Atvinnuleysi er þyngra en tárum taki, það geta þeir borið vitni um sem hafa reynt það. Því miður árar svo í efnahagslífi landsmanna og reyndar er svo víða um veröld, að störfum í ýmsum greinum hefur fækkað hratt. Fyrirsjáanlegt er umtalsvert atvinnuleysi á næstunni, Er áætlað að það geti verið um 9% næstu tvö árin eða um 15.000 manns. Slíkar tölur hafa ekki sést hér á landi um langt árabil sem betur fer og stjórnvöld verða að grípa til allra tiltækra ráða til þess að koma í veg fyrir að slíkt atvinnuleysi festist í sessi.
Úrræðin eru um margt hefðbundinn og þá fyrst og fremst þau að efla atvinnuvegina og skapa ný störf með nýrri framleiðslu. Nýta auðlindir lands og sjávar eftir föngum og láta ekki þröngsýni og fordóma koma í veg fyrir skynsama atvinnustefnu. En því þarf líka að fylgja að mennta vinnuaflið til annarra starfa svo fólkið geti tekist á við breyttar aðstæður og nýtt sér nýja möguleika.
Til þess að svara þeim breytingum hef ég flutt á Alþingi frumvarp til laga sem opnar þann möguleika að atvinnulaus maður geti farið í nám í allt að tvö ár og haldið atvinnuleysisbótum sínum. Námið á að nýtast honum beint í atvinnuleit og er til þess að veita aukin starfsréttindi, auka hæfni til starfa og bæta vinnufærni, svo sem iðnnám eða meistaranám.
Ég tel það muni skipta sköpum fyrir þann sem er í þeirri stöðu að hafa verið á vinnumarkaði og orðið atvinnulaus, að hann geti haft þær tekjur sem atvinnuleysisbætur þó eru. Að jafnaði er viðkomandi búinn að stofna heimili og koma sér upp fjölskyldu og ber umtalsverðar skuldbindingar þess vegna. Nám í tvö ár yrði þungur baggi ef það yrði fjármagnað að fullu með námslánum og mörgum ókleift. Frumvarpið er flutt til þess að bæta úr.
Sérstaklega er horft til þeirra sem búa einungis yfir grunnmenntun. Samkvæmt tölum Hagstofu íslands frá árinu 2007 voru 28% einstaklinga á vinnmarkaði á aldrinum 20 – 64 ára án viðurkenndrar starfs- og framhaldsskólamenntunar. Það samsvarar 45 þúsund manns. Að sama skapi voru tæplega 60% þeirra sem voru atvinnulausir í lok árs 2008 einungis með grunnskólamenntun. Mikilvægt er því að bæta úrræði þessara einstaklinga til að auka vinnufærni sína með því að bæta við námsúrræðum. Það bætir lífsgæði einstaklinganna, styrkir atvinnufyrirtækin og eykur hagvöxtinn. Aukin menntun er svarið við atvinnuleysinu.
Athugasemdir