Loðnugróði nn 9 milljarðar króna – leiguverðið 14 sinnum hærra en veiðigjaldið

Pistlar
Share

Árið 2012 verður uppsjávarútgerðinni, veiðum og vinnslu, gjöfult ekki síður en síðasta ár. Ætla má skv. opinberum upplýsingum að hreinn hagnaður af yfirstandandi loðnuvertíð verði um 30% af útflutningstekjum. Er þá búið að draga frá tekjum allan kostnað og árgreiðslu, sem á að mæta afskriftum og fjármagnskostnaði.

Hagsmunaaðilar og sjávarútvegsráðherra hafa áætlað að útflutningstekjur af þeim 550 þúsundum tonna af loðnu sem veiða má á yfirstandandi vertíð verði um 30 milljarðar króna. Hreinn hagnaður af útgerð skipanna 20 sem skipta aflahlutdeildinni á milli sín og vinnslufyrirtækjanna má áætla um 9 milljarða króna út frá fyrirliggjandi upplýsingum um afkomu ársins 2010 og verð- og kostnaðarþróun í sjávarútvegi síðan.

Það þarf opinbert leyfi til þess að stunda þennan atvinnurekstur, rétt eins og hvern annan. Fyrir það leyfi er greitt svonefnt veiðigjald sem er 0,94 kr fyrir hvert kg af úthlutuðu kg af loðnu. Ríkið mun fá um 500 milljónir króna í veiðigjald af 9 milljarða króna hreinum hagnaði.

Í venjulegu markaðshagkerfi tekur leyfisgjald mið af afkomu atvinnurekstursins. Nefna má sem nærtækt dæmi verð á veiðileyfum í laxveiðiám. Í íslenska kvótakerfinu er það ekki alveg svo. Gjald ríkisins er ákveðið í lögum eftir samningaviðræður í reykfylltum bakherbergjum milli ráðherra og LÍÚ. Útgerðarmönnum líst ekkert á að láta veiðigjaldið ráðast á markaði og hafa fengið að ráða því síðan Sjálfstæðisflokkurinn fékk yfirráð í sjávarútvegsráðuneytinu árið 1991.

Hins vegar mega útgerðarmenn leigja kvótann frá sér gegn gjaldi og fá aðra útgerðarmenn til þess veiða hann í sinn stað. Það verð sem þá er greitt má kalla markaðsverð. Töluvert hefur verið leigt af loðnukvóta síðan fyrir lá eftir áramótin að vertíðin yrði gjöful. Um 23.000 tonn hafa verið leigð á síðustu vikum og meðalverðið sem fengist hefur fyrir hvert leigt kg er um 14 kr. skv upplýsingum sem finna má á vef Fiskistofu. Það er ríflega 14 sinnum meira en ríkið tekur.

Þarna liggur fyrir skjalfest að útgerðarmenn eru reiðubúnir að greiða hver öðrum 14 sinnum hærra verð fyrir að fá að veiða loðnuna en þeir greiða ríkinu, sem á veiðiréttinn. Skýrari verður ekki staðfestingin á því að veiðigjaldið til ríkisins er alltof lágt miðað við afkomuna í greininni um þessar mundir. Veiðigjald útgerðarmanns til annars útgerðarmanns er 14 kr, en til ríkisins er það aðeins 0,94 kr.

Ríkið hefði fengið um 7 milljarða króna fyrir veiðiréttinn í stað 500 mkr ef verðlagning útgerðarmanna sjálfra á markaði hefði verið viðhöfð við frumúthlutunina og eftir hefðu samt staðið um 2 milljarðar króna af hreina hagnaðinum. Það var ekki gert. Þess vegna var úthlutunin ekkert annað en beinn ríkisstyrkur; gjafabréf sem selt var fyrir brot af verðmætunum.

Hvenær mun almenningi standa það til boða að fara í Kringluna og kaupa þar gjafabréf í verslanir á niðursettu verði frá ríkinu? Til dæmis að kaupa úttektarheimild fyrir 1,4 milljón kr en borga bara 100 þúsund kr fyrir. Það mundi þykja allnokkur búhnykkur. En 20 útgerðarmenn eiga einkarétt á ríkisaðstoðinni.

Athugasemdir