Kynbundinn hroki og heilbrigð dómgreind

Pistlar
Share

Margt ágætt var sagt í eldhúsdagsumræðum í gærkvöldi. Þingmenn greindu stöðuna í þjóðmálunum og settu fram sín sjónarmið eins og vera ber. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er einn af nýju þingmönnunum og flutti að mörgu leyti ágætt mál, sérstaklega fannst mér þörf áminning hennar til stjórnmálaflokkanna. Það er fjarri því að þeir hafi tekið á málefnum mistækra þingmanna og frambjóðenda með nægilega röggsömum og ábyrgum hætti.

Forystumenn flokkanna eru enn of mikið að verja flokkinn sem valdastofnun og bera í bætifláka fyrir flokksræðið, sína eigin valdasókn og samtryggingu fjórflokkakerfisins og eru of lítið að greiða götu heilbrigðrar skynsemi og dómgreindar, en það kallar almenningur helst eftir. Einn flokksformaðurinn er svo forhertur að hann kallar það ósvífni að gagnrýni komi fram innan flokksins á störf hans sjálfs.

En um eitt hnaut ég í ræðu Sigríðar Ingibjargar, sem verður ekki leitt hjá sér. Hún sagði af miklum þunga að tvær konur hefðu verið hraktar úr sölum Alþingis. Þær hefðu að vísu gert mistök en væru ekki einar um það og stjórnmálaflokkarnir ættu margt ólært ef þeir héldu að nóg væri að fórna tveimur drottningum til þess að fá syndaaflausn hjá kjósendum. Við þennan málflutning verður að gera alvarlegar athugasemdir.

Í fyrsta lagi er hallað réttu máli. Konur hafa ekki sérstaklega verið fórnarlömb umfram karla. Bæði Illugi Gunnarsson og Björgvin G. Sigurðsson hafa báðir vikið úr sölum Alþingis um tíma eins og Þorgerður Kartín Gunnarsdóttir, önnur konan sem Sigríður Ingibjörg vísar til. Árni Johnsen sagði af sér þingmennsku fyrir nokkrum árum og axlaði ábyrgð á sínum mistökum. Til þess að árétta enn frekar að verið sé að afgreiða styrkjamál alþingismanna og misnoktun þeirra á aðstöðu sinni með kynbundnum hætti kallar Sigríður Ingibjörg konurnar drottningar og segir þeim hafa verið fórnað. Þarna vísar hún væntanlega til þess að stjórnmálaflokkarnir ráðist sérstaklega að helstu forystukonunum, drottningunum, og fórni þeim. Drottningartalið er vísvitandi tilraun til þess að afvegaleiða umræðuna. Drottningar eru að jafnaði öðrum fremri og hafnar yfir gagnrýni. Þær gera ekki mistök eða hvað? Illugi og Björgvin G. eru þá bara bersyndugir drengir sem geta bara étið það sem úti frýs?

Í öðru lagi má greina í orðum Sigríðar Ingibjargar að gerðir kvennanna tveggja eigi að meta öðruvísi af því að karlar hafi gert það sama en ekki þolað sömu refsingu. Með öðrum orðum af því að einn sleppi þá eigi annar að sleppa líka. Þetta er slæmt hugarfar. Illgresið í stjórnmálunum verður því aðeins upprætt að það verði rifið upp með rótum hvar sem það er að finna. Það eru fleiri þingmenn sem ekki hafa axlað ábyrgð og vinna á að því að þeir geri það.

Í þriðja lagi dregur Sigríður Ingibjörg úr ábyrgð kvennanna á eigin gjörðum með orðalaginu sem hún velur. Hún segir þeim fórnað og vísar þannig til ætlaðs vilja forystumanna flokkanna til þess að gera konurnar að ósekju að blórabögglum. Það gengur ekki að firra menn ábyrgð með skýrskotun til kynferðis. Kynbundin hroki er ekki svarið við vanda stjórnmálamannanna. Báðar konurnar sem í hlut eiga gegndu um tíma mikilli valdastöðu og nýttu hana sér til persónulegs ávinnings. Þær geta ekki skotið sér undan því. Þær geta hugsanlega bætt stöðu sína með því að leggja allar staðreyndir á borðir og skýra málavöxtu að fullu. En þær geta ekki frekar en karlarnir umflúið þá staðreynd að viðhorf kjósenda hefur breyst.

Nú dugar ekki lengur að vísa til þess að svona hafi aðrir gert á góðæristímanum. Liðnir eru þeir dagar þegar stjórnmálamönnum dugði best að spila með tíðarandanum og samsama sig ruglinu og firringunni. Nú eftir bankabrunið er kjósendum orðið ljóst að bestu stjórnmálamennirnir eru þeir sem héldu fast við heilbrigða skynsemi og höfðu dómgreind til þess að tapa ekki muninum á réttu og röngu. Þeir sem vissu það í góðærinu að rangt var að sækja milljónir til eignamanna og borga með þeim fyrir eigin frama í stjórnmálum og neituðu sér um það sinntu starfi sínu af heilindum og eru traustsins verðir, hinir ekki. Þeir sem beygðu sig ekki fyrir kröfum útrásarvíkinga eða kvótakonunga eru traustsins verðir og hinir ekki. Það mátti öllum vera ljóst frá upphafi hvað var rétt og hvað var rangt og góðærið skildi sauðina frá höfrunum. Kjósendur ljúka svo verkinu í kosningum.

Athugasemdir