Stigamennska viðskiptaráðherra

Pistlar
Share

Margt er það sem almenningi svíður í efnahagshruninu og full ástæða er til þess, en það verður að fara að lögum og stjórnarskrá. Það er hlutverk ráðamanna þjóðarinnar að ganga á undan með góðu fordæmi í þeim efnum. Það er eina færa leiðin út úr vandanum. Þegar ráðherra setur eru fram kröfur til dómstóla um að fella dóma án lagastoðar og hann ætlar Alþingi að yfirtaka hlutverk þeirra er verið að grafa undan undirstöðum þjóðfélagsins og sýna stjórnarskrá landsins himinhrópandi lítilsvirðingu.

Viðskiptaráðherrann núverandi hefur gengið flestra manna lengst í óábyrgum yfirlýsingum af þessu tagi sem hafa gengið svo langt að líkja má við pólitíska stigamennsku. Hann hefur vegið að dómstólum landsins og gerir kröfu til þess að þeir dæmi á þann veg sem ráðherranum þóknast. Ráðherrann hefur ítrekað krafist þess að fjármálafyrirtæki felli niður skuldir tiltekinna viðskiptavina og hefur hótað lagasetningu ef ekki verið gengið að kröfum hans. Með framgöngu sinni grefur ráðherrann undan trausti á dómstólum landsins og veikir tiltrú á því að hér sé réttarríki.

Viðskiptaráðherrrann boðar lagafrumvarp þar sem samningar verða gerðir ólögmætir, eins og hann kemst að orði. Ætlunin er að ákveða með lögum hvaða fasteignaveðlán með gengistryggingaákvæði fái sömu meðferð og bílalánasamningarnir sem Hæstiréttur dæmdi ólögmæta. Þessi áform ganga gegn stjórnarskrá landsins. Þar er ákveðið að það sé dómstóla að ákveða hvað sé lögmætt og hvað ekki. Þrískipting valdsins kveður á um það og hún tryggir að hvorki ráðherrar né Alþingi hafa neitt um störf dómstóla að segja. Dómstólar landsins munu ógilda hverja þá löggjöf sem tekur dómsvaldið af þeim.

Í Fréttatímanum síðasta föstudag þar ræðst ráðherrann að Héraðsdómi Suðurlands fyrir það eitt að hafa dæmt að lögum. Ráðherrann krefst þess að lög sem sett voru um afnám ábyrgðamanna gildi um ábyrgðir sem veittar voru fyrir lagabreytingu. Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra krefst þess að dómstólar brjóti grundvallareglu stjórnarskrárinnar og dæmi án lagastoðar. Í Fréttatímanum segir hann að dómur Héraðsdóms Suðurlands sé úrelt lögfræði og að Hæstiréttur muni koma í veg fyrir að uppgjör eldri skulda verði með eðlilegum og siðferðislega réttum hætti verði héraðsdómurinn staðfestur.

Ráðherrann og ríkisstjórnin geta beitt sér fyrir lögum sem létta skuldum og kvöðum af einstaklingum og fyrirtækjum. En þá verður það hlutskipti ríkissjóðs að bera kostnaðinn af því. Það er ekki hægt án bóta að ráðstafa eignum til annarra, jafnvel ekki þótt í hlut eigi óvinsæl fjármálafyrirtæki. Lög gilda jafnt yfir alla án tillits til almenningsálits á hverjum tíma. Það á að vera munur á stjórnvöldum og siðlausum fjárglæframönnum. Stjórnvöld eiga ekki að haga sér eins og þeir gerðu.

Telji ráðherrann og ríkisstjórnin að nýju bankarnir geti borið tugi og jafnvel hundruð milljarða króna tap er leiðin ekki sú að gera eign þeirra upptæka bótalaust. Stjórnarskráin leyfir það ekki. Hins vegar er hægt með lögum að leggja skatta á eignir og hagnað og ná þannig peningum í ríkissjóð ef það er rétt sem haldið hefur verið fram að nýju bankarnir hafi grætt 300 milljarða króna með því móti að fá lánasöfn gömlu bankanna á miklum afslætti. Ríkið gæti þá endurheimt eitthvað af því fé sem það lagði í endurreisn bankakerfisins.

En hvorki viðskiptaráðherra né ríkisstjórnin, hvað þá Alþingi getur tekið sér fyrir hendur að ganga gegn stjórnarskrá landsins. Dómstólum er þar falið að dæma og að fara einungis að lögum. Framganga ráðherrrans er slík pólitísk stigamennska að hún á sér engin fordæmi og án nokkurs vafa er brot á 8. gr. laga um ráðherraábyrgð. Kannski að Landsdómur fái fleiri verkefni en þegar er orðið.

Athugasemdir