Kvótinn veðsettur Seðlabanka Evrópu

Pistlar
Share

Í Morgunblaði dagsins er upplýst að hinn fallni banki Glitnir hafi fyrir hurn tekið lán í Seðlabanka Evrópu að fjárhæð tæpur einn milljarður evra eða um 180 milljarðar ísl. króna miðað við núverandi gengi. Sem tryggingu fyrir skuldinni var sett að veði safn lána bankans, sem einkum samanstendur af skuldum sjávarútvegsfyrirtækja við Glitni. Lætur nærri að skuldin sé um þriðjungur af heildarskuldum íslensks sjávarútvegs, ef því sem næst verður komist.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, staðfestir þetta og bendir á að þegar Glitnir féll hafi Seðlabanki Evrópu öðlast rétt til þess að ganga að þessum veðum og leysa lánin til sín. Þá hefðu yfirráð yfir lánum sjávarútvegsfyrirtækja hér á landi færst til erlends banka. Að sinni hefði þessari hættu verið afstýrt og samið um endurgreiðslu lánsins á næstu fimm árum. En Seðlabanki Evrópu hefur enn þessi veð og getur leyst þau til sín ef vanefndir verða á lánasamningnum.

Segja má með nokkrum sanni að um þriðjungur kvótans sé veðsettur erlendum banka, þar sem verðmætin sem í sjávarútvegsfyrirtækjunum liggja og eru veðsett eru fyrst og fremst kvótinn sjálfur. Erlendum aðilum er bannað með lögum að eiga í sjávarútvegi að nokkru marki vegna þess að íslendingar vilja halda fullum yfirráðum yfir auðlindinni og ekki síður tryggja það að tekjurnar af nýtingu hennar verði til þess að efla þjóðfélagið.

Gangi Seðlabanki Evrópu að veði Glitnis fær hann yfirráð yfir lánum einstakra sjávarútvegsfyrirtækja og ef viðkomandi fyrirtæki stendur ekki í skilum þá getur Seðlabankinn eignast veðið. Ekki kom fram í fréttinni hvert veðið er , en það getur verið hvort heldur hlutabréf í útgerðarfyrirtækinu eða eignir þess, svo sem skip. En niðurstaðan er sú að erlendur aðili getur fengið beint eignarhald á um þriðjungi alls kvóta á Íslandsmiðum. Þótt skylt sé að selja eignarhlutinn innan árs er engu að síður erlendur aðili kominn með mikil áhrif á nýtingu fiskimiða landsins sem hann getur haft í langan tíma.

Þetta mál kennir okkur þarfa lexíu. Fyrst þá að bönkunum er ekki treystandi fyrir almannahagsmunum. Stjórnendur Glitnis víluðu ekki fyrir sér að afhenda erlendum aðila tök á helstu auðlind þjóðarinnar í tilraunum sínum til bjargar eigin skinni. Taka verður fyrir þennan leka með lagasetningu. Það er ekki nóg að verja innlent eignarhald í atvinnugreininni , það verður líka að loka fyrir þann möguleika að lánveitingar færi erlendum aðilum þau áhrif sem er verið að forðast með löggjöfinni um fjárfestingu erlendra aðila frá 1991.

En það þarf líka að breyta löggjöfinni um fiskveiðiheimildirnar. Afnema verður ótímabundna úthlutun heimilda, auka kröfur um eigin nýtingu útgerðarmanns á heimildinni og takmarka verulega heimildir til þess að framselja þær til þriðja aðila gegn endurgjaldi. Þessu fylgir að setja þarf sérstaka löggjöf um viðskipti með aflaheimildir og að sjálfsögðu á að skattleggja þau viðskipti.

Núverandi fyrirkomulag hefur leitt af sér gríðarlega verðhækkun veiðiheimildanna og útgerðarmenn hafa keppst við að taka út úr fyrirtækjunum risafjárhæðir, stungið þeim í eigin vasa og skilið þær eftir sem skuldir á fyrirtækjunum. Þessar skuldir, sem fyrirtækin velflest ráða svo ekkert við, er svo verið að afskrifa hægt og hljótt í skilanefndum bankanna þessa mánuðina, jafnvel með kennitöluflakki. Óbreytt kerfi mun að aðeins leiða til þess að sagan endurtaki sig. Ef það gerist mun Seðlabanki Evrópu ekki bara eiga veð í íslenskum sjávarútvegi heldur beinlínis eignast hann.

Athugasemdir