Engrar undankomu auðið

Pistlar
Share

Íslendingum er engrar undankomu auðið undan ábyrgð á Icesave – innistæðum Landsbankans. Ríkið verður að greiða lágmarkstrygginguna og semja sig frá málinu. Íslensk lög kveða skýrt á um lágmarkstryggingu innistæðna í íslenskum bönkum og lögin um Evrópska efnahagssvæðið taka af allan vafa.

Íslendingar ákváðu ásamt flestum öðrum þjóðum EFTA að gerast aðilar að samstarfi við Evrópusambandið um sameiginlegan markað þessara þjóða. Evrópska efnahagssvæðið tók til starfa í ársbyrjun 1994. Kjarni samstarfsins er svonefnt fjórfrelsi. Það felur í sér að svæðið allt er einn markaður fyrir vinnuafl, fjármagn, vörur og þjónustu og mörk milli landanna eru afnumin hvað fjórfrelsið varðar.

Ætlunin er að atvinnulíf styrkist og lífskjör í löndunum batni með sameiginlegum markaði þjóðanna. Á sameiginlegum markaði þurfa að vera samræmdar reglur. Þá þarf líka yfirþjóðlega eftirlitsaðila og dómstóla til þess að tryggja samræmda túlkun reglnanna. Einsleitnin er lykilatriðið í Evrópusambandinu og er tekin upp í EES samninginn. Án hennar er efnahagssvæðið marklaust. Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA dómstóllinn hafa það hlutverk gagnvart EFTA ríkjunum. Einsleitnin leiddi af sér framsal valds úr landi og af þeirri ástæðu urðu harðar deilur um EES samninginn á Alþingi.

Settar voru samræmdar reglur um innistæðutryggingar innan Evrópusambandsins og þær voru teknar upp á EES svæðinu. Þetta var gert til þess að koma á fót sameiginlegum markaði fyrir bankaþjónustu. Hverju ríki var gert skylt að koma á fót kerfi sem veitti lágmarkstryggingu fyrir innistæður og skyldi það ná til innistæðna í útibúum innlendra stofnana í öðrum aðildarríkjum, eins og skilmerkilega er lýst í frumvarpi sem viðskiptaráðherra lagði fyrir Alþingi 1995 og varð að lögum vorið eftir. Í umræðum á Alþingi benti einn þingmaður, Pétur Blöndal, á að ekkert hafi komið fram í nefndarstarfinu um hvað gerðist ef innistæðutryggingarsjóðurinn ætti ekki fyrir töpum sem honum væri skylt að bæta. En fyrir honum var svarið augljóst: „Þó má óbeint lesa úr tilskipuninni að þá beri ríkissjóður ábyrgð“, sagði þingmaðurinn.

Tilskipun Evrópusambandsins 94/19 lagði línurnar og íslensk löggjöf verður að vera í samræmi við hana. Alþingi hefur með sérstökum lögum gengist undir að tryggja einsleitnina með því að mæla þar fyrir um að „skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja“.

Íslensk stjórnvöld halda því fram að þau hafi uppfyllt EES reglurnar með því að koma á fót innistæðutryggingasjóðnum. Þau segja nóg að búa til kerfið en það þurfi ekki að tryggja peninga innistæðueigenda. Þessi túlkun er ekki í samræmi við tilskipun ESB og ekkert annað ríki Evrópska efnahagssvæðsins er henni sammála.

Einsleitnin er grundvallaratriðið og það höfum við undirgengist. Óhugsandi er að sömu lög séu framkvæmd á einn veg á Íslandi og á annan veg til dæmis í Noregi. Sitji Íslendingar við sinn keip mun Eftirlitsstofnun EFTA taka málið fyrir og kveða upp úrskurð til þess að tryggja samræmda túlkun og framkvæmd innistæðutrygginga. Þaðan fer svo málið farið fyrir EFTA dómstólinn, ef þurfa þykir.

Víst er að unnt að er fá úr ágreiningnum skorið fyrir viðeigandi dómstóli, sem íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt, en það má heita vonlítið að þau nái nokkrum árangri með sjónarmið sitt. Niðurstaðan er fyrirsjáanleg . Vilji íslendingar ekki hlíta reglum EES svæðisins verður allur EES samningurinn í uppnámi vegna þess að ekki verður unað við mismunandi framkvæmd þessara mikilvægu laga.

Tilgangurinn með öllu þessu er að skapa traust sparifjáreigenda á bönkunum. Án innistæðna eru fjármálastofnanir óstarfhæfar. Traust fæst ekki með kerfi án öruggra trygginga. Traust fæst aðeins með kerfi sem tryggir innistæðurnar í raun. Þegar á reyndi í fyrra var það svo. En ríkisstjórnir í Evrópu gripu til þess ráðs að gera betur og ábyrgðust innistæður í fjármálastofnunum umfram það lágmark sem er í tilskipun ESB. Það gerði íslenska ríkisstjórnin líka og ábyrgðist allar innistæður á Íslandi, ekki bara að lágmarki 20.887 evrum heldur að fullu. Það var talið nauðsynlegt til þess að bjarga fjármálakerfi landsmanna.

Eitt af því sem fylgir EES samningnum er að einsleitnin verður að gilda án tillits til þjóðernis. Kjarni samninsins er: sömu lög fyrir alla innan Evrópska efnahagssvæðsins. Það leiðir af sér að innistæður útlendinga í íslenskum banka eru jafntryggar og innistæður Íslendinga. Icesave eru innistæður í íslenskum banka. Undan ábyrgð á þeim verður ekki vikist. Alþjóðlegt samstarf felur í sér kvaðir jafnt sem ávinning. Það á við um Evrópska efnahagssvæðið og mun líka eiga við um aðild að Evrópusambandinu.

Athugasemdir