Erlendur hrærigrautur Egils

Pistlar
Share

Þátturinn Silfur Egils í Ríkisútvarpinu í dag var lítt skipulagður hrærigrautur, fleygaður fjórum beinum viðtölum á erlenda tungu. Grautað var saman ólíkum viðfangsefnum, sem hvert um sig gátu verið áhugaverð, en skilið við þau lítið unnin. Stjórnandi þáttarins ber ábyrgð á þessu og verður að undirbúa sig betur. Bæði þarf að afmarka efnið sem taka á fyrir og gera því betri skil.

Sem dæmi má nefna að viðtal við mann um verð íbúðarhúsnæðis selt á nauðungarsölu. Það var áhugavert og stutt rökum. En því þarf að fylgja eftir með því að fá viðbrögð banka og Íbúðarlánasjóðs, skýringar þeirra og sjónarmið. Það væri eðlilegt að gera því skil í næsta þætti. Allt eru þetta álitamál og umfjöllum um eina hlið mála er aldrei tæmandi og oftast nær villandi. En þá þarf stjórnandinn að undirbúa sig, það þýðir ekki að gutla á yfirborðinu.

Nærtækt dæmi er viðtal í síðasta þætti Egils við franskan Evrópuþingmann. Hann setti fram skoðun sína um gildi innstæðutryggingarlöggjafarinnar á EES og ábyrgð stjórnvalda. Vandaður þáttastjórnandi, sem vill halda úti umræðuþætti sem stendur undir nafni, hefði leitað andsvara hjá þeim sem málið varðar helst,í sama þætti eða þeim næsta, forsvarsmönnum Evrópusambandsins, talsmönnum ríkisstjórna Bretlands og Hollands, að ekki sé talað um ríkisstjórnar Íslands. En það var ekki gert. Það var látið ógert. Það var látið ógert að leiðrétta staðreyndavillur þingmannsins og það er þagað yfir því að hann er að gera ágreining við alla málsaðila í Icesave deilunni um grundvallaratriði þess. Svona vinnubrögð lýsa áróðri fremur en umræðu.

Það segir líka sýna sögu um vilhalla stjórnun þáttarins að í tveimur síðustu þáttum hefur hann fengið til sín í viðtal báða þingmenn Vinstri grænna, sem greiddu atkvæði gegn Icesave, og gefið þeim kost á að tala fyrir sínu sjónarmiði, en þeim 32 stjórnarþingmönnum sem studdu lögin er haldið utangarðs. Þær skoðanir eiga ekki erindi til þjóðarinnar í Silfri Egils.

Egill Helgason hélt uppteknum hætti og var með beint símaviðtal við fjóra erlenda viðmælendur á ensku. Það var sérlega athyglisvert að ekkert þeirra skilaði neinni umræðu í þættinum. Enginn viðmælenda Egils í vettvangi dagsins brást við því sem fram kom í viðtölunum og hann ekki heldur. Þvert á móti vék stjórnandinn talinu að öðru en því sem kom fram í símaviðtölunum. Til hvers voru þessi síma viðtöl? Þau gerðu ekkert nema að rjúfa umræðu sem vera átti. Einn gesturinn, sem sat í sjónvarpinu, komst ekki að fyrr en eftir 35 mínútur.

Til samanburðar við ég minnast á Kastljós þátt sem var á mánudaginn í síðustu viku. Þar voru þrír íslenskir viðmælendur og flutt voru símaviðtöl við þrjá erlenda menn. Öll viðtölin voru tekin upp fyrirfram og send út þýdd. Stjórnandi Kastljóssins var undirbúinn, vissi hvað kom fram í viðtölunum og spurði viðmælendur sína í beinu framhaldi spurninga um það sem fram kom í viðtalinu. Þar hafði stjórandinn fyrir því að undirbúa sig og sýndi landsmönnum þá virðingu að flytja erlend viðtöl með íslenskum texta. Fyrir vikið var þátturinn markviss og áhorfendur höfðu gagn af honum.

Í fréttum sjónvarps og útvarps er sú regla að viðtöl á erlendu máli eru þýdd, textuð í sjónvarpi en endursögð í útvarpi. Sama á við um Kastljós Sjónvarpsins. En einhverra hluta vegna gilda þessar reglur ekki um Silfur Egils.

Ég vil að lokum minna á 8. grein útvarpslaga frá 2000 sem kveður á um tal og texta á íslensku. Meginreglan sem sett er í lögunum og gilda um Silfur Egils rétt eins og Kastljós og útvarpsfréttir er þessi:
Efni á erlendu máli, sem sýnt er á sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni.

Undanþágur sem lagagreinin setur, eiga ekki við um Silfur Egils, enda hægur vandi í öllum viðtölum hans síðustu þætti að taka þau tímanlega og senda þau út textuð. Málið snýr að yfirstjórn Ríkisútvarpsins. Hún þarf að gefa landsmönnum skýringar á því hvers vegna lagagreininni er ekki framfylgt þegar Egill Helgason á í hlut.

Athugasemdir