Of lítið vægi landsbyggðarinnar

Pistlar
Share

Eftirlitsnefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu fylgist með kosningum víða um heim. Nefndin gefur út skýrslur um hverjar kosningar og dregur fram atriði sem betur mega fara í framkvæmd kosninga og löggjöf viðkomandi ríkis. Í skýrslu um Alþingiskosningarnar í apríl 2009 er vakin athygli á misvægi atkvæða.

Um 50% fleiri kjósendur eru á bak við hvert þingsæti á höfuðborgarsvæðinu en eru í landsbyggðarkjördæmunum þremur. Vísað er til þess að Evrópuráðið mæli með því að atkvæðamisvægið sé minna en 10% og alls ekki meira en 15% nema í sérstökum tilvikum. Fimmtíu prósent munur sé of mikið og því segir nefndin að tímabært sé að íhuga endurskoðun á dreifingu þingsætanna. Það er ofmælt í frétt Morgunblaðsins að eftirlitsnefndin átelji atkvæðamisvægið hér á landi. Þau ummæli er hvergi að finna í skýrslu nefndarinnar.

Þá ber að hafa í huga að eftirlitsnefndin gerir athugasemdir við fjölmörg atriði í flestum ríkjum. Í nýrri skýrslu um kosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember 2008 beinir nefndin 38 tilmælum til stjórnvalda um breytingar og tekur að auki fram að þá séu ótalin ýmis áður fram sett tilmæli í fyrri skýrslum.
Eftirlitsnefndin bendir á í skýrslu sinni um kosningar til breska þingsins í maí 2005 að dæmi sé um að misvægi atkvæða í einstökum kjördæmum í Bretlandi sé 30 – 40% og mælist til þess að slík frávik verði skoðuð. Ábendingar nefndarinnar um íslensku þingkosningarnar eru líklega bæði færri og veigaminni en almennt gerist í athugunum hennar í öðrum löndum.

Misvægi atkvæða eftir kjördæmum er aðeins eitt atriði sem litið er til þegar metin eru áhrif kjósenda á löggjöf og stjórn landsins. Þegar horft er á málið í heild sinni vil ég halda því fram að völd og áhrif kjósenda á höfuðborgarsvæðinu séu meiri en þekkist í nokkru öðru lýðræðisríki og að sama skapi sé áhrifaleysi landsbyggðarinnar helsta lýðræðisvandamálið á Íslandi.

Þjóðin getur ekki búið við óbreytta löggjöf ef ekki á illa að fara. Gera verður róttækar breytingar á stjórnarskránni sem dregur úr miðstýringu og færir völd og áhrif í mikilsverðum málum frá Alþingi og ríkisstjórn til íbúa á einstökum landssvæðum. Hið íslenska séreinkenni, sem ekki er bent á í skýrslu eftirlitsnefndar ÖSE, er gífurleg miðstýring og samanþjappað vald í höndum einfalds meirihluta. Færa má rök fyrir því að hér gildi alræði einfalds meirihluta á Alþingi.
Það séreinkenni veldur því að landsbyggðin er að veslast upp og höfuðborgarsvæðið styrkist ár frá ári. Íbúar landsbyggðarinnar hafa lítil áhrif og því minni sem landssvæðið er fámennara. Verst er líklega staða Vestfirðinga og hún mun bara versna að óbreyttu. Engin vissa er fyrir samfelldri byggð í fjórðungnum innan 15 ára.

Róttækra breytinga þörf

Höfuðborgarsvæðið hefur nú 35 þingsæti en ætti að hafa 42 sé miðað við jafnt vægi atkvæða í einstökum kjördæmum. Líklega myndi það ekki hafa nein afgerandi áhrif fyrir landsbyggðina þótt þingmönnum þaðan fækkaði um 7. Aðalatriðið er að höfuðborgarsvæðið hefur þegar rúman meirihluta þingsæta og í krafti þess hafa í síðustu ríkisstjórnum að mestu setið þingmenn þéttbýlisins. Nú eru 9 af tólf ráðherrum þaðan. Þetta þýðir að höfuðborgarsvæðið hefur öll tök á löggjafarvaldinu og framkvæmdavaldinu.

Því til viðbótar eru allir fjölmiðar á landsvísu í Reykjavík líka og það mótar mjög sterkt efnistök og sjónarmið sem sett eru fram. Allt frá útdeilingu fjármagns í einstaka málaflokka, svo sem til vegagerðar eða löggæslu og til staðsetningar háskóla, dómstóla og stofnana ríkisins svo nokkur dæmis séu nefnd. Þegar færa á stofnun frá Reykjavík stökkva fjölmiðlarnir til varnar og finnst á sig ráðist. Þegar skera á niður útgjöld ríkisins gerist það sama þegar niðurskurðurinn færist nær höfuðborgarsvæðinu.

Í flestum öðrum löndum er þessu öðru vísi farið. Löggjafarvald þjóðþingsins er oftast nær í tveimur deildum og aðeins er kosið til annarar deildarinnar í almennum þingkosningum. Í Bretlandi er lávarðadeildin hluti af löggjafarvaldinu en almenningur kýs ekki þá sem þar sitja. Í Hollandi er þriðjungur þingmanna í efri deild. Þeir eru skipaðir af einstökum héraðsþingum án beinnar aðkomu kjósenda.

Svo er í fleiri ríkjum að löggjafarvald og framkvæmdavald er afmarkað þannig að héruð eða fylki fara með hvort tveggja að nokkru leyti. Að sama skapi er vald þjóðþingsins og ríkisstjórnarinnar minna. Í sumum ríkjum eru báðar deildir þjóðþingsins kosnar í almennum kosningum en litið framhjá íbúafjölda í annarri kosningunni. Í Bandaríkjunum kýs hvert ríki 2 öldungadeildarþingmenn án tillits til íbúafjölda, en í hinni deildinni, fulltrúadeildinni, fer fjöldi fulltrúa eftir íbúatölu hvers ríkis. ÖSE gerir engar athugasemdir það fyrirkomulag.

Þetta samræmist tilmælum Evrópuráðsins. Þar er aðeins krafist þess að reglur um jafnt atkvæðavægi séu uppfylltar í kosningum til annarar deildar þjóðþingsins. Það er viðurkennt að hluti af fulltrúum á þjóðþingi viðkomandi lands geti verið kosnir með mjög misjöfnu atkvæðavægi eða jafnvel alls ekki kosnir!

Valdið heim

Umfjöllum Morgunblaðsins og Ríkisútvarpsins um skýrslu eftirlitsnefndar ÖSE hefur beinst að því óréttlæti að 7 umframþingsæti á Alþingi eru í landsbyggðarkjördæmunum miðað við fólksfjölda. Krafan sem skín í gegn er augljós. En í mínum huga er þetta ekki vandinn. Heldur hitt að löggjafarþingið og ríkisstjórnin er komin með of mikið vald í sínar hendur sem á að vera heima í héraði í höndum kjörinna fulltrúa þar.

Það snýr að skattlagningu og þjónustu, menntun, heilbrigðisþjónustu, eftirliti, leyfisveitingum og auðlindanýtingu svo nokkuð sé nefnt. Í dag fer orkan í fallvötnum Suðurlands að mestu til atvinnuuppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu án nokkurrar greiðslu. Hver á frekar að ákvarða nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslum en íbúarnir þar og hvað á það að þýða að fiskimiðin fyrir Vestfjörðum eru að miklu leyti nýtt af skipum úr fjarlægum landshlutum?

Þetta eru stóru málin sem blasa við og fólk á landsbyggðinni á sérstaklega að taka fyrir. Nú er tíminn til þess að skrifa nýja stjórnarskrá sem tryggir hagsmuni minnihlutans sem býr á landsbyggðinni.

stytt útgáfa af pistlinum birtist í Mbl. 4. ágúst.

Athugasemdir