Stóriðjan styrkir Ísland og Austurland

Pistlar
Share

Uppbygging stóriðju hefur verið eitt af stærstu deilumálunum í þjóðfélaginu, mest var deilt um Kárahnjúkavirkjun og álver við Reyðarfjörð. Sérstök verkefnisstjórn, sem frá upphafi hefur fylgst hefur með samfélagsáhrifum framkvæmdanna á Austurlandi , skilaði nýlega af sér lokaskýrslu. Í meginatriðum gengu eftir áform stjórnvalda um þjóðhagslegan ávinning og um atvinnusköpun og styrkari byggð á áhrifasvæði framkvæmdanna. Áhyggjur um þenslu og verðbólgu vegna þessara gríðarlega miklu framkvæmda reyndust óþarfar. Einkennilega hljótt er um jákvæða niðurstöðu þessarar víðtæku og vönduðu rannsóknar sem stóð árum saman.

Helst fór úrskeiðis að stjórnvöld réðu illa við innflutning erlendra starfsmanna í stórum stíl og svo hitt að byggt var of mikið af íbúðarhúsnæði. Spár sem gerðar voru virðast hafa gengið nokkuð vel eftir en byggt var um 70% umfram áætlaða þörf. Í október 2009 stóðu 218 íbúðir auðar á miðsvæði Austurlands. Reyndar gerðist það sama á höfuðborgarsvæðinu. Vorið 2009 voru þar um 2300 fokheldar íbúðir ónotaðar og um 900 íbúðir til viðbótar í smíðum en ekki orðnar fokheldar. Stóriðjuframkvæmdirnar geta því varla verið eina skýringin á þessum afglöpum byggingariðnaðarins og viðskiptabankanna.

Þjóðhagslegi ávinningurinn kemur fram í orkusölunni og tekjum hins opinbera af störfunum sem hafa orðið til. Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar jókst raforkusala um 40%. Gert er ráð fyrir að tekjur síðasta árs hafi verið um 12.5 milljarðar króna. Arðsemi eigin fjár reiknast vera 13.4%. Þetta þýðir að virkjunin sem ríkið á og kostaði skilar hagnaði og bætir lífskjör landsmanna. Um 40% af útflutningstekjum Alcoa verða eftir í landinu. Það eru um 30 milljarðar króna á hverju ári. Um 800 störf hafa orðið til með álverinu á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun. Að auki munu um 70 störf bætast við árið 2012 þegar ný kersmiðja verður tekin í notkun og um 160 manns fá vinnu við að byggja hana.

Óttast var að þessi stærsta einstaka framkvæmd Íslandsssögunnar myndi valda þenslu og verðbólgu og þannig skaða almenning. Það gerðist ekki. Aðeins um þriðjungur af samanlögðum framkvæmdakostnaði kom inn í íslenskt efnahagslíf. Þessir 85 milljarðar króna reyndust vera aðeins um 5,7% af þeim 1500 milljörðum króna sem heildarfjárfesting atvinnugreina á Íslandi varð á árunum 2003-2008. Aðeins dropi í hafið.

Íbúum fjölgaði um 1700 manns á miðsvæði Austurlands eða um 22% og reyndust spár ótrúlega nærri lagi. Því var spáð að án framkvæmda hefði fækkað um 540 manns á svæðinu. Meiri tekjuaukning hefur orðið á Austurlandi en annars staðar á landinu og hafa meðaltekjur þar verið þær hæstu á landsbyggðinni síðan 2002. Meðallaun í álverinu voru á síðasta ári um 540 þúsund kr/mán. Til samanburðar þá voru regluleg heildarlaun á Íslandi 393 þúsund kr/mán árið 2008.

Þá er talið í skýrslunni að svonefnd ruðningsáhrif hafi ekki orðið að neinu marki. Talið er líklegt að sú fækkun starfa sem varð í sjávarútvegi á þessu svæði hefði orðið þótt ekkert hefði orðið af stóriðjunni.

Innviðir samfélagsins hafa mjög styrkst á framkvæmdatímanum með nýrri höfn, nýjum vegum, brúm og jarðgöngum. Ferðaþjónustan efldist óumdeilanlega verulega vegna framkvæmdanna.

Þetta er skýrar og afdráttarlausar niðurstöður. Fólksfækkun varð utan áhrifasvæðis framkvæmdanna, bæði fyrir norðan í Þingeyjarsýslunum og fyrir sunnan í Austur Skaftafellssýslu samtals um 900 manns. Það lýsir betur en nokkuð annað hvað gerist ef ekkert er aðhafst í atvinnumálunum. Sama hefði gerst á miðausturlandi ef stóriðjan hefði verið slegin af. Í Þingeyjarsýslunum mun það sama jákvæða gerast í atvinnumálum svæðisins ef ráðist verðu í stóriðju við Húsavík. Kárahnjúkavirkjunin og álverið í Reyðarfirði hafa sannað gildi arðbærs atvinnureksturs í stóriðju fyrir land og þjóð.

Vatnsaflið og jarðhitinn eru auðlindir vegna þess að það er hægt að breyta þeim í verðmæti, það er aðeins hægt með arðbærum atvinnurekstri. Stóriðja er komin til að vera, líka á landsbyggðinni, vegna þess að hún bætir hag landsmanna. Umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið eru þörf og eiga fullan rétt á sér, en þau eiga að stuðla að skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar en ekki að koma í veg fyrir hana. Það er ekkert annað sem kemur í stað glataðra verðmæta ónotaðrar auðlindar.

Greinin birtist í Mbl. 9. nóv.

Athugasemdir