Vondar eru tillögur Samgönguráðherra og ríkisstjórnarinnar um niðurskurð á framkvæmdum til vegabóta á Vestfjörðum og málflutningur hans gæti verið betri.
Átakshópurinn ÁFRAM VESTUR hefur unnið að því undanfarna mánuði að auka samstöðu Vestfirðinga í samgöngumálum og stilla saman áherslur fólks á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum. Það hefur tekist framar öllum vonum.
Vestfirðingar eru nær einhuga um nauðsyn þess að Vestfjarðavegur 60 frá Bjarkarlundi að Þingeyri verði góður heilsár uppbyggður vegur með bundnu slitlagi. Hvergi annars staðar á landinu býr fólk við jafn slæmar aðstæður. Það eru hagsmunir Vestfirðinga að allur þessi vegarkafli verði sem fyrst endurbættur.Góðan veg þarf milli byggðarlaga til þess að efla byggðina á Vestfjörðum og ekki síður þarf góðan veg áfram suður eftir Barðastrandarsýslunni. Það er ekki annaðhvort eða og það er ekki fyrst einn kafli á leiðinni og annað ekki á meðan. Það er eins og gildandi samgönguáætlun mælir fyrir um í raun, leiðin Bjarkalundur – Þingeyri, og fé veitt til vegagerðar vestan Bjarkalundar og til Dýrafjarðarganga.
Hvergi á landinu er meiri niðurskurður á fyrirhuguðum framkvæmdum en einmitt á þessum versta vegarkafla Íslands. Ekkert nýtt fjármagn er til framkvæmda í veginn um Barðastrandarsýsluna. Það fé sem Alþingi hefur á fyrri árum veitt til verkefnisins hefur aðeins að litlum hluta verið varið til framkvæmda. Skorið er af því sem eftir stendur og engir viðbótarpeningar. Árin 2011 og 2012 á að framkvæma fyrir sömu peninga og árin 2007-2010. Það myndi ganga hægt að vinna Héðinsfjarðargöngin ef fjármögnunin væri svona. En þetta er Vestfirðingum boðið upp á, illa dulbúinn 100% niðurskurð.
Hvergi á landinu hafa íbúarnir mátt þola jafnmikið sleifarlag, ráðaleysi og viljaleysi stjórnvalda eins og birst hefur í Barðastrandasýslunni. Á átta árum hefur aðeins tekist að leggja um 55 km af nýjum veg. Enn stefnir í frekari tafir á hverjum nýjum vegarkafla sem taka á fyrir. Engin trygging er því miður fyrir því að unnið verði nokkuð á næstu tveimur árum. Þetta er meira og minna sjónhverfing til þess að kasta ryki í augu Vestfirðinga. Ríkisstjórnin sýnir Vestfirðingum algert skeytingarleysi og virðingarleysi en hún gefst upp fyrir sérvisku, eintrjáningshætti og ofgasinnuðum umhverfisverndarsjónarmiðum. Það mun taka 3 – 4 áratugi að ljúka vegagerðinni frá Bjarkalundi að Þingeyri með þessi áframhaldi.
Ofan í ráðaleysi sitt í Barðastrandarsýslu bætir ráðherrann því við að slá Dýrafjarðargöngin algerlega út af borðinu. Lagt er til að þurrka út gildandi fjárveitingar til Dýrafjarðarganga og eftir það verður framkvæmdin hvergi til í nokkurri samþykktri samgönguáætlun. Þetta er líka 100% niðurskurður.
Í vandræðum sínum grípur Samgönguráðherra til þess að kenna Vestfirðingum sjálfum um þetta. Hann segir að þeir hafi sjálfir valið að henda Dýrafjarðargöngum út. Því hefur þegar verið mótmæli af talsmanni Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Þeir ætla ekki að láta bjóða sér svona málflutning. Hvers vegna ætti að skipta upp óloknu verkefni á Vestfjörðum eins og Bjarkarlundur – Þingeyri í ótal aðskilin verkefni þegar önnur stór og mikilvæg verkefni eru tekin sem heild svo sem Hófaskarðsleið í Þingeyjarsýslu og Suðurstrandarvegur, en engu að síður boðin út í mörgum áföngum. Meðan verkið sækist seint á Vestfjörðum verður meira til skiptana fyrir verkefni annars staðar á landinu. Mál er að Vestfirðingar hætti að láta fara svona með sig.
Ráðherrann segir að Dýrafjarðargöngum sé aðeins frestað. Það væri betra ef satt væri. En þetta eru útúrsnúningar. Ráðherrann veit jafnvel og ég að hann getur engu um það svarað hvort Dýrafjarðargöngin verða inn á næstu samgöngutillögu sem lögð verður fram á Alþingi einhvern tímann í framtíðinni. Hann veit hvað ríkisstjórnin ætlar sér og ætti að upplýsa það. Hann veit líka eins vel og ég að Dýrafjarðargöngin eru tekin út núna vegna þess að það er ekki nægilegur pólitískur vilji innan ríkisstjórnarflokkanna fyrir framkvæmdinni. Það eru of margir draugar á ferli jafnvel um hábjartan Dag sem Vestfirðingar þurfa að kveða niður.
Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng eiga að hefjast á þessu ári og þeim á að ljúka 2012. Svo vill til að framkvæmdir við Norðfjarðargöng eiga líka að hefjast á þessu ári og þeim á líka að ljúka 2012. Svo vill til að bæði verkefnin eru til þess að stækka atvinnusvæði og bæta samgöngur. Svo vill til að Norðfjarðgöng á áfram að fara í þótt þeim seinki líklega um eitt ár. En Dýrafjarðargöng á að slá út af borðinu.
Vestfirðingar skilja fyrr en skellur í tönnum. Í þessu máli dugar það eitt að knýja ríkisstjórnina til þess að ryðja úr vegi öllum hindrunum fyrir tafarlausri vegagerð á leiðinni Bjarkalundur – Þingeyri og Dýrafjarðargöngin aftur inn á samgönguáætlunina á sama stað og þau voru.
Athugasemdir