Höldum fast í fullt sjálfstæði þjóðarinnar

Pistlar
Share

Því verður ekki á móti mælt að íslenskt þjóðfélag hefur ratað í miklar ógöngur. Risavaxin vandamálin blasa við eftir hrun helstu fjármálafyrirtækja landsins. Þau eru tilkomin vegna græðgi, ófyrirleitni og hömluleysis sem fékk að viðgangast öllum til tjóns
Menn héldu í alvöru að endalaust hægt væri að kaupa íbúðir á háu verði og taka allt að láni. Verðið myndi halda áfram að hækka og allt yrði í lagi. Menn héldu að hægt væri að kaupa hlutabréf á metverði og taka lán fyrir kaupunum. Verðið á þeim gæti bara hækkað og hagnaðurinn væri öruggur. Menn héldu að hægt væri að halda uppi lífskjörum með fölsku gengi á krónunni. Útvaldir bankamenn héldu að hægt væri að slá lán hjá sparifjáreigendum um allan heim og að ekki þyrfti að skila peningunum.

En þetta var auðvitað ekki hægt. Nú er komið að skuldadögunum og það kostar lakari lífskjör um skeið. Því miður bitnar ástandið á mörgum sem síst skyldi. Ævintýramennskan í fjármálafyrirtækjunum skilur eftir sig þungar klyfjar sem ekki verður umflúið að greiða.

En það getum við. Þrátt fyrir allt verða skuldir okkar ekki meiri en sumra ríkja í Evrópu. Þrátt fyrir allt verða lífskjör góð í alþjóðlegum samanburði. Þrátt fyrir allt verður hér menntakerfi og heilbrigðiskerfi í fremstu röð í heiminum. Landsmenn hafa alla burði til þess að vinna sig út úr vandanum. Þeir hafa áður tekist á við efnahagsleg áföll og unnið bug á þeim á undraskömmum tíma.

Forgangsverkefni stjórnvalda er að vinna bug á atvinnuleysinu. Auðlindir til lands og sjávar eru miklar og þær á að nýta. Nú þýðir ekki að láta fordóma koma í veg fyrir nýtingu fiski- og hvalastofna eða virkjun vatnsorku og jarðvarma. Landbúnaður er mikilvægur og það á ekki að vega að honum með því að draga úr sjúkdómavörnum heldur á að standa vörð um störfin í framleiðslu og úrvinnslu. Við þurfum störf fyrir vinnufúsar hendur.

Það á að ráðast í frekari álversuppbyggingu ef kostur er á henni. Því hefur verið borið við að ekki eigi að auka hlut álframleiðslu. Því er til að svara að hlutur þorskveiða er stór í sjávarútvegi og á þess vegna að leggjast gegn aukinni þorskveiði ? Nei milljarðarnir sem aukinn veiði gefur af sér koma sér vel fyrir þjóðarbúið og það sama mun gilda um auknar tekjur af álframleiðslu eða annarri stóriðju.

Við núverandi aðstæður á að leggja ofuráherslu á uppbyggingu innviða þjóðfélagsins með framkvæmdum í samgöngumannvirkjum og framförum í fjarskiptum um land allt. Sú fjárfesting mun skila sér fljótt í öflugra atvinnulífi og fleiri störfum og verða til þess að landsmenn komast fyrr upp úr öldudalnum en ella. Víða um land eru brýn verkefni á þessu sviði en ég vil minna sérstaklega á jarðganga- og vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum sem má ekki tefjast frekar en orðið er. Ég vænti þess að núverandi ríkisstjórn lát ekki hvarfla að sér að leggja af Reykjavíkurflugvöll. Öll áform um slíkt er aðför að landsbyggðinni.

Sjálfstæði þjóðarinnar og fullt forræði yfir auðlindum landsins og eigin málum mun reynast okkur mikill kostur sem fyrr.Við eigum að kappkosta að eyða ekki um efni fram og nýta þau úrræði sem felast í sjálfstæðri efnahagsstjórn.
Nú eru ýmsir sem halda því fram að best sé að fela erlendum aðilum að ráða fram úr málum okkar að meira eða minna leyti. Það heitir að deila fullveldi okkar með öðrum þjóðum.

Svona tal minnir mig á dæmisöguna um músina og fílinn sem áttust við í kappleik. Þau deildu saman leikvellinum og spiluðu eftir sömu leikreglum og áttu því að standa jafnt að vígi. En það fyrirsjáanlega gerðist, fíllinn einfaldlega steig ofan á músina þegar honum sýndist. Þannig verður leikurinn í Evrópusambandinu, við verðum í hlutverki músarinnar og þegar stóru ríkin vilja fara sínu fram þá gera þau það. Evrópusambandið mun breytast og yfirtaka æ fleiri svið fullveldisins eftir því sem tímar munu líða hvað sem okkur finnst um það. Heilladrýgst verður Íslendingum að halda fast um fullt sjálfstæði þjóðarinnar.

Við skulum draga Þann lærdóm af nýorðnum atburðum að láta af takmarkalausri trú á gróðann og græðgina, láta af umburðarlyndinu gagnvart ósvífninni og ófyrirleitninni. Það er ekki eðlilegt að beita hvaða hvaða ráðum sem er til að græða og það er heldur ekki eðlilegt að hafa engar hömlur á gróðafíkninni.

Nú þarf að breyta um hugarfar og huga aftur meir að hófsemi, sparsemi, jafnræði og sanngirni. Á þann veg getum við skapað frið og sátt í íslensku samfélagi.

Ræða flutt á Alþingi í umræðu um stefnu nýrrar ríkisstjórnar 4. febrúar 2009

Athugasemdir