Ríkisstyrkur í sjávarútvegi

Pistlar
Share

Eðlilegar ákvarðanir geta valdið mikilli ólgu við óeðlilegar aðstæður. Það gerðist þegar stjórn HB Granda hf ákvað að greiða eigendum fyrirtækisins arð sem nam 8% af hagnaði síðasta árs. Það má taka undir það sjónarmið að arðgreiðslan sé hófleg. En það eru ekki eðlilegar aðstæður núna og kemur tvennt til.

Annars vegar voru samtök launafólks búin að semja um að gefa eftir um ótiltekinn tíma 13.500 kr. kauphækkun á hverjum mánuði til þess að koma til móts við erfiðleika í atvinnurekstri. Starfsfólk HB Granda hf lagði þannig inn til fyrirtækisins hluta af launum sínum án þess að fá nokkuð í staðinn, en vildi með því treysta grundvöll fyrirtækisins . Þá getur ekki gengið að eigendurnir gangi á lagið og taki til sín framlag launamanna og meira til enda fór ólgan um þjóðfélagið eins og eldur um sinu.

Hitt sem er óvenjulegt er að Alþingi ákvað með sérstökum lögum í desember 2007 að gefa útgerðarfyrirtækjum eftir um tveggja ára skeið stóran hluta af gjaldi sem þau eiga að greiða í ríkissjóð fyrir afnot af fiskimiðunum. Eftirgjöfin nam tæplega 60% af gjaldinu og er nærri 1200 milljónir króna. Veiðar á þorski voru minnkaðar um þriðjung og til þess að mæta erfiðleikum sem því fylgdi var gjaldið, sem greiða á í ríkissjóð fyrir veiðar á þorski, fellt niður að fullu í tvö ár.

Gjaldið fyrir veiðar á öðrum fisktegundum var lækkað um helming af sömu ástæðu. Löggjöfin felur í sér beinan ríkisstuðning til útgerðarinnar fiskveiðiárin 2007/8 og 2008/9 og er framlag skattgreiðenda landsins til fyrirtækjanna. Nú hefur verið dregið úr niðurskurðinum í þorskveiðum um helming og vandi útgerðarinnar minnkað sem því nemur, en hún nýtur áfram sama ríkisstuðnings. Bæði launamenn og ríkissjóður eru að styrkja fyrirtæki í útgerð með því að gefa eftir af sínum hlut og það verða eigendur fyrirtækjanna að hafa í huga við ákvörðun um arðgreiðslur.

Til viðbótar er rétt að minna á hinn varanlega ríkisstyrk til útgerðar sem felst í heimildum til framsals veiðiheimilda. Sá sem hefur heimild undir höndum þarf aðeins að greiða ríkinu 2,42 kr/kg fyrir og getur framselt öðrum heimildina gegn gjaldi án nokkurrar takmörkunar á því. Leiguverðið er um þessar mundir um 160 kr/kg fyrir þorskveiði en var til skamms tíma mun hærra eða um 250 kr/kg.

Með framsalinu getur útgerðaraðili rakað til sín fé án nokkurs tilkostnaðar og hefur nánast sjálfdæmi um gjaldtöku í eigin vasa fyrir veiðar á Íslandsmiðum. Hundruð milljarðar króna hafa runnið til fáeinna manna síðustu 15 árum vegna framsalsákvæða laganna. Af þeim peningum hefur ríkið fengið sáralítið en eftir eru skuldirnar og það verður viðfangsefni sjómanna og fiskverðafólks að greiða þær á næstu árum með vinnu sinni.

HB Grandi hf hefur verið stórtækt í leigu á veiðiheimildum. Á síðasta fiskveiðiári mun fyrirtækið hafa leigu frá sér jafngildi um 3.700 tonnum af þorski eftir því sem næst verður komið og um 1.700 tonnum á því yfirstandandi . Tekjurnar af leigunni nema hundruðum milljóna króna og víst er að þær jafngilda ríflegum ríkisstyrk sem renna í gegnum fyrirtækið og enda sem arðgreiðslur til eigenda.

Það má kannski kalla þetta hina fullkomlega einkavædda skattheimtu þar sem skattheimtumaðurinn þarf engu að skila til ríkisins fyrir afnot af skattstofninum. Þetta er engu skárra fyrirkomulag en ótýnd glæpastarfsemi sem verður að uppræta með harðri hendi.

Athugasemdir