Ríkið gefur 9 milljarða króna vegna makrílveiða sumarsins.

Pistlar
Share

Stjórnvöld meðhöndla útgerðarmenn með silkihönskum á sama tíma og landsmenn bera byrðarnar af bankahruninu. Makrílveiðar sumarsins eru einn mesti gróðavegur sem um getur um árabil. Verðið er hátt og vinnslukostnaður fremur lítill þegar litið er til afurðaverðs erlendis. Ætla má að ríkissjóður hefði haft um 9 milljarða króna í tekjur fyrir veiðiréttinn, ef fylgt hefði verið þeim reglum sem það hefur markað sér. Þess í stað verður innheimt veiðigjald aðeins um 140 milljónir króna. Hvað veldur því að ríkissjóður telur sig geta fært útgerðarmönnum þessa sumargjöf í miðjum þrengingunum og sársaukafullum niðurskurði á viðkvæmum rekstri sjúkrastofnana?

Makrílveiði ársins varð um 156.000 tonn og ætla má að útflutningsverðmæti verði um 33 milljarðar króna. Fyrir liggur að í ágústlok var búið að flytja út 57.000 af frystum makríl fyrir um 11 milljarða króna. Meðalverð var þá um 200 kr/kg eða um 20% hærra en sumarið 2010. Fiskvinnslur innanlands buðu a.m.k. 130 kr/kg í makríl til vinnslu. Þá þarf einnig að hafa í huga að Samherji keypti af færeyskum stjórnvöldum makrílkvóta til veiða fyrir 100 kr/kg.

Útgerðarmenn hafa ekki þurft að kaupa makrílkvóta, enda veiðarnar svo nýlega til komnar í íslenskri fiskveiðilögsögu og bera því engar skuldir við öflun veiðiheimilda. Það má því líkja stöðunni við viðbótarveiðar á skötusel. Ríkið selur veiðikvótann á 176 kr/kg og auk þess þurfa útgerðarmenn að greiða veiðigjaldið sem er um 15 kr/kg á yfirstandandi fiskveiðiári.

Þegar litið er til þess verðs sem fæst fyrir skötusel á fiskmarkaði þá er ríkið að taka til sín um þriðjunginn af aflaverðmætinu. Þetta er ákvörðun ríkisins, þ.e. Alþingis og ríkisstjórnar, um það hvað sé hæfilegt gjald fyrir veiðarnar, þegar svo stendur á að útgerðarmaðurinn ber engann annan kostnað af því að afla sér heimildanna. Útgerðarmenn hafa fúslega tekið þessu tilboði og skötuselsheimildirnar hafa runnið út. Það er til marks um það að veiðarnar eru arðbærar þrátt fyrir þriðjungs hlut ríkisins af aflaverðmætinu.

Ef gert er ráð fyrir því að ¾ af makrílveiðum sumarsins, 156.000 tonnum, seljist að jafnaði fyrir 130 krónur til vinnslu innanlands og af því greiðist þriðjungur í veiðigjald til ríkisins þá verður það 43 kr/kg eða samtals 5 milljarðar króna. Og ef gert er ráð fyrir því að útvegsmenn greiði fyrir ¼ kvótans 100 kr/kg eins og Samherji gerði fyrir færeyska kvótann, þá fær ríkið fyrir þann hluta 4 milljarða króna. Samtals fengi ríkið 9 milljarða króna í sinn hlut af makrílveiðunum.

Það var ekki gert. Ríkið mat verð á makríl lágt í samanburðu við þorsk og innheimtir í veiðigjald aðeins 14% af þorksgjaldinu. Aðeins þurfti að greiða ríkissjóði 6,44 kr fyrir hvert kg af þorski á síðasta fiskveiðiári og þess vegna var veiðigjaldið af makríl hvorki meira né minna en 90 aurar fyrir hvert kg. Það gerir heil 0,7% af 130 kr sem fengust a.m.k. fyrir hvert veitt kg. Samtals renna 140 milljónir kr. í ríkissjóð vegna hins hófsama veiðigjalds.

Það verður ekki annað sagt en að stjórnvöld umgangist makrílútgerðir landsins af ýtrustu nærgætni. Það er töluvert afrek að gefa frá ríkissjóði 9 milljarða króna í tekjur um þessar mundir.

Athugasemdir