Dómur Hæstaréttar: inngrip Alþingis óhjákvæmilegt

Pistlar
Share

Dómur Hæstaréttar síðastliðinn miðvikudag gerir það óhjákvæmilegt að sett verði lög um framhaldið. Nú liggur fyrir að ólögmætt er að tryggja veitt peningalán í íslenskum krónum miðað við verð erlendra mynta. Fram hefur komið að dómurinn snertir lán að fjárhæð nokkur hundruð milljarða króna og getur þýtt í mörgum tilvikum að sá sem tók lánið muni að óbreyttu borga aðeins brot af láninu til baka og að sama skapi að þeir sem veittu lánið verða fyrir gríðarlegu tjóni. Lánssamningarnir eru áfram í gildi að öðru leyti en verðtryggingin er ógild.

Er einhver ástæða til þess að bregðast við? Svarið er já. Í gildandi lögum nr 7/1936 um Samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er ákvæði sem heimilar dómstólum að víkja til hliðar samningi í heild eða að hluta eða breyta ef ákvæði hans eru ósanngjörn eða andstæð góðri viðskiptavenju. Lánasamningarnir, sem dómur Hæstaréttar hefur áhrif á, eru augljóslega ósanngjarnir. Annar aðilinn fær lán og endurgreiðir það ekki nema að takmörkuðu leyti og mun hagnast gríðarlega ef réttar eru lýsingar í fjölmiðlum. Lánafyrirtækin munu líklega leita til dómstóla og krefjast breytinga á lánssamningunum þannig að þeir verði sanngjarnir. Fyrir þeirri körfu eru sterk rök sem líklegt er að dómstólar verði við. En það mun taka tíma og viðhalda óvissu um það hvernig nákvæmlega niðurstaðan verður að lokum. Þess vegna er frumkvæði Alþingis nauðsynlegt sem allra fyrst.

Þetta er fyrsta ástæðan fyrir því að löggjöf er nauðsynleg, það eru ósanngjarnir skilmálar að lántakandinn endurgreiði aðeins hluta skuldarinnar, hvort sem miðað er við erlenda mynt eða hefðbundna íslenska verðtryggingu. Færa má rök fyrir því að sanngjarnt væri að skuldarinn greiddi af láninu miðað við tryggingu við vísitölu neysluverðs eða sambærilega skilmála. Þá væri hann jafnsettur þeim sem tóku lán með þeim skilmálum og endurgreiddu verðmæti þess.

Önnur ástæða er sú ef ekkert yrði aðhafst myndi mikill munur vera á íslenskum lántakendum, hluti þeirra slyppi billega frá skuldbindingum sínum en annar hluti og líklega stærri greiddi þær að fullu. Slík mismunun myndi trúlega skapa mikinn óróleika og harðar kröfur um sambærilega niðurfellingu skulda hjá seinni hópnum. Gengi það eftir yrði allur efnahagslegur stöðugleiki úr sögunni um langa framtíð.

Þriðja ástæðan er sú að ætla má að happdrættisvinningur þeirra sem hagnast af skilmálunum sem eftir standa eftir Hæstaréttardóminn sé skattskyldur skv. ákvæðum tekjuskattslaga. Það mun ekki draga úr óróleikanum í þjóðfélaginu þegar menn sjá fram á háar skattkröfur vegna ávinnings af dómnum. Eðlilegt er að undanþiggja tekjuskatti ávinning lántakenda af því að færa skilmála lánanna að sanngjörnum endurgreiðslum. Það verður ekki gert nema með lagasetningu.

Loks má nefna að dómurinn tekur ekki á vanda þeirra sem raunverulega tóku erlend lán. Það kemur fram í Hæstaréttardómnum að mánaðarleg afborgun hækkaði um 140% á rúmi ári vegna verðhækkunar erlendu gjaldmiðlana sem miðað er við. Það er jafnósanngjarnt að lántakandi þurfi að greiða mun meira en hann tók að láni og að hann endurgreiði aðeins brot af fjárhæðinni. Þess vegna geta ákvæði laganna um Samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga átt við um erlendu lánasamningana og því hægt að óska eftir við dómstóla að lánaskilmálum verði breytt. Vissulega eru það flókin mál og vandfundin sanngirnin, þar sem verðmætið í erlendri mynd hefur ekki aukist í samræmi við hækkunina í íslenskum krónum. En hægt er að setja í lög almennar reglur til þess að styðjast við og fela tilgreindum aðilum verkefnið.

Það þarf að hafa í huga að lánafyrirtækin sem dældu inn í landið ódýru erlendu lánsfé máttu vita það, að þenslan og skuldsetningin sem af því leiddu gróf undan efnahag þjóðarinnar. Gengishrunið og verðbólgan eru afleiðingin og voru fyrirsjáanleg. Á þessum gjörðum sínum bera fjármálafyrirtækin, innlend sem erlend, ábyrgð á og eiga að taka á sig hluta vandans. Að sama skapi geta þeir sem tóku erlendu lánin til innlendrar ráðstöfunar ekki verið stikkfrí heldur. Báðir bera ábyrgð og hinir sanngjörnu skilmálar eiga að endurspegla þá staðreynd.

Eitt ber sérstaklega að varast í umfjöllum um skuldavandann, hvort heldur heimilanna eða fyrirtækjanna. Það eru yfirlýsingar um að hægt sé að losna við vandann með einu pennastriki, einum dómi, velta honum yfir á útlendinga eða af einum þjóðfélagshópi yfir á annan. Skuldirnar eru staðreynd, þær hverfa ekki, einhver greiðir þær að lokum. Almenna reglan er sú að þeir sem stofna til skuldar eigi að greiða hana. Það verður að vera líka almenna niðurstaðan. En það verður að vera sanngjörn endurgreiðsla á hverri skuld og sanngjörn aðstoð við hvern sem er í alvarlegum vanda.

Athugasemdir