Framferði margra manna í fjármála- og viðskiptalífinu undanfarin ár hefur verið slíkt að það gengur fram af venjulegu fólki. Myndin er smátt og smátt að skýrast af því hversu langt var gengið í því að maka krókinn og komast undan skattgreiðslum og þannig velta byrðunum af velferðarkerfi landsmanna yfir á almenna launamenn og eftirlaunaþega.
Í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóraembættisins er vikið að einum þætti þessarar hegðunar. Þar er fróðleg grein um skattasmugurnar erlendis sem menn nýttu sér. Það er sérstök ástæða til þess að vekja athygli á framgöngu banka og fjármálafyrirtækja. Í grein Aðalsteins Hákonarsonar um málið kemur fram að bankar og fjármálafyrirtæki hafi boðið einstaklingum og fyrirtækjum upp á fjármálaþjónustu þar sem beinlínis var miðað að því að koma tekjum undan skattgreiðslum til íslenska ríksiins.
Meðal annars var boðið upp á þá þjónustu að flytja bankainnstæður og verðbréfasöfn íslenskra aðila til útlanda. Stofnuðu bankarnir dótturfyrirtæki t.d. í Lúxemborg til þess að fela eignir Íslendinga því engar upplýsinghar var þá lengur að hafa um þær í skráningarkerfum bankanna á ‚islandi og enginn gat vitað eftirleiðis hvort skattskilin voru í samræmi við lög og reglur. Ávöxtun eignanna fór nú fram í Lúxemborg í félögum sem enga skatta borga. Virðist hafa verið allur gangur á því hvort eða hvernig arðurinn var fluttur hingað til lands.
Sumir gerðu það og greiddu fjármagnstekjuskatt í samræmi við lög. Aðrir komu sér upp kreditkortum erlendis og notuðu arðinn til einkaneyslu hér á landi án þess að greiða af honum skatta. Enn aðrir virðast hafa selt hlutabréf í íslenskum félögum í gegnum félag sitt í Lúxemborg án þess aðgreiða skatt af söluhagnaðinum eins og ber að gera. „M.ö. o. þá hafa íslenskir bankar þjónustað aðila sem skattskyldir eru hér á Íslandi við að flytja tekjur sem þeim bar að greiða skatta af hér á landi inn fyrir virkisgarð dótturfélaga sinna erlendis“ segir Aðalsteinn í greininni.
Þetta er ótrúleg lýsing á ófyrirleitni manna. Viðskiptabankarnir, flaggskip íslenska fjármálaundrisins, veittu viðskiptamönnum sínum sérstaka þjónustu til þess að komast undan eðlilegum greiðslum til samfélagsins. Þrátt fyrir þá staðreynd að bæði tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur eru með því hagstæðasta meðal OECD þjóðanna og óvíða lægri skattar þá var það of mikið og virt fyrirtæki í eigu þúsunda landsmanna lögðu sig í líma við að hjálpa mönnum við að komast hjá því að borga skatt.
Ætla má að um 450 milljarðar króna hafi verið flutt úr landi á fjögurra ára tímabili 2002 – 2006 í því skyni að komast hjá skattlagningu samkvæmt upplýsingum sem Indriði H. Þorláksson hefur dregið saman. Hefur hann m.a. bent á að komast megi hjá því að greiða skatt af greiddum arði t.d. af við hagnaði viðskiptabankanna, með því að arðurinn sé greiddur til félags sem skráð er í Hollandi. Jafnvel þótt eigandinn og sá sem arðinn fær greiddan sé íslenskur og starfsemin hafi öll verið hérlendis.
Þeir sem svona hafa hagað sér bjuggu hér á landi, störfuðu hér og nutu allrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga sem þeir þurftu á að halda en komu sér undan því að leggja sitt til samfélagsins. Höfðu þeir þó af miklu að taka. Með þessu háttalagi var byrðunum velt yfir á herðar launafólks sem greiðir 37,2% skatt af launum sínum hvað sem tautar og raular. Af minna tilefni hefði einhvern tíma verið tekið sér í munn orðið aumingjar um þá sem svona höguðu sér.
Athugasemdir