Sóknaráætlun strandar í Reykjavík

Pistlar
Share

Fjórðungsþing Vestfirðinga var haldið um helgina. Þar flutti erindi Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar fyrir alla landshluta. Víst er það virðingarvert að ríkisstjórnin vilji sækja fram og efla atvinnulíf og byggð um allt land, en sannast sagna kom fátt nýtt fram í erindi Dags og virðist verkefnið stefna í að verða enn ein skýrslan ofan á allar hinar fyrri með sömu greiningu og svipaðar tillögur. Helsti munurinn á aðstæðum nú og áður er að atvinnuástand á höfuðborgarsvæðinu er slæmt, enda er að þessu sinni sægur af ráðherrum í stýrihópnum.

Einn er sá vandi, sem við er að glíma, en það er borgarstjórn Reykjavíkur. Hún er orðin að sjálfstæðu vandamáli, þar sem sérhagsmunir , stundum fjársterkra aðila, leggja stein í götu almannahagsmuna í hverju málinu á fætur öðru. Í borginni er vaxandi tilhneiging til þess að líta aðeins á eigin hagsmuni og að höfuðborgin beri engar skyldur gagnvart landsbyggðinni. Svo virðist sem skilin milli borgar og ríkis séu orðin óljós í hugum borgarfulltrúa.

Í síðustu viku var amast við brýnum úrbótum á samgöngum utan höfuðborgarsvæðisins og þess krafist að fé til vegamál verði skipt í samræmi við umferðarþunga en ekki þörf. Samgöngunefnd borgarinnar tekur ekki tillit til þeirrar staðreyndar, að einmitt er litið til þess við röðun framkvæmda og þess vegna eru samgöngur svo góðar sem raun ber vitni um á höfuðborgarsvæðinu. Að sama skapi er samgöngum verulega áfátt víða á landsbyggðinni af sömu ástæðu, úrbæturnar hafa beðið vegna brýnna verkefna á þéttbýlli svæðunum. Þegar loks er komið að fámennari landssvæðunum þá rís upp höfuðborg allra landsmanna og mótmælir alveg sérstaklega. Hvers á landsbyggðin að gjalda að eiga svona höfuðborg? Það verður engin sóknaráætlun gerð um framfarir á landsbyggðinni án mikilla og kostnaðarsamra samgönguframkvæmda.

Rei- málið þar sem Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja voru leiksoppar fjárglæframanna fyrir tilstilli nokkurra borgarfulltrúa sýndi þjóðinni að peningarnir voru komnir á hæla kjörinna fulltrúa og rugluðu þá í ríminu þegar greina átti milli almannahagsmuna og sérhagsmuna.
Annað mál, sem tengist landsbyggðinni , er í svipuðum ógöngum. Það eru samgöngur borgarinnar við landsbyggðina, Reykjavíkurflugvöllur og samgöngumiðstöð. Bæði málin eru í uppnámi vegna þess að borgarfulltrúar vinna gegn þeim. Þrátt fyrir að Reykvíkingar séu að miklum meirihluta til fylgjandi því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni ganga 14 af 15 borgarfulltrúum gegn kjósendum sínum og hafa gert það um árabil.

Þarna strandar sérhver sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar gagnvart landsbyggðinni, í borgarstjórn Reykjavík. Það þarf formaður stýrihópsins, borgarfulltrúinn Dagur B. Eggertsson, að gera sér ljóst. Áður en lengra er haldið þurfa ríkisstjórnin og stýrihópur hennar að svara því hvort full heilindi séu í starfinu um sóknaráætlun. Á að vinna verkið í samræmi við vilja allra landsmanna um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og þarfir þeirra byggðarlaga sem treysta á flugsamgöngur eða ætla menn að tala tungum tveim og sitt með hvorri?

Að lokum er knýjandi að stjórnmálaflokkarnir upplýsi þjóðina um ástæður þeirrar þversagnar sem er á gerðum borgarfulltrúa þeirra og vilja kjósenda um ráðstöfun lands í Vatnsmýrinni. Hvers vegna eru hagsmunir byggingarfyrirtækja teknir fram yfir almannahagsmuni? Fyrirtækja sem sum hver hafa styrkt flokkana eða einstaka frambjóðendur þeirra í prófkjörum og kosningum. Skemmst er að minnast þeirrar furðulegu hugmyndar Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum að leggja til að færa flugvöllinn frá Vatnsmýrinni út á Löngusker. Fyrir hvern var sú hugmynd nema peningamennina, sem sáu gróðavon í því að byggja í Vatnsmýrinni.

Þegar stjórnmálamenn fara að kynna hugmyndir sem þjóna peningamönnum og ganga gegn almannavilja þá er full ástæða til þess að allar viðvörunarbjöllur klingi. Samspil stjórnmálamanna og fjármálamanna hefur líklega óvíða verið nánara en einmitt í borgarstjórn Reykjavíkur á yfirstandandi kjörtímabili. Þennan flór óeðlilegra tengsla þarf að moka og draga ekkert undan. Að öðrum kosti er hætt við að sérhver sóknaráætlun sitji þar föst.

Athugasemdir