Plan B: Amma borgar

Pistlar
Share

Ritari Framsóknarflokksins heldur því fram í aðsendri grein í Fréttablaðinu að verðtryggingu hafi verið komið á til þess að steypa fólki í skuldir með hjálp verðbólgunnar. Þarna er staðreyndum snúið á haus. Verðtryggingu var komið á til þess að koma í veg fyrir að skuldarar, meðal annars þeir sem reistu sér hurðarás um öxl, gætu fyrir tilstilli verðbólgunnar komið sér undan því að greiða skuldina.

Fyrir daga verðtryggingarinnar var reikningurinn sendur til gamla fólksins, til ömmu, sem þá eins og nú, átti peningana sem bankarnir voru að lána. Undir forystu formanns Framsóknarflokksins, Ólafs Jóhannessonar, var verðtrygging lögfest árið 1979, enda var allur sparnaður, undirstaða lánsviðskipta, að hrynja í landinu. Þessi lagasetning hefur reynst íslenskri þjóð mikið gæfuspor og þeim til mikils sóma sem að henni stóðu. Á grunni verðtryggingarinnar byggðist upp mikill sparnaður, einkum í formi lífeyrisréttinda. Þessi sparnaður hefur verið notaður síðustu 30 ár til þess að fjármagna atvinnuuppbyggingu og framfarir sem leitt hafa til einna mestu lífskjaraumbóta sem um getur í Íslandssögunni.

Verðtryggingin býr ekki til neinar skuldir, en tryggir að lántakandinn endurgreiði þau verðmæti sem hann fékk að láni. Það er hægt að lána fé án verðtryggingar, en skuldarnir greiða alltaf svipaða fjárhæð upphæð að lokum, vextirnir heita bara öðrum nöfnum. Þess vegna munu óverðtryggð kjör ekki lækka skuld eða vaxtakostnað. Það er blekking sem haldið er að fólki um þessar mundir að óverðtryggð kjör þýði kjarabót fyrir skuldara. Hið gagnstæða er líklegra, vextir hafa hingað til verið hærri af óverðtryggðum lánum.

Frá janúar 2000 til 2008 hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 169%, en verðtrygging skulda var á sama tíma aðeins 45% , aðeins fjórðungur af eignahækkuninni. Frá janúar 2008 hefur dæmið snúist við, fasteignir hafa lækkað um 10% en verðbólgan hefur verið 35%. Engu að síður er hækkun eigna yfir allt tímabilið 142% og verðbólgan 96%. Skuldirnar þyrftu að hækka til þess að haldast í hendur við verðhækkun eignanna. Hver er þá vandinn á höfuðborgarsvæðinu við verðtryggingu lánsfjár?

Það fer hins vegar ekki á milli mála að Eygló Harðardóttir boðar að afnám verðtryggingar eigi að lækka skuldir. Það verður þá einhver að borga reikninginn. Þar horfir ritari Framsóknarflokksins til sparifjáreigenda og eigenda lífeyrisréttinda. Reikningurinn verður ekki sendur þeim sem högnuðust á gífurlegri verðhækkun fasteigna heldur til ömmu.

Athugasemdir