Íbúðalánasjóður til bjargar

Pistlar
Share

Fyrir 5 árum hófu viðskiptabankarnir, sem nú eru allir fallnir, stórsókn gegn Íbúðalánasjóði. Þeir kröfðust þess af þáverandi ríkisstjórn, að sjóðurinn yrði lagður niður og íbúðalánin færð til bankanna. Fyrir því var stuðningur hjá forystumönnum beggja stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Formaður Framsóknarflokksins gekk svo langt að tilkynna, án samþykkis þingflokksins, að sjóðnum yrði breytt og að sjóðurinn myndi hætta beinum lánveitingum til einstaklinga. Þessu var afstýrt með átökum.

Bankarnir létu sér ekki segjast og hófu aðför að Íbúðalánasjóði. Þeir buðu fólki 100% lán til íbúðakaupa. Þeir buðu líka fólki 100% lán án nokkurra kaupa gegn því að greidd væru upp lán sem á íbúðinni hvíldu og væru við Íbúðalánasjóð. Þannig voru greidd upp um það bil 150 milljarða króna lán við sjóðinn. Tilgangurinn var að koma sjóðnum á kné og gera hann gjaldþrota. Íbúðalánsjóður starfar þannig að hann tekur lán sem hann svo endurlánar til einstaklinga. Með því að greiða upp lán einstaklinganna fyrr en til stóð var ljóst að sjóðurinn ætti ekki fyrir endurgreiðslu á sínum lánum þegar að þeim kæmi. Hann kæmist í þrot ef þessi ráðagerð gengi eftir og þá yrði ríkissjóður að greiða háar fjárhæðir. Eftir stæðu bankarnir einir að lánveitingum til íbúðakaupa hjá einstaklingum.

Þessi aðför var fyrir opnum tjöldum og með þátttöku allra þeirra sem tóku tilboði bankanna . Ausið var fé á fólk með gylliboðum, það er þar sem bankarnir vildu lána. Það stóð ekki öllum landsmönnum til boða. Mörg byggðarlög á landsbyggðinni áttu sér ekki neina framtíð að mati bankanna og íbúðareigendur þar fengu engin lán. Svona er stundum veruleikinn gráglettinn, að ekkert þessara byggðarlaga er farið í eyði en allir bankarnir orðnir gjaldþrota.

Í þessari atlögu viku „hinir snjöllu útrásarvíkingar“ til hliðar allri heilbrigðri skynsemi í útlánum. Þeir buðu 100% lán, þrátt fyrir reynslu um allan heim að slíkt væri glapræði. Þeir lánuðu til einkaneyslu gegn veði í íbúðarhúsnæðinu og þeir lánuðu þúsundum einstaklinga til íbúðakaupa í erlendum gjaldeyri. Allt þetta gerðist af þeir voru í stríði við Íbúðalánasjóðinn. Þarna vildi einkaframtakið eiga viðskiptin og ætlaði sér að koma opinberri lánastofnun fyrir kattarnef og baka ríkinu stórfelldan skaða. Hrokinn í einkaframtakinu var svipaður og síðar sást glitta í þegar tekist var á um orkufyrirtækin og virkjunarréttindin í REI málinu og síðar Hitaveitu Suðurnesja.

Nú er þessi orrusta búinn með fullkomin ósigri hinna gráðugu og ósvífnu. En herkostnaðurinn er mikill. Hann mun lenda að einhverju leyti á kröfuhöfum bankanna, innlendum sem erlendum. En íslenskir skattgreiðendur fá sinn skerf af tapinu. Það er útlit fyrir að tugmilljarða króna afskriftir lána muni falla á ríkissjóð, kannski mun meira. Þegar allt er komið í óefni er Íbúðalánsjóði falið að greiða úr málunum. Sjóðurinn mun reynast bjargvættur þeim sem skiptu við bankana og líka þeim sem lögðu bönkunum lið í aðförinni. Talið er að útlán bankanna , veitt 2004 – 2008, með veði í íbúðarhúsnæði séu um 800 milljarðar króna og þar af um 200 milljarðar í erlendri mynt. Þessi vandi er stærri en Icesave svo dæmi sé tekið. En þessi vandi er algerlega innlendur, allir aðilar bæði persónur og leikendur. Hvar væru menn staddir ef viðskiptabönkunum hefði tekist að koma Íbúðarlánasjóði fyrir kattarnef? Um það má aðeins hugsa. „En ólög rísa heima“, orti Páll Vídalín. Það reynast orð að sönnu. Þessi ólög risu svo sannarlega heima.

Eitt að lokum, önnur kaldhæðni örlaganna. Tapið verður líklega svo til allt á höfuðborgarsvæðinu. Einstaklingarnir sem tóku lánin geta ekki greitt þau til baka þegar til á að taka og verðið á íbúðarhúsnæðinu fellur niður fyrir upphæð lánanna. Þetta gerist þar sem bankarnir töldu best að lána á Íslandi og öruggust framtíðin.

Athugasemdir