Sértækur vandi

Pistlar
Share

Skýrsla sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna staðfestir að fyrst og fremst er um sértækan vanda að ræða fólks á höfuðborgarsvæðinu, sem keypti á árunum 2004-2008, er yngra en fertugt og er líklega ekki að kaupa sína fyrstu íbúð.

Á vef Ríkisskattstjóra má sjá að samkvæmt upplýsingum úr síðustu skattframtölum eru aðeins um 60% af skuldum heimilanna vegna íbúðarkaupa. Vandinn er, þegar að er gáð, takmarkaður. Hann er staðbundinn og aldursbundinn við þá sem spiluðu í fasteignabólunni, þar sem hún var. Þeir sem græddu telja sig eiga hagnaðinn, hví skyldi tapið verða þjóðnýtt?

Meginreglan er sú að þeir beri ábyrgð á viðskiptum sem að þeim standa. Þannig hefur það verið í verðfalli fasteigna víða um land á undanförnum tveimur áratugum. Íbúðareigandinn tapaði stundum sínum eignarhlut og bankinn tapaði stundum sínu láni. Það þarf sterk rök til þess að annað eigi að gilda nú.

Staðan er sú að aðeins um 8% heimila er í greiðsluvanda. Til samanburðar voru tvöfalt fleiri í vanskilum á árunum 1993-1997. Viðskiptabankarnir lánuðu gríðarlegar fjárhæðir á árunum 2004-2008 með veði í íbúðarhúsnæði til annarra hluta en íbúðarkaupa. Þeir lánuðu til kaupa á hlutabréfum, sumarbústöðum, bílum, einkaneyslu svo nokkuð sé nefnt. Enginn veit hversu mikið, en fjárhæðin skiptir tugum ef ekki hundruðum milljarða króna. Skuldir heimilanna til annars en íbúðakaupa eru liðlega 500 milljarðar króna.

Það er líka upplýst í skýrslunni að almenn niðurfærsla skulda er langdýrust en gagnast samt aðeins 1 af hverjum 5 sem eru í greiðsluvanda og að vandi þess hóps eru lágar tekjur. Samt eru háværustu kröfurnar einmitt um þessa leið, sem sendir reikninginn af einkaneyslu, hlutabréfakaupum og öðru slíku til skattgreiðenda.

Þetta er það sem Framsóknarflokkurinn, Hreyfingin, Hagsmunasamtök heimila á Höfuðborgarsvæðinu og Talsmaður neytandans Gísla Tryggvasonar krefjast. Þau líta svo á að ósanngjarnt sé að sá sem naut verðmætanna endurgreiði lánið. Þau líta svo á að sanngjarnt sé að aðrir borgi, sem engan hlut áttu að málum, svo sem lífeyrisþegar, gamalmenni á hjúkrunarheimilum á landsbyggðinni og að sjálfsögðu útlendingar.

En hvers vegna er það sanngjarnt?

Athugasemdir