Endurreisn í gegnum Alþingi

Pistlar
Share

Eftir hrun viðskiptabankanna hafa augu margra opnast fyrir því að stjórnskipanin sjálf þurfi athugunar við. Auðvitað eru það eigendur og stjórnendur bankanna sem hljóta að bera þyngsta ábyrgð á gjörðum sínum og verða að axla ábyrgð. En engu að síður þarf að skoða kerfið sjálft. Þar á allt að vera undir, löggjöfin, framkvæmd hennar og eftirlit.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar eftir langa reynslu bæði í stjórn og stjórnarandstöðu á Alþingi að veik staða þingmanna sé stór galli sem þurfi að lagfæra. Það er þingmanna sjálfra að hrinda úrbótum í framkvæmd. Leiðin til endurreisnar liggur í gegnum Alþingi.

Ég vil nefna sérstaklega þrjú atriði sem ég tel að verði að breyta, en þeim til viðbótar þarf að bæta starfsaðstöðu þingmanna og launakjör þeirra. Alþingismenn þurfa menn sér til aðstoðar við störf sín og greiðan aðgang að sérfræðingum . Hvort tveggja þykir sjálfsagt þegar ráðherrar eiga í hlut eða háttsettir embættis ríkisins. Laun þingmanna hafa batnað verulega en eru engu að síður langt frá því sem t.d. margir sveitarstjórar hafa eða skrifstofustjórar hjá ríkinu svo ekki sé talað um hærra setta embættismenn.

Eftirlaun þingmanna hafa verið um margt betri en annarra opinberra starfsmanna en það hefur breyst á síðustu árum og sá munur er að mestu horfinn. Umræðan um launakjör alþingismanna og starfsaðstöðu hefur að mínu mati verið á algerum villigötum að undanförnu og hefur leitt það eitt af sér að veikja enn frekar en orðið er stöðu Alþingis. Hverjum það er helst í hag að hafa veikt löggjafarvald?

Vald þjóðarinnar

Fela þarf þjóðinni að ráða stjórnarskrárbreytingum. Þjóðin setti stjórnarskrána í upphafi lýðveldisins árið 1944 en hefur síðan verið haldið utan við málið. Breytingar hafa verið í höndum Alþingis en almennar þingkosningar hafa verið haldnar áður en breyting er staðfest. Gildandi fyrirkomulag þjónar fyrst og fremst ráðamönnum stjórnmálaflokkanna sem geta samið sín á milli um breytingar tiltölulega óhultir fyrir afskiptum hins almenna kjósanda.

Undanfarin ár hef ég þrisvar flutt frumvarp sem mælir fyrir um það að stjórnarskránni verði aðeins breytt í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin er eini aðilinn sem getur breytt því sem þjóðin hefur ákveðið. Óeðlilegt er að þeir sem eiga að starfa eftir grundvallarreglum geti sjálfir breytt þeim.

Löggjafarvald Alþingis

Staðfesta þarf löggjafarvald Alþingis með því að fella brott heimild til ráðherra að gefa út bráðabirgðalög. Heimildin var misnotuð herfilega um áratuga skeið og það leiddi til þess að hún var þrengd umtalsvert árið 1991 en á síðustu árum er vaxandi tilhneyging til þess að misnota hana.

Af sömu ástæðu þarf að taka fyrir það að sami maður geti verið bæði með framkvæmdavald og löggjafarvald á hendi eins og nú tíðkast þar sem ráðherrar eru einnig alþingismenn. Það dettur engum í hug að alþingismaður geti farið með dómsvald á sama tíma og hann er hluti af löggjafarvaldinu eða að ráðherra sé bæði með framkvæmdavald og dómsvald.

Jafn sjálfsagt er að skilja í sundur milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Þessi breyting verður enn brýnni vegna þess að ráðherrar eru 12 en alþingismenn 63. Það kom best í ljós í þingflokki Framsóknarmanna þegar um 7 ára skeið helmingur þingmanna flokksins voru ráðherrar.
Það eina sem dugar til lengri tíma er að draga skýrar línur og víkja hvergi frá þeim. Höfum löggjafarvaldið hjá Alþingi og hvergi annars staðar. Höfum ráðherrana í ráðuneytunum og aðeins þar.

Fjárveitingarvald Alþingis

Höfum fjárveitingarvaldið aðeins á Alþingi. Í stjórnarskránni stendur „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Þessu hefur verið snúið við í lögum um fjárreiður ríkissins og fjármálaráðherra veitt heimild til þess að greiða úr ríkissjóði án heimildar "valdi ófyrirséð atvik því". Með þessu móti hefur ítrekað verið stofnað til útgjalda án samþykkis Alþingis. Fjórum sinnum á síðasta áratug hef ég flutt frumvörp á Alþingi til þess að breyta þessu og hafa lögin í samræmi við stjórnarskrána, síðast nú í vetur.

Vald kjósenda

Auka þarf bein áhrif kjósanda á val þingmanns. Það veitir þingmanninum aukinn pólitískan styrk og vinnur gegn foringja- og flokksvaldinu. Kjördæmin þurfa að vera fleiri og fámennari. Í mörgum ríkjum Evrópu eru einmenningskjördæmi meginreglan og á Ítalíu var sú leið valin gagngert til þess að endurreisa traust á stjórnmálamönnum. Í Þýskalandi er helmingur þingmanna valinn í einmenningskjördæmum og hinn helmingurinn af landslista flokkanna. Þar fær hver kjósandi tvö atkvæði og kýs annars vegar persónu og hins vegar flokk.

Þessar þrjár breytingar efla löggjafarvaldið en draga úr ráðherravaldi, foringjaræði og flokksvaldi. Lýðræðið þrífst best með því að hafa skýrar línur milli einstakra valdþátta og jafnræði milli þeirra. Það varð þjóðveldinu að falli að jafnvægið raskaðist. Einstakir goðorðsmenn kunnu sér ekki hóf í ásókn til valdsins og að lokum hélt þeim ekkert í skefjum nema erlent konungsvald. Foringjavaldið sem ég hef kynnst á undanförnum árum lýsir þróun í átt til pólitískrar konungstignar. Höfum það í huga að lýðveldið getur hrunið innan frá líkt og þjóðveldið gerði.

Athugasemdir