Blindir fréttamenn: 2/3 voru þegar í vanskilum fyrir hrun

Pistlar
Share

Fréttamenn Ríkisútvarpsins voru algerlega blindir á kjarnann í fréttum sem þeir hafa flutt í fréttatíma sjónvarpsins um helgina, bæði laugardags- og sunnudagskvöldið. Fluttar voru fréttir frá Creditinfo um alvarleg vanskil fjárráða einstaklinga. Sagt var að aldrei hefðu fleiri verið í alvarlegum vanskilum og birtar tölur um þetta fyrir nokkur síðustu ár. Þar kom fram að um 26.000 einstaklingar væru núna í þessum hópi eða tæp 9% þeirra sem eru fjárráða. Í hópnum hefði fjölgað um 10 þús manns síðan árið 2006. Með alvarlegum vanskilum er átt við vanskil við fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki sem hafa varað lengur en 90 daga.

Ríkissjónvarpið lagði áherslu á slæmt ástand væri , sem aldrei hefði verið verra. Þetta var neikvæð frétt. En fréttamönnunum mistókst algerlega að sjá þessar augljósu þrjár staðreyndir:

– Skv. gögnum Creditinfo eru liðlega 91% þeirra sem fjárráða eru ekki í alvarlegum vanskilum.
Því verður seint haldið fram að það séu hamfarafréttir að nær allir séu, sem betur fer, ekki í alvarlegum vanskilum. Eftir það sem á hefur gengið í þjóðfélaginu með hruni gengisins og bankanna er það hin augljósa frétt að svona gott ástand skuli þó vera. Það hefði verið eðlileg fyrirsögn. En RÚV sá bara myrkrið.

– Það kom fram í fréttinni að árið 2006, sjálft helsta góðærisárið, þegar gull glóði við hvers manns fót, hefðu samt verið um 16 þúsund manns í alvarlegum vanskilum. Þeim hefði því fjölgað um 10 þús manns. Með öðrum orðum, 2/3 af þeim sem eru nú á vanskilaskrá voru það þegar vel fyrir hrun. Að vísu eru líklega nema að hluta til um sömu einstaklingana að ræða, sumir eru búnir að koma sínum fjármálum úr
þessum vanda, en aðrir hafa bæst við. Fréttin sem blasir við öllum, nema RÚV, er að vandinn var að meginhluta til orðinn til fyrir hrun. Hruninu verður því ekki kennt um nema að litlu leyti. Glöggir fréttamenn hefðu velt því upp hvers vegna. Kannski hafa aðgerðir stjórnvalda eftir hrun bara verið sæmilega heppnaðar þegar allt er á botninn hvolft, hver veit. En RÚV sá bara myrkrið.

– Þriðja atriðið sem vekur athygli er ósamræmið við tölur Hagstofunnar. Nýleg könnun stofnunarinnar sýndi það mat , að um 27.000 heimili væru í vanskilum. Það er mun hærri tala en Creditinfo sýnir. Það eru eflaust skýringar á þessu misræmi, til dæmis í ólíkum skilgreiningum, en það er einmitt hlutverk fréttamanna að leita þeirra. En RÚV sá bara myrkrið.

Fréttin sem RÚV flutti opinberar að fjárhagsvandi margra á sér aðrar rætur en banka- og gengishrunið. Hrunið hefur verið notað til þess að draga athyglina frá þeirri staðreynd. Það hefði verið upplagt fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins að vekja athygli því og gera að umfjöllunarefni. En það sjá aðeins þeir sem ekki eru blindir á samhengið sem staðreyndirnar benda á.

Athugasemdir