Landsbyggðin borgar : 50% lækkun eignaverðs

Pistlar
Share

Byggðamálin hafa ekki átt upp á pallborðið síðustu árin. Umræða um stöðu landsbyggðarinnar hefur undanfarin ár horfið í skuggann af öðru sem hefur þótt mikilvægt. Er nokkur maður búinn að gleyma öllum fréttunum í hverjum einasta fréttatíma Reykjavíkurfjölmiðlanna um afrek fjármálafyrirtækjanna innanlands sem erlendis með tilheyrandi þulu um gengi hlutabréfa í hinum og þessum fyrirtækjum?

Í þessum sjálfumglaða heimi metgróðans varð hallærislegt að hugsa um byggðamál hvað þá að tala um slík mál. En engu að síður hefur byggðaröskunin haldið áfram þessi ár. Áfram hefur hallað á landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið eflst og styrkst að sama skapi. Eitt af kennileitunum um þróunina er verð á íbúðarhúsnæði. Það tekur mið af hagvexti á viðkomandi svæði, tekjum, samgöngum og mannfjölda.

Fyrir nokkru rakst ég á gömul gögn um fasteignaverð í Reykjavík og á nokkrum stöðum á landsbyggðinni, Keflavík, Ísafirði, Egilsstöðum, Höfn og Húsavík. Byggðastofnun gaf úr skýrslu í desember 1989 um áhrif fólksflutninga á höfuðborgarsvæðið. Höfundur var Ársæll Guðmundsson. Fyrir tuttugu árum, 1988, var verð á fermetra í íbúðarhúsnæði í Keflavík um 75% af verði í Reykjavík. Á Ísafirði var verðið 72%, 66% á Húsavík, 64% á Höfn og lægst var verðið á Egilsstöðum eða um 60%.

Fasteignamat ríkisins birti nýlega tölur um fasteignaverð íbúðarhúsnæðis árið 2008 og þar má sjá tölur á öllum ofangreindum stöðum, auk meðalverðs á höfuðborgarsvæðinu, sem verður að styðjast við í þessum samanburði í stað verðs í Reykjavík. Það eru sláandi tölur sem þar er að finna. Nú hefur íbúðarverð á Egilsstöðum hækkað í samanburðinum og er komið upp í 67% af verðinu á höfuðborgarsvæðinu. Það er eini staðurinn af þeim fimm sem teknir voru til samanburðar 1988, sem hefur bætt stöðu sína á þessum markaði . Það má velta þeirri spurningu upp hvers vegna það er. Sérstaklega mættu stóriðjuandstæðingar svara spurningunni.

En tíðindin eru í versnandi stöðu hinna staðanna fjögurra. Verð á íbúðarhúsnæði í Keflavík hefur lækkað úr 75% í 66%. Það kemur á óvart í ljósi mikillar uppbyggingar á Suðurnesjum en mikið atvinnuleysi þar varpar ljósi á veikleika atvinnulífsins. Þrír staðir skera sig úr fyrir mikla hlutfallslega lækkun íbúðaverðsins. Það hefur fallið um helming þess sem það var fyrir tuttugu árum. Á Ísafirði er verðið nú 37% af verðinu á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að vera um 72%. Á Húsavík er verðið nú 36% í stað 66% fyrir tuttugu árum og á Höfn er verðið lægst eða 32%, en var 64%.

Á þessum þremur síðasttöldu stöðum má ætla að samanlagt verð íbúðarhúsnæðis sé um 40 milljörðum króna lægra en það væri ef verðið væri enn sama hlutfall af verði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og það var fyrir tuttugu árum. Fljótt á litið vantar um 12 milljónir króna á íbúð að meðaltali.

Setja má málið þannig fram að það vanti um 17 milljarða króna upp á verðmæti íbúðarhúsnæðis á Ísafirði ítil þess að það haldi í við verðþróunina á höfuðborgarsvæðinu. Það er þegar að er gáð alltaf einhver sem borgar. Það eru íbúar á Ísafirði, Höfn og Húsavík og reyndar fleiri stöðum sem eru að greiða reikninginn fyrir verðhækkuninni á höfuðborgarsvæðinu.

Verðmætin sem eru í störfunum, kvótanum, atvinnufyrirtækjunum og opinberri þjónustunni hafa verið flutt til höfuðborgarinnar frá landsbyggðinni. Hver er tilbúinn til þess að borga Ísfirðingunum 12 milljónir á hverja íbúð?

Athugasemdir