim efnum. Hvað voru jafnaðarmennirnir að hugsa?

Athugasemdir