Hver borgaði Framsókn?

Pistlar
Share

Þess er krafist að stjórnmálaflokkarnir og einstakir frambjóðendur þeirra upplýsi að fullu hverjir styrktu þá, sérstaklega fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 og Alþingiskosningarnar árið eftir. Það er af gefnu tilefni, komið hefur í ljós að fyrirtæki sem voru stórtæk í fjárgjöfum sínum áttu beinna hagsmuna að gæta í ákvörðunum þingmanna .

Borgarfulltrúar í Reykjavík hafa löngum dregið að sér aðila sem hafa áhuga á verðmætum sem kunna að liggja í lóðum. Á þessu kjörtímabili bættust við fjármálafyrirtæki sem höfðu sérstakan áhuga á Orkuveitu Reykjavíkur og fjárhagslegum styrk fyrirtækisins. Er nokkur búinn að gleyma darraðadansinum á árunum 2006 og 2007 um Geysir Green Energy og REI og því hverjir voru þar aðalaleikarar og fyrir hverja?

Blandast nokkrum hugur um sambandið milli þessara afskifta nokkurra útrásarvíkinga landsins og tíðra meirihlutaskipta í borgarstjórninni? Kannski var stærsta spillingin í íslenskum stjórnmálum í seinni tíð einmitt þar. Þeir voru ófáir borgarfulltrúarnir sem böðuðu sig upp úr illa fengnu útrásarfé.

Um helgina skrifar í Morgunblaðið einn frambjóðenda Framsóknarflokksins í Reykjavík út af fyrir sig ágæta grein um borgarmálin. En hann gat þess í lokin að þess væri krafist að fólk axlaði ábyrgð og viki af vettvangi fyrir að þiggja háa styrki í prófkjörum. Framsóknarflokkurinn hefði svarað kallinu og skipt um fólk; batnandi flokkum er best að lifa.

Við þetta er nokkru að bæta. Því helst að flokkar þurfa líka að axla ábyrgð ekki síður en einstaklingar. Sá flokkur sem sópar ósómanum undir teppið er að víkja sér undan ábyrgð og axlar hana ekki. Það er Framsóknarflokkurinn að gera. Hann hefur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum. Flokkurinn hefur ekki gefið skýringar á því hvers vegna borgarfulltrúi flokksins sagði af sér í janúarmánuði 2008.

Varð það vegna óeðlilegra fjárhagslegra tengsla við athafnamenn í REI málinu? Hverjir voru það sem styrktu hann og flokkinn um tugi milljóna króna fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006? Voru það sömu aðilar og hugðust komast yfir Orkuveitu Reykjavíkur? Þá var formaður flokksins forsætisráðherra og borgarfulltrúinn verðandi var aðstoðarmaður hans.

Borgarfulltrúinn varð formaður borgarráðs og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur. Hann hafði mikil völd. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis eru viðskipti hans við gamla Kaupþing umfjöllunarefni, boðsferðir til útlanda og laxveiðiferðir. Fram kom í afsagnarbréfi borgarfulltrúans fyrrverandi að birting gagna úr kosningabaráttu flokksins hafi ráðið miklu um að hann ákvað að segja af sér. Enn er ósvarað spurningunni: hver borgaði Framsókn?

Ég tek undir þann málflutning frambjóðanda Framsóknarflokksins að rétt er að bjóða fram nýtt fólk. En það á að gera hreint í húsakynnum flokksins. Nýja fólkið á að upplýsa málin að fullu, leggja spilin á borðið fyrir flokksmenn og kjósendur og draga ekkert undan. Aðeins þannig er hægt að endurvinna glatað traust. En nýtt fólk sem sópar vandanum undir teppið er að bregðast hlutverki sínu og verður samsekt þeim sem það leysir af hólmi. Það velur trúnað við flokkinn og spillta fortíð umfram trúnað við heiðarleg stjórnmál.

Athugasemdir