Áleiðis – en áfram í brimskaflinum

Pistlar
Share

Eftir samþykkt Alþingis í morgun fyrir skilyrtri ríkisábyrgð hefur heldur miðað áleiðis í siglingu þjóðarskútunnar, en hún er þó áfram stödd í brimskaflinum. Það er vegna þess að enn sem komið er er ekki búið að semja við Breta og Hollendinga um skilmála endurgreiðslunnar á Icesave innstæðunum. Íslendingar eru aðeins búnir að semja við sjálfa sig. Nú taka við viðræður milli samningsaðila og það er ekki gott að ráða í það hvernig þær munu ganga eða hve langan tíma þær taka. Vonandi lýkur málinu sem allra fyrst og á þann veg sem Alþingi hefur ákveðið fyrir sitt leyti, en er ekki á vísan að róa með það. Einhverjar breytingar gætu enn orðið á lögunum um ríkisábyrgðina. Við erum enn í brimskaflinum.

Það er verst fyrir þjóðina hvað dregst að ljúka Icesave málinu. Það tefur alla uppbyggingu og endurreisn í þjóðfélaginu og viðheldur ástandi þar sem kröftunum er beint fyrst og fremst í deilur og átök.Öllu öðru mikilvægara er að fá þjóðina til þess að hafa trú á sjálfri sér og þeirri framtíð sem hún getur skapað sér. Það er skylda allra stjórnmálaflokka að vinna að því og setja þjóðarhagsmuni ofar flokkshagsmunum. Hinar hörðu deilur um Icesave í sumar eru auðvitað að mörgu leyti vel skiljanlegar í því ljósi að fjárhagsleg skuldbinding, sem er lögð á herðar skattgreiðanda, er gríðarleg.

En deilurnar hafa ekki verið skynsamlegar. Þær hafa skaðað þjóðina og gera það að verkum að seinka því að ná niður verðbólgu og atvinnuleysi. Þær hafa grafið undan tiltrú margra á framtíð landsins og boðið heim vantrú, vonleysi og hálfgerða upplausn. Á því tapa allir. Það er hlutverk kjörinna stjórnmálamanna þjóðarinnar að hafa kjark til þess að taka nauðsynlegar ákvarðanir, jafnvel þótt þær séu umdeildar og standa saman um þær. Þeir eiga að veita þjóðinni forystu á ögurstundu.

Verst hefur mér fundist ómaklegar árásir á þá einstaklinga sem voru í samninganefnd ríkisstjórnarinnar. Þeir hafa unnið á ábyrgð ráðherra og ekkert gert annað en það sem þeir hafa viljað og samþykkt á hverjum tíma. Gagnrýni á samninginn á því að beina að ráðherrunum en ekki embættismönnum. Persónulegar árásir eiga að heyra fortíðinni til og það er engin afsökun fyrir þeim nú þótt bankarnir hafi hrunið eins og spilaborg. Saminganefndin lagði sig fram og vann sitt verk eins vel og hægt var að ætlast til miðað við aðstæður. Skammirnar eiga fremur að beinast að þeim stjórnmálamönnum sem áttu sinn þátt í að koma landi og þjóð í þessa stöðu.

Það eru ærin verkefni framundan. Tap Seðlabankans á óábyrgum útlánum bankans og fjárlagahalli ríkissjóðs verða hvor um sig þjóðinni dýrari en Icescave, ef að líkum lætur. Það þarf að draga saman útgjöld hins opinbera mjög tilfinnanlega, en fyrst og fremst þarf að koma atvinnustarfseminni aftur af stað og draga úr atvinnuleysinu. Með því koma tekjur í ríkissjóð og lífskjör almennings batna. Hver dagur sem dregst að hefja þetta verkefni verður þjóðinni dýr.

Hvað svo sem segja má um Icesave samninginn að þá veitir hann þjóðinni skjól í 7 ár. Ekkert þarf að greiða af þeirri skuld þann tíma og hægt er vinna úr öðrum vanda á meðan. Samningurinn styrkir líka stöðu neyðarlaganna að því leyti að nú eiga ríkissjóðir þriggja landa mikið undir því að dómstólar staðfesti það ákvæði laganna að gera innstæður að forgangskröfu. Það er lykilatriði fyrir Íslendinga að svo verði. Þá liggur fyrir að Hollendingar og Bretar munu greiða um 350 milljarða króna til innstæðueigenda og bera þá fjárhæð sjálfir. Það verður ekki gerð krafa af þeirra hálfu á hendur íslenskra stjórnvalda að þau endurgreiði þá fjárhæð.

Eins og fram hefur komið þá greiðir íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn lágmarkstryggingu 20.887 evrur til reikningshafa í Icesave , en allar innstæður á Íslandi í sama banka voru tryggðar. Málaferli hvort heldur er fyrir íslenskum dómstól eða Efta dómstólnum þar sem krafist væri að allar innstæður í íslenskum banka yrðu bættar jafnt yrðu afar óþægileg fyrir íslensk stjórnvöld. Nógu vandasamt verður að verja neyðarlögin ein og sér og fá dómstóla til þess að fallast á það sjónarmið að þau voru nauðsynleg og óhjákvæmileg.

Það má vel vera að unnt verði að fá hollensk og bresk stjórnvöld til þess að gera breytingar á Icesave samkomulaginu. En það verður að vinna hratt og kappkosta að ljúka málinu sem fyrst. Sú ákvörðun Sjálfstæðisflokksins að veita ríkisstjórninni skjól við afgreiðslu ríkisábyrgðarinnar er rétt skref átt og gefur ríkisstjórninni færi á að ljúka verkinu.

Athugasemdir