Rúin trausti – allt upp á borðið eða hætta

Pistlar
Share

Stjórnmálaflokkarnir eru í litlum metum hjá þjóðinni um þessar mundir. Þeir brugðust meginhlutverki sínu. Þeir stjórnuðu ekki landinu, heldur var þeim stjórnað. Flestir flokkarnir höguðu sér eins og aparnir þrír, þeir sáu ekki, þeir heyrðu ekki og þeir töluðu ekki. Peningar frá fyrirtækjum áttu greiða leið að flokkunum. Peningum fylgja áhrif. Flokkarnir hafa líka verið tregir til þess að leggja spilin á borðið og enn eru ekki öll kurl komin til grafar.

Á árunum 2006 og 2007 sóttu stjórnmálamenn háar fjárhæðir til fyrirtækja sér til handa. Það er almenn regla að þeir sem láta peninga af hendi vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. Fyrirtæki sem afhenda einstaklingi hundruð þúsunda króna eða jafnvel milljónir til þess að kosta prófkjör hans eru ekki í góðgerðarstarfsemi. Þau eru í viðskiptum. Einstaklingur sem tekur við milljónum króna frá einstökum aðilum er líka í viðskiptum. Völdin og áhrifin sem einstaklingurinn getur komist í ,ef vel gengur eða er þegar í og getur viðhaldið, eru það sem málið snýst um.

Valdastaða margra þeirra, sem mikið fengu af peningum, er sláandi. Einn var borgarstjóri, annar var aðstoðarmaður forsætisráðherra og varð formaður borgarráðs Reykjavíkur, sá þriðji varð stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og síðar ráðherra, sá fjórði varð borgarstjóri. Áfram má lengi telja. Völdin í Reykjavík og í ríkisstjórn eru mikils virði. Eftir hrunið varð ljóst að stjórnmálamennirnir sem fóru með völdin höfðu ekki rækt starf sitt. Þeir höfðu látið undir höfuð leggjast að stjórna og leyft einmitt þeim sem stórtækastir voru í fjárveitingunum að haga sér að vild. Geysir Green Energy, REI og Icesave segja allt sem segja þarf um hvað hverjir voru að verki og hverjir vöfðu hverjum um fingur sér.

Nú eru þessir einstaklingar spurðir: hverjir gáfu ykkur peningana? Þá verður fátt um svör. Svarað er fáu til og seint. Farið er undan í flæmingi og ýmist vísað í einhverja flokksnefnd eða að leyfi þurfi frá þeim sem gáfu. Enn hefur enginn gert hreint fyrir sínum dyrum. Enn hefur enginn viðurkennt að áhrif hafi fylgt peningum. En allir hafa þeir viðurkennt að þetta séu of háar fjárgjafir og eigi ekki að líðast.

Víst er að flestir munu vilja trúa því. En hitt er jafnvíst að fáir taka vífillengjurnar trúanlegar. Þeir sem fara undan í flæmingi grafa undan eigin trúverðugleika. Ætla má að neitað sé að upplýsa um gefendurna vegna þess að viðkomandi stjórnmálamaður telji það skaða sig meira en að þumbast við. Af þessari ástæðu eru umræddir stjórnmálamenn rúnir öllu trausti. Vilji þeir ekki leggja spilin á borðið eiga þeir að segja af sér.

Vilji þeir hins vegar fá uppreisn æru er eina færa leiðin sú að hver og einn upplýsi opinberlega að fullu hverjir veittu styrki, leggi öll spil á borðið. Síðan þarf að skipa nefnd valinkunnra manna sem fari yfir verk viðkomandi stjórnmálamanna og kanni hvort þeir hafi misbeitt völdum sínum í þágu þeirra sem gáfu. Þeir sem þáðu háa styrki í ölæði góðærisins en misfóru ekki með vald sitt munu rétta hlut sinn, aðrir ekki.

Nú reynir á forystumenn stjórnmálaflokkanna , þeir geta tekið af skarið og lagt línurnar, ef þeir vilja. En hvort vilja þeir vinna traust kjósenda eða slá skjaldborg um spillinguna í stjórnmálunum?

Athugasemdir