Kjósum og samþykkjum Icesave

Pistlar
Share

Forseti Íslands hefur synjað því að staðfesta lög um ríkisábyrgð á Icesave skuldunum. Það gerði hann með þeim rökum að þjóðin ætti að kjósa um samkomulagið. Þess vegna á þjóðaratkvæðagreiðslan að fara fram, annað væri að ganga gegn ákvörðun forsetans. Kjósendur gera best í því að samþykkja lögin og ljúka þar með þessari langvarandi deilu.

Þjóðaratkvæðagreiðsluna á að nota til þess að draga fram valkostina í stöðunni.Ef lánasamningurinn verður samþykktur er málinu lokið. Engu að síður verður hægt að taka samninginn upp síðar ef sýnt verður fram á bersýnilega ósanngjörn ákvæði í honum. Ef hins vegar lánasamningurinn verður felldur þá er enginn samningur til og deilan óleyst. Þá verður að reyna samninga að nýju og þá þarf að liggja fyrir í meginatriðum hvaða ákvæðum samningsins þarf að breyta og hvernig.

Þetta liggur ekki fyrir hjá andstæðingum samningsins, þeir eru í raun á móti því að greiða nokkuð. Krafa þeirra um þjóðaratkvæðagreiðslu var bara sett fram til þess að koma í veg fyrir að lögin yrðu staðfest og forsetinn féll í þá gryfju. Þegar hann hafði orðið við kröfunni hljóp forysta stjórnarandstöðunnar frá fyrri orðum og vill helst að engin þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Hún hefur engin svör eða úrræði þegar á reynir og vill ekki bera ábyrgð.

Forseti Íslands gerði mikil mistök með því að neita að staðfesta lögin. Með því greip hann inn í úrvinnslu á máli, en þjóðaratkvæðagreiðsla á að snúast um grundvallaratriði í mikilsverðu máli. Hvort Íslendingar eigi að borga eða ekki Icesave innstæðurnar er grundvallarspuringin. Það var mál sem gat staðið undir því að greidd væru atkvæði um. En synjunin nú snýst ekki um það, forsetinn er búinn að staðfesta ákvörðun Alþingis ,þar sem fallist er á að greiða, með áritun fyrri Icesavelaganna. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem nú er framundan snýst að formi til um einstök samningsákvæði. Það er alls endis óvíst að gagnrýnendur laganna gefi nægilega skýra mynd af því hverju þeir vilja breyta og hvernig.

Þetta er í raun fráleit meðferð á valdi forseta Íslands. Honum ber að horfa til þjóðarhags og eðlis máls en er ber að því að láta skoðanakannanir og persónulega hagsmuni stjórna gjörðum sínum. Ólafur Ragnar stóð illa að ákvörðun sinni gagnvart ríkisstjórninni og fer með fleipur um afstöðu Alþingis til þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt er forsetanum ekki sæmandi.

Það eru 15 mánuðir síðan íslensk stjórnvöld féllust á að borga Icesave innstæðurnar í Landsbankanum í samkomulagi við hollensk stjórnvöld. Það eru 14 mánuðir síðan íslensk stjórnvöld viðurkenndu með Brussel viðmiðunum að löggjöf um innstæðutryggingar ættu að gilda hér á landi með sama hætti og í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Það eru 13 mánuðir síðan Alþingi staðfesti það með sérstakri þingsályktun. Engu að síður eru bæði ríkisstjórnin og Alþingi að vinna ,eins og Ragnar Reykás, gegn eigin verkum með yfirlýsingu í nýju Icesave lögunum, þess efnis að „ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi“.

Ríkisstjórnin getur ekki unnið svona og ætlast til þess að vera tekin alvarlega erlendis og skattgreiðendur á Íslandi geta eðlilega ekki sætt sig við borga skuldir sem yfirvöld viðurkenna ekki. Ef ríkisstjórnin er þessarar skoðunar þá á ekki að borga. Slík skoðun byggist væntanlega á traustum lagalegum grunni og með hann að vopni á hún að reka mál sitt erlendis.

Staðreyndin er hins vegar önnur, enda hafa tvær ríkisstjórnin viðurkennt það. Íslensk lög, stjórnarskráin og ákvörðun ríkisstjónarinnar sjálfrar standa til þess að íslenska ríkið beri ábyrgð á innstæðutryggingakerfinu og skuldbindingum þess á íslenskum bönkum eins og ég hef rakið í mörgum pistlum hér á síðunni. Það er ekkert um að villast í þeim efnum, því miður. Staðreyndin er líka sú að bæði samkomulagið og lánasamningurinn við Breta og Hollendinga er mjög hagstætt út frá þeirri forsendu að greiðsluskyldan sé til staðar. Nýjar samningaviðræður geta hæglega leitt til mun verri samnings og í málaferlum fyrir dómstólum eiga Íslendingar mun meira á hættu en viðsemjendurnir.

Ríkisstjórnin verður að tala fyrir samningnum og segja skýrt að lagaskyldan sé fyrir hendi. Því miður hafa hingað til allir stjórnmálaflokkar brugðist í málinu. Þeir hafa ekki þorað að mæta kjósendum og segja sannleikann. Ríkisstjórnin er að gera rétt með því að semja um málið en hún kippir fótunum undan eigin verkum með því að halda fram á sama tíma að ekki beri að greiða. Það er bara til bölvunar að tala tungum tveim. Mál er að því linni.

Þjóðaratkvæðagreiðslan er prófsteinn á ríkisstjórnina ekki síður en stjórnmálaflokkana. En skársti kostur kjósendanna er að samþykkja lögin og ljúka Icesavemálinu burtséð frá afstöðu til ríkisstjórnar eða einstakra stjórnmálaflokka. Kjósendur geta lokið málinu þótt stjórnmálaflokkarnir bregðist.

Athugasemdir