Er málinu lokið?

Pistlar
Share

Síðustu tvær vikur nýliðinnar kosningabaráttu voru undirlagðar af einu máli. Annað komst varla að en fréttir af styrkjum fyrirtækja til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna í aðdraganda borgarstjórnarkosninga árið 2006 og alþingiskosninga ári síðar. Eftir kosningar hefur varla verið minnst á málið í fjölmiðlum og er þó ýmislegt enn óúpplýst. Hverju sætir það? Misstu fjölmiðlar áhugann eða misstu heimildarmenn fjölmiðlanna áhugann þegar kosningarnar voru afstaðnar?

Það er mikilvægt að styrkjamálið verði upplýst að fullu. Enn hafa fáir flokkar gert fullnægjandi grein fyrir fengnum framlögum á árunum 2006 og 2007. Upplýsingar vantar um sum framlög sem voru hærri en 300 þúsund krónur. Ennfremur vantar upplýsingar um framlög til einstakra félaga eða kjördæmissambanda innan flokkanna sem ekki hafa verið færð til bókar í aðalreikningi flokksins.

Það þarf líka að gera grein fyrir því hvort kostnaður hafi verið færður í sérstöku félagi utan við stjórnmálaflokk og í það félag safnað framlögum frá fyrirtækjum. Og það vantar upplýsingar um skuldir flokkanna, hverjum þeir skulda og hvaða tryggingar eru fyrir skuldunum.
Enn eru margir frambjóðendur sem háðu dýra kosningabaráttu á þessum tíma sem ekki hafa lagt spilin á borðið og gert grein fyrir kostnaði og hverjir borguðu.

Ástæðan fyrir því að umræðan fyrir kosningarnar var svo beitt sem raun bar vitni og hafði mikil áhrif á gengi flokka og einstaklinga voru grumsemdir um að fjármagnið hefði haft áhrif á pólitísk störf að loknum kosningum. Þess vegna gengur ekki að málið sofni. Það verður að ljúka því verki sem hafið var og fjölmiðlarnir geta ekki hlaupist frá því. Þeir hófu leikinn og gerðu vel með því og þeir verða líka að hafa þrek til þess að ljúka honum.

Fjölmiðlar eru ekki bara til þess að taka við upplýsingum frá óþekktum aðilum og koma þeim á framfæri. Þeirra hlutverk er líka að vinna sjálfstætt úr upplýsingunum og hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi.

Það eru almannahagsmunir að allar upplýsingar verði dregnar fram. Það þarf líka að skýra málin af sanngirni. Háir styrkir árið 2006 til einstakra stjórnmálamanna í kosningabaráttu við aðstæður þar sem allt flaut í peningum hafa augljóslega ekki sömu áhrif og jafnháir háir styrkir nú, en þeir geta eftir sem áður verið gagnrýniverðir.

Það er að lokum kannski mikilvægast að fjölmiðlarnir séu frjálsir og heilir í umfjöllun sinni en ekki verkfæri til þess að koma höggi á einstaka aðila. Þess vegna verða þeir að ljúka verkinu sem þeir hófu.

Pistillinn birtist í Mbl. í dag.

Athugasemdir