Lítilsvirðing fjölmiðla

Pistlar
Share

Bankahrunið hefur reynst stjórnmálaflokkunum erfitt og víst er að mikið vatn verður runnið til sjávar áður en lokið verður óhjákvæmilegri umsköpun stjórnmálanna. En fleiri aðilar í þjóðfélaginu eru leikendur á þjóðmálasviðinu og hafa verið gerendur og áhrifavaldar, þótt ekki séu þeir þjóðkjörnir.
Mikilvægastir eru fjölmiðlarnir og það er ástæða fyrir því að þeir eru kallaðir fjórða valdið. Völd þeirra eru mikil, þeir ráða miklu um það hvaða mál eru tekin fyrir og hvernig. Umfjöllun í nokkrum fjölmiðlanna um helgina um Icesave málið hefur veri ð með slíkum fádæmum að almenningi er lítilsvirðing sýnd.

Fyrst er að nefna Silfur Egils fyrr í dag. Meginhluti þáttarins fór fram á ensku. Viðtöl við ýmsa erlenda einstaklinga fóru fram á ensku og voru send beint út óþýdd. Þetta hefur Egill Helgason gert áður en aldrei í eins miklum mæli og nú. Það er algerlega fráleitt að sýna óþýdd viðtöl á erlendu máli í íslenska sjónvarpinu og segja þeim sem ekki skilja að þeir geti horft á þáttinn í endursýningu seint um kvöld. Íslendingum er lítilsvirðing sýnd með þessu, tungu þeirra og þjóðerni. Þeir, sem ekki skilja ensku eiga ekki bara sama rétt og hinir til þess að skilja það sem fram fer í þættinum á RÚV, heldur meiri rétt, þar sem RÚV er íslenskt sjónvarp á Íslandi fyrir íslendinga.

Svona framkomu hef ég ekki séð í neinu erlendu sjónvarpi, þar eru viðtöl á erlendu máli ýmist textuð eða, sem oftar er, endursögð samtímis á innlenda málinu. Það er engin gild afsökun til fyrir þessarri ítrekuðu lítilsvirðingu sem þjóðinni er sýnd. En fyrst og fremst er verið að gera lítið úr þeim sem ekki skilja ensku. Það var athyglisvert sem Haukur Arnþórsson sagði í þættinum um netnotkunina og hvernig ákveðnir þjóðfélagshópar, svo sem ungir og miðaldra karlmenn á höfuðborgarsvæðinu, nýta sér hana meir en aðrir og hafa með þeim hætti meiri áhrif á þjóðfélagsumræðuna en efni er til.
Silfur Egils er að þróast á svipaðan hátt, að verða vettvangur háskólamenntaðs enskumælandi fólks á höfuðborgarsvæðinu, sem í krafti áhrifa þáttarins stjórnar skoðanamyndun, með stuðningi annarra fjölmiðla, í stórum pólitískum þjóðfélagsmálum.

Í öðru lagi fór Egill Helgason út yfir öll eðlileg mörk í umfjöllun um Icesave málið í þættinum. Hann dró saman úr öllum áttum gamalt og nýtt efni, menn sem töluðu gegn niðurstöðu Alþingis og stjórnvalda og meira og minna töluðu fyrir því að Íslendingar ættu ekkert að greiða. Það eru auðvitað gild sjónarmið og hafa heyrst alveg frá upphafi málsins og ekkert að því að gera þeim skil. En það eru ekki einu sjónarmiðin og fjarri því að vera sjónarmið þeirra sem íslendingar glíma við. Það vantaði algerlega málsvara annarra sjónarmiða, sérstaklega þeirrs em hafa orðið ofan á, og það var enginn til þess að rökræða við erlendu gestina.

Til þess að bíta höfuðið af skömminni þá fékk Ögmundur Jónasson, skoðanabróðir Græningjanna í Frakklandi, að vera einn í þættinum á eftir til þess að taka undir málflutning þeirra og stjórnanda þáttarins. Umræðuþáttur RÚV varð að áróðursþætti. Einhliða áróður fór fram gegn niðurstöðu ríkisstjórnarinnar og meirihluta Alþingis. Það var fyrsta framlag helsta umræðuþáttar Ríkissjónvarpsins eftir að ákveðið var að þjóðin greiddi atkvæði um þessa sömu niðurstöðu. Egill Helgason hefur sýnt á undanförnum árum að hann getur stjórnað umræðuþætti um þjóðmálin þannig að vel sé og að áhorfendur hafi gagn af. En nú er hann farinn að gera þáttinn um of að vettvangi fyrir hans eigin skoðun á málunum og það keyrði um þverbak í dag.

Þriðja málið sem ég vil nefna er umfjöllun Ríkisútvarpsins og Bylgjunnar um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar hafa fréttamenn hlaupið á eftir þingmönnum sem krefjast hlutlausrar afstöðu ríkisstjórnarinnar í umræðunni sem fram fer í aðdraganda þjóðaratkvæðgreiðslunnar. Fjármálaráðherra er spurður eins og sakamaður um það hvort ríkisstjórnin ætli virkilega að tala sínu máli. Á vísir.is er frétt Bylgjunnar endursögð undir fyrirsögninni : kosningabarátta á kostnað skattgreiðenda. Viðhorf fréttamannsins kemur þar greinilega fram.

Á sama tíma og RÚV sýnir Silfur Egils með samfelldum málflutningi gegn lögum Alþingis flytja fréttamenn þess athugasemdalaust málflutning stjórnarandstöðuþingmanns sem krefst hlutleysis ríkisstjórnarinnar. Það er eðlilegt að gera grein fyrir sjónarmiðinu en það er líka hluti af vandaðri fréttamennsku að krefja viðkomandi um rökstuðning fyrir skoðuninni. Það var ekki gert. Fyrir vikið sat eftir að það þyrfti sérstaklega að færa rök fyrir því að ríkisstjórnin beitti sér í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir lögunum sem hún fékk samþykkt á Alþingi.

Þvílík vitleysa. Auðvitað mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að þjóðin staðfesti lögin. Það er ekkert að því. Annað væri eitthvað skrýtið. Auðvitað verður kosningabaráttan á kostnað skattgreiðenda að einhverju leyti, kannski að verulegu leyti, Það á við um ríkisstjórnina, en það á líka við um stjórnarandstöðuna. Hún er á kostnað skattgreiðenda. Hvað annað?

Loks get ég ekki stillt mig um að nefna eitt mál enn. Allt frá upphafi hafa forystumenn allra flokka ítrekað sagt í viðtölum bæði innanlands og erlendis að íslendingar myndu standa við skuldbindingar sínar. Nú síðast formaður Sjálfstæðisflokksins. Fjármálaráðherra Dana sagði í fyrradag að Íslendingar myndu fá áframhaldandi lán frá Dönum ef þeir stæðu við skuldbindingar sínar. Kemur ekki þá einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins og segir á mbl.is að ráðherrann sé að hafa áhrif á innanlandsmál á Íslandi með þessari kröfu. Væri nokkuð úr vegi að lesendur fengju skýringar á þessum ásökunum í garð Dana fyrir að segja það sama og formaður Sjálfstæðisflokksins?

Fjölmiðlar er mikilvægir, þeir eru líka mikilvægir í umræðunni um Icesave. Þeir verða að setja sér að draga fram staðreyndir, skoðanir og álitamál. Það eru landsmenn, kjósendur sem eiga að draga ályktanir af framlagi fjölmiðla. Það myndi ég vilja að fjölmiðlarnir hefðu í huga.

Athugasemdir