Straumrof

Pistlar
Share

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni straumrofið í dómgreind stjórnenda hins gjaldþrota banka Straums. Þeir sitja upp með þann dóm á eigin verkum að bankinn er kominn í þrot og bera ábyrgð á því að auki, að margir lánadrottnar bankans munu tapa háum fjárhæðum. Þetta eru verkalokin þrátt fyrir góð laun þeim til handa og velsmurt árangurstengt launaábatakerfi.

Í þessari stöðu áttu þeir straumrofsmenn þann möguleika til yfirbóta og iðrunar að leggja sig fram og gera tapið sem minnst; að bæta fyrir misgjörðir sínar. En þeir litu ekki svo á. Frá þeirra hugmyndalega sjónarhóli skulda þeir ekki neinum neitt, láta greipar sópa um allt sem þeir komast yfir og ekki er beinlínis ólöglegt og gera ekki neitt nema fá sérstaklega greitt fyrir það. Það er útrásarsiðfræðin. Þess vegna varð straumrofið. Þeir eru ekki í sambandi við venjulegt fólk í þjóðfélaginu. Frá þeirra brenglaða sjónarhól var gjaldþrot bankans tækifæri til þess að auðgast meira. Nú með því að fá sérstaklega greitt milljarða króna fyrir að minnka tapið.

Vissulega má segja að stjórnendur bankans réðu ekki öllum þeim atvikum sem komu bankanum á kné. En það er engin afsökun, vegna þess að þannig er það alltaf í öllum fyrirtækjum og hjá öllum stjórnendum. Þeirra hlutverk er að gera sér grein fyrir þróun mála sem ekki verður við ráðið og stjórna fyrirtækinu í samræmi við það. Stjórnendurnir stóðu sig ekki vel, þess vegna fór sem fór. Það er engu lagi lík sú brenglun að ætla sér sérstök verðlaun fyrir að moka eigin flór. Forstjórinn er auðmjúkur í Morgunblaðinu í dag og segir „við lögðum rangt mat á veruleikann“. Því verður seint mótmælt.

Skömmu fyrir jólin 1920 urðu þeir hörmulegu atburðir að landpósturinn Sumarliði Brandsson fórst í hlíðum Vébjarnarnúps á leið frá Grunnavík yfir á Snæfjallaströnd og þaðan til Ísafjarðarkaupstaðar. Daginn eftir fundu leitarmenn lík hans og hóuðu upp í fjallið til þess að láta aðra vita. Þá varð snjóskriða sem banaði þremur leitarmönnum. Þótt merkilegt megi heita komst pósturinn að norðan til skila. Hafliða Gunnarssyni, er lengi var grasnytjamaður á Berurjóðri við Gullhúsár, hafði hugkvæmst að vera kynni, að pósturinn hefði fest í hömrunum í Bjarnarnúpi, en þar sem slysið varð var álitið með öllu ógengt, en samt nokkrar syllur.

Sr. Ágúst Sigurðsson segir frá þessu atviki í bók sinni, Forn frægðarsetur, í kaflanum um prestsetrið á Snæfjöllum. Þar segir :“ Fór Hafliði einn í þá glæfraför að leita póstsins í ógöngum Núpsins. Fann hann pósttöskuna þar á klettasnaga, hnakk Sumarliða og beisli.Með frábærum fimleik kom hann dótinu heim til sín, þurrkaði póstinn, skjöl og peninga og skilaði síðan til póstmeistarans á Ísafirði. Fékk hann 150 krónur fyrir ómakið, 10% af því reiðufé, sem var í töskunni. Póststjórnin var að spara, er hin furðulega póstleið milli Ísafjarðar og Hesteyrar var valin um Snæfjöll og Stað í Grunnavík. Og enn mun ýmsum hafa þókt sparnaðarlega á haldið, er hin stóra ríkisstofnun launaði Hafliða eigi ríflegar það afrek, er hann hafði unnið og raunar krafðist meira áræðis en rétt var að gera ráð fyrir, að nokkrum manni sé gefið.“

Þetta var mikil skilvísi hjá grasnytjamanninum Hafliða, en líklega hefur honum ekki dottið annað í hug. Voru þó aðstæður hans þannig að féð hlaut að freista fátæks manns. Manns ,sem ef til vill vildi verða meira en grasnytjamaður, kannski skapa sér framtíð sem útvegsbóndi eða athafnamaður í vaxandi kaupstöðum landsins. Hann hlaut að sjá í póstpokanum tækifæri, rétt eins og Stjórnendur Straums.

En hann kaus að gera rétt og skilaði pokanum. Lét sér nægja 10% þóknun fyrir mikla hættuför og það að bjarga verðmætum ríkisins og einstaklinga, sem höfðu trúað póstþjónustunni fyrir þeim. Almennt viðhorf þess tíma hefur eflaust vísað Hafliða rétta veginn. Hann kunni skil á réttu og röngu og kunni sér hóf.Hvorugt er hægt að segja um stjórnendur Straums. Vonandi hafa þeir nú séð að sér og eru komnir í samband.

Áhyggjuefnið er áfram það, að straumrofið er trauðla afmarkað við eitt fyrirtæki og fáa menn þar. Það er líklega útbreiddara en við viljum kannski kannast við. Það er mikið verk að vinna til þess að hugarfar grasnytjamannsins á Snæfjallaströnd komist aftur til vegs og virðingar.

Athugasemdir