Það er að koma smátt og smátt í ljós eftir bankahrunið að alvarlegir gallar eru á lýðræðinu hér á landi. Vandi þjóðarinnar liggur ekki bara í því að of margir stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækjanna voru ófyrirleitnir, óheiðarlegir og vanhæfir. Eftirlitskerfið réði ekki við verk sitt, yfirmenn voru ráðnir eftir pólitískri forskrift. Það á við um viðskiptabankana lengst af, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Áhrif þeirra, sem voru undir eftirliti, á framkvæmdavaldið og Alþingi voru of mikil. Þau áhrif réðu miklu um löggjöf og útfærslu hennar.
Innan stjórnmálaflokkanna tengdust ólíkir aðilar saman og gátu spunnið saman valdaþræði sem náðu um allt þjóðfélagið og samtryggt hagsmuni. Einkavæðing bankanna átti að verða leið frá pólitískum áhrifum fárra útvaldra en varð það aldrei. Þegar til kom vildu þeir sem nota flokkana í sína þágu ekki sleppa takinu og þáverandi stjórnarflokkar afhentu bankana útvöldum.
Samtryggingin sá svo um það að kaupin voru aðeins til málamynda, kaupverðið var seint og illa greitt og fengið að láni. Einkavæðingin varð afhending en ekki sala. Upphafið var byggt á óheilindum og framhaldið varð eftir því. Það voru stjórnmálaflokkarnir sem gerðu þetta mögulegt. Flokksræðið innan þeirra er helsta meinsemdin. Það færir fáum mikið vald og því valdi verður að lúta skilyrðislaust. Sá sem rís gegn því verður utangarðsmaður í flokknum og fáum, ef nokkrum, hefur tekist að halda velli til lengdar í andstöðu við forystuna burtséð frá málefnastöðu.
Í frumvörpum ríkisstjórnarinnar um persónukjör, sem nú liggja fyrir Alþingi,segir að markmið persónukjörs sé efling lýðræðisins. Það er rétt að grundvallaratriði í endurreisn þjóðfélagsins er að koma á meira og betra lýðræði. Það er líka rétt að leiðin til þess er að koma á persónukjöri. Sú aðferð felur kjósandanum að velja fulltrúa sinn og gerir hann háðan sér frekar en flokknum.
Skynsamleg útfærla á persónukjöri er leið til framfara. Þá leið hafa aðrar þjóðir farið, sem komust í svipaða stöðu og Íslendingar eru nú. Þær breyttu kosningalöggjöfinni og tóku upp persónukjör í ríkum mæli. Sumar gengu svo langt að kjósa alla þingmenn í einmenningskjördæmum. Ítalir, Frakkar og Austurevrópuþjóðir eru dæmi um þjóðir sem þurftu að uppræta spillingu í stjórnmálum sínum og fóru þessa leið. Annað sem leiddi af auknum áhrifum kjósenda var uppstokkun flokkakerfisins. Gömlu flokksræðisflokkarnir hrundu og voru lagðir niður og nýir stofnaðir með fyrirheitum um nýja og breytta starfshætti.
Það verður að viðurkennast að spilling hefur viðgengist í stjórnmálaflokkunum. Einkavæðing ríkisfyrirtækja er skýrasta dæmið um það. Framsalið í kvótakerfinu er annað. Það má líka benda á sveitastjórnarstigið. Fjársterkið aðilar hafa sett mikið fé í kosningasjóði einstakra frambjóðenda og flokka svo sem fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006. Það er ekki einleikið hvað tregðan við að gera opinskátt hverjir greiddu og hve mikið í framboð einstaklinga er mikil og vettlingatök flokkanna á málinu eru átakanleg. Á eftir framlögunum í kosningasjóðina kom REI málið.
Stjórnmálakerfið hefur þá sérstöðu að allar leiðir til úrbóta og endurreisnar þjóðfélagsins liggja í gegnum það. Þess vegna er fyrsta verkefnið að koma þar á heilbrigðu ástandi.
Hitt er misskilningur hjá ríkisstjórninni að frumvörpin boði nauðsynlegar úrbætur. Persónukjörið, sem þar er teiknað upp , er sjónhverfing og verndar gamla flokksræðið . Enda eru frumvörpin samin af flokkunum og fyrir flokkana. Breytingarnar eru svo litlar að flokkarnir hafa áfram öll tök á málum. Kjósandanum er aðeins veitt val milli þeirra sem flokkurinn velur fyrir hann. Þykir þó sumum nóg um og Samband íslenskra sveitarfélaga vill að sveitarstjórnarmennirnir sjálfir ákveði hvort kjósendum þeirra er treystandi fyrir þessu takmarkaði valfrelsi.
Flokkarnir eru hræddir við kjósendur. Þeir treysta ekki kjósandanum til þess að velja fulltrúa sína og ríghalda í kosningafyrirkomulagið sem hefur verið í gildi síðustu hálfa öldina. Það er alls endis óvíst að þeim verði að ósk sinni. Þegar orsakir bankahrunsins verða betur ljósar, framkomin skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis og lokið rannsóknum sérstakra saksóknara verður sjálft stjórnmálakerfið komið í sviðsljósið og krafist verður endurbóta á því.
Í síðustu alþingiskosningum urðu straumhvörf. Kjósendur sýndu sjálfstæði sitt og kröfu um breytingar á þann hátt að ekki verður misskilið. Fylgi flokkarnir ekki eftir þeim kröfum og breyti sjálfum sér munu nýir flokkar yfirtaka hlutverk þeirra. Flokksræðið er krabbameinið í íslenskum stjórnmálum sem þarf að uppræta .
Athugasemdir