Bráðabirgðalög fyrir 28 milljónir króna.

Pistlar
Share

Fram kemur í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn minni, sem dreift hefur verið á Alþingi, að bráðabirgðalögin sem sett voru 7. júní 2008 höfðu þau einu áhrif að tjónabætur vegna lausafjármuna ,sem Viðlagatrygging Íslands greiddi vegna Suðurlandsskjálftans í maílok, urðu 28 milljónum króna hærri en lögin kváðu á um. Upphæðin deilist á 629 tjón og því um 45.000 krónur að ræða í hverju tjóni.

Bráðabirgðalög getur ráðherra sett þegar brýna nauðsyn ber til skv. því sem segir í stjórnarskránni. Þetta ákvæði var síðast breytt árið 1991 og náðist samkomulag allra stjórnmálaflokka um breytinguna. Tveir þingflokksformenn mæltu fyrir breytingunni, hvor í sinni deild, efri og neðri deild. Framsögumennirnir lögðu áherslu á að verið væri að styrkja Alþingi og dregið yrði úr möguleikum til þess að setja bráðabirgðalög. Margrét Frímannsdóttir var annar þingflokksformannanna og hún skýrði breytinguna svona í ræðu sem hún flutti á Alþingi :

„Að vísu er það svo að ríkisstjórn mun áfram hafa heimild til þess að leggja til við forseta að gefa út bráðabirgðalög meðan þingfrestanir standa, en það er skilningur allra sem að þessu máli hafa staðið að til þess komi ekki nema í sérstökum neyðartilvikum, heldur verði tekinn upp sá nýi siður að verði þörf á skjótri löggjöf utan venjulegs starfstíma Alþingis, t.d. yfir sumartímann, þá verði Alþingi kallað saman til aukafunda til þess að afgreiða hana með eðlilegum hætti“.

Samkvæmt þessu bar að kalla saman Alþingi á síðastliðnu sumri ef það var mat ríkisstjórnannar að þörf væri á laga breytingu. Það var ekki gert. Raunar var það hægur vandi að lækka sjálfsábyrgð í hverju tjóni á lausafjármunum með lagabreytingu eftir að Alþingi væri komið saman um haustið. Mat og uppgjör tjóna tekur marga mánuði og er reyndar ekki að fullu lokið enn. Ekki eru sjáanleg nein rök fyrir því að beita þessu ákvæði stjórnarskrárinnar og setja bráðabirgðalög í skyndingu.

En var yfirhöfuð þörf á því að breyta lögunum? Það sýnist mér ekki. Engin stórvægilegir fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi fyrir einstaklingana sem urðu fyrir tjóni. Bráðabirgðalögin snertu tjón á lausafjármunum. Í svari viðskiptaráðherra kemur fram að heildartjónið hafi numið rúmum 975 milljónum króna. Sjálfsábyrgð var 85.000 kr. í hverju tjóni en var lækkuð í 20.000 kr. með bráðabirgðalögunum. Samtals lækkaði sjálfsábyrgðin um 28 milljónir króna vegna þessa. Það er innan við 3% af heildartjóninu. Það verður að teljast óveruleg áhrif. Í hverju tjóni lækkaði sjálfsábyrgð einstaklingsins um 45.000 kr. sem er líka óveruleg fjárhæð miðað við meðalútgjöld heimilanna eða meðaltekjur. Enga brýna þörf bar til þess að setja þessi bráðabirgðalög.

Auðvitað gat ráðherrann beitt sé fyrir lagabreytingu og lækkun á sjálfsábyrgðinni og víst er að málið er ekki svo stórt að það taki því að gera ágreining um það. En kjarni málsins er sá að augljóslega var þáverandi viðskiptaráðherra með stuðningi ríkisstjórnarinnar að misnota bráðabirgðalagavaldið í máli sem snerti einungis kjósendur hans í Suðurkjördæmi. Þetta mál undirstrikar skýrt að ráðherrum er ekki treystandi fyrir löggjafarvaldinu. Þeir munu misnota það.

Athugasemdir