Stjórnlagaþing borgríkisins

Pistlar
Share

Mjög er deilt um frumvarp á Alþingi um breytingar á stjórnarskránni. Svo virðist vera sem samkomulag sé um það fyrirkomulag að framvegis verði það þjóðin sem samþykki breytingar í almennri atkvæðagreiðslu. Horfið verði frá því fyrirkomulagi að Alþingi eitt geri breytingar á stjórnarskránni. Deilt er hins vegar um það hvort gera eigi nú þrjár efnislegar breytingar á stjórnarskránni sem verði ekki bornar undir atkvæði þjóðarinnar.

Á Alþingi að ákvarða hvort stjórnlagaþing verði og þá hvernig eða á að gefa þjóðinni kost á því að ákvarða það? Sama á við um hin tvö efnisatriðin í frumvarpinu, annars vegar innihald auðlindaákvæðis og hins vegar leið fyrir kjósendur að framkalla þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt lög eða eitthvert málefni.

Í ljósi þess að almenn samstaða virðist vera um formbreytinguna,það er hvernig stjórnarskránni verði framvegis breytt er það sérkennilegt að ætla samhliða taka þrjú efnisatriði og afgreiða þau án þess að bera þau undir kjósendur landsins. Spyrja má hvers vegna er kjósendum ekki treyst fyrir því að afgreiða þau mál eins og öll önnur sem síðar kunna að koma.

Fylgjendur stjórnlagaþings þurfa að svara því hvers vegna þeir vilja ekki að kjósendur þeirra fái ekki að ráða því til lykta á sama tíma og sömu þingmenn leggja til að þaðan í frá eigi kjósendurnir að afgreiðla breytingar á stjórnarskránni. Ekki er hægt að bera því við að það tefji framgang stjórnlagaþings. Verði nú gerð formbreytingin ein þá verður hún staðfest á Alþingi í vor að afloknu alþingiskosningum.

Þá getur farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnlagaþingið og aðrar breytingar sem Alþingi kann að vilja gera og að fengnu samþykki þjóðarinnar taka þær breytingar gildi. Þetta gæti legið fyrir í haust. Tillögurnar um stjórnlagaþing miðast við að það hefjist ekki fyrr en að rúmu ári liðnu 17. júní 2010. Ekki verður séð að nein töf verði á málinu, að því gefnu að tillagan verði samþykkt, en það hefur áunnist að þjóðin sjálf hefur tekið ákvörðun í málinu.

Ég hef ítrekað flutt á Alþingi frumvörp um tilteknar breytingar á stjórnarskránni, þar á meðal þá að frá Alþingi verði tekið vald til breytinga og það flutt til þjóðarinnar. Þess vegna fagna ég þeirri samstöðu sem virðist orðin um þá tillögu. Þá er ég líka hlynntur því að setja í stjórnarskrána ákvæði um þjóðareign á auðlindum til lands og sjávar og eins um mögleika fyrir minnihluta þingmanna eða tiltekinn hundraðshluta kjósenda til þess að knýja fram almenna atkvæðagreiðslu um tiltekin mál og ráða þau til lykta á þann veg.

En ég get ekki stutt tillögur um stjórnlagaþing eins og þær liggja fyrir. Alþingi er sá þjóðkjörni vettvangur þar sem breytingum er hreyft og eftir atvikum sent til þjóðarinnar til ákvörðunar. Stjórnlagaþing verður aldrei annað en annar þjóðkjörinn vettvangur með sömu kostum og annmörkum og sá fyrri. Ef alþingismönnum er ekki treystandi þá verður stjórnlagaþingsmönnum líka ekki treystandi. Hvers vegna eiga kjósendur að treysta frambjóðendum til verka á Alþingi sem lýsa yfir vantrausti á sjálfa sig fyrirfram til löggjafarstarfa?

Það vekur sérstaka athygli sem fram kemur í greinargerðinni með frumvarpinu að tillagan um stjórnlagaþingið sé nýmæli sem eigi sér enga beina fyrirmynd í sögu stjórnlagaþinga eða þjóðfunda í lýðræðisríkjum frá síðustu öldum. Hvers vegna er hér lagt til form sem aðrar þjóðir hafa ekki reynt?

Annað sem mér finnst athyglisvert og lansdbyggðarmenn eiga sérstaklega að veita athygli er að í öllum dæmum sem tilgreind eru um stjórnlagaþing á síðustu öld var um sambandsríki að ræða þar sem kosnir voru fulltrúar einstakra ríkja eða fylkja til þess að gæta hagsmuna sinna svæða. Í sambandsríki verður hver hluti ríkisins að samþykkja breytingar. Hér er lagt til hins gagnstæða, fyrirkomulag sem gerir nánast ómögulegt fyrir fulltrúa utan höfuðborgarsvæðisins að ná kjöri.

Stjórnlagaþing ríkisstjórnarinnar yrði fyrst og fremst samkoma borgríkisins. Við vitum alveg hvað það þýðir.

Athugasemdir