Fádæma rugl

Pistlar
Share

Tillaga ríkisstjórnarinnar um aðild að Evrópusambandinu er slíkt fádæma rugl að hún á sér engan líka.

Verði hún samþykkt fær ríkisstjórnin samþykki Alþingis fyrir því að leggja inn umsókn um aðild að ESB án nokkurra skilyrða né samningsmarkmiða og það sérkennilega er að ákveðið er fyrirfram að aðildarsamningur verði gerður og um hann kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þó skýrt að ætlunin er að gera samning hvað sem tautar og raular. Meira að segja segir í greinargerð með tillögunni að stjórnvöld áskilji „sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið“.

Hvers konar þvættingur er þetta? Hver á að trúa því að sá sem gerir samning og undirskrifi hann ætli sér svo ekki að mæla með því að hann verði samþykktur? Auðvitað verður það ekki svo. Ef efni samnings verður ekki ásættanlegt að mati stjórnvalda eiga þau ekki að skrifa undir og þá verður enginn samningur gerður. Evrópusambandið mun ekki ljá máls á því að hefja viðræður nema fyrir liggi að samningsaðilinn muni samþykkja eigin samning og mæla með honum gagnvart sínum borgurum þegar þar að kemur.

Ætlunin er líka með tillögunni að komast hjá því að Alþingi setji nokkur skilyrði fyrir aðildarsamningi eða markmið sem stefna á með samningnum að uppfylla. Ríkisstjórnin vill fá algerlega frjálsar hendur og geta sjálf ákveðið samningsmarkmiðin að höfðu samráði við þá sem hún kýs að hafa samráð við. Fyrst verið er að óska eftir samþykkis Alþingis er rétt að þingið setji skilyrðin og samningsmarkmiðin; ákvarði rammann sem ríkisstjórninni er falið að vinna innan.

Það fer ekki á milli mála að það eina sem skiptir máli er að gera aðildarsamning við Evrópusambandið og síðan að láta kjósa um hann. Það má spyrja hversu fast samningamenn muni halda um hagsmuni sjávarútvegs og landbúnaðar ef þegar er búið að ákveða að skrifa undir samning burtséð frá því hvort ESB fellst á sjónarmið Íslendinga og hvað halda menn að samningamenn ESB séu líklegir til þess að gefa eftir vitandi þetta?

Það blasir við að þeir sem vilja inn í ESB munu berjast af hæl og hnakka fyrir því að samningur verði samþykktur í boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu hversu lélegur sem hann kann að verða. Í þeirri baráttu verður öllu tjaldað til svo samþykki fáist. Með svona tillögu þarf ekki að spyrja að leikslokum. Hagsmunum landsbyggðarinnar verður fórnað fyrir stuðning á höfuðborgarsvæðinu með eftirgjöf í sjávarútvegi og landbúnaði.

Það er hámark ósvífninnar ef þessi ömurlega þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á ríkisstjórnarfundi á Akureyri.

Athugasemdir